Viðhald á íslenskum flugvélum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Það er full ástæða til þess að huga að atvinnumálum einstakra starfsstétta ef fyrirsjáanlegt er að atvinnuleysi geti stungið sér niður innan stéttarinnar, ekki síst ef ætla má að mögulegt sé að finna úrræði til að koma í veg fyrir slíkt atvinnuleysi.
    Íslenskir flugvirkjar hafa bent á að nokkrum hluta þess viðhalds sem nú fer fram erlendis á íslenskum flugvélum og varahlutum í þær mætti auðveldlega sinna hér á landi og jafnvel á ódýrari hátt en með því að halda því erlendis. Ekki hefur fagleg hæfni þeirra til þessara verka verið dregin í efa. Hér mun einkum vera um að ræða að flytja meiri hluta viðhalds og viðgerða á varahlutum til Íslands en mikill hluti þeirra viðgerða fer nú fram erlendis.
    Í umfjöllun um ríkisábyrgð vegna flugvélakaupa, fyrr á árum, hafa þau sjónarmið oft komið fram að beina þurfi öllu því viðhaldi og viðgerðum flugvéla hingað til lands sem unnt er. Nú háttar svo til að með endurnýjun flugflota annars millilandaflugfélagsins á Íslandi flytjast flugvélstjórar úr störfum í vélum og niður á jörð. Flugvélstjórarnir eru með flugvirkjum í stéttarfélagi og boðaðar hafa nú verið uppsagnir í haust innan stéttarinnar. Hún bitnar á þeim flugvélstjórum og flugvirkjum sem skemmstan starfsaldur hafa. Hér mun vera um allstóran hóp að ræða. Því leyfi ég mér að bera fram eftirfarandi fsp. sem er að finna á þskj. 935:
,,1. Hversu mikill hluti viðhalds og viðgerða á íslenskum flugvélum og varahlutum í þær fer fram hér á landi?
    2. Hafa flugmálayfirvöld einhver áform um að auka þann hlut til þess að tryggja íslenskum flugvirkjum atvinnu hér á landi?
    3. Eru einhver vandkvæði á því að slíkt viðhald fari að mestu eða öllu leyti fram hér á landi?``