Viðhald á íslenskum flugvélum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Fyrirspyrjandi (Anna Ólafsdóttir Björnsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. greinargóð svör. Ég trúi því ekki að nokkur velkist í vafa um að sé möguleiki á að flytja kostnaðarsöm verkefni inn í landið og fá þau jafnvel betur unnin en erlendis án þess að kostnaður sé meiri, og stundum minni heldur en með því að slík verk séu unnin erlendis, þá beri að stuðla að því að slíkt sé gert.
    Í máli hæstv. samgrh. kom fram hvað þarf til þess að þarna verði breyting á. Hér er bæði í húfi atvinna manna og þjóðhagsleg hagkvæmni, að ég ætla.
    Mér er raunar kunnugt um það að oftar en einu sinni hefur það gerst að íslenskir flugvirkjar hafa orðið að yfirfara og gera við eftir skoðun og viðgerðir erlendis þannig að sá þáttur mætti einnig vera til athugunar, þótt auðvitað sé alltaf erfitt að meta slíkt.
    En ég tel að það sé rétt sem fram kom í máli hæstv. samgrh. að ekki skortir á tækniþekkingu hér innan lands.
    Eins og ég gat um í máli mínu áðan munar hér áreiðanlega mestu ef hægt væri að flytja stærri hluta viðgerða á varahlutum til landsins. Ég vonast til þess að þessi fsp. hafi orðið til að vekja menn til umhugsunar um þessi mál og enn frekar að einhverjar úrbætur muni fylgja eftir, þó ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að hér er við einkaaðila að ræða og tilmæli fremur en tilskipanir gagni.