Viðhald á íslenskum flugvélum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Ég vil einungis bæta því við að ég er reyndar þeirrar skoðunar að Flugleiðir hf. væru þegar komnar af stað með slíka byggingu ef ekki búnar að ljúka henni nema fyrir þá staðreynd að fyrirtækið stendur, eins og menn vita, í gríðarmiklum fjárfestingum þar sem er endurnýjun alls millilandaflugflotans og væntanleg endurnýjun á innanlandsflugflotanum í framhaldinu. Þess vegna hefur það nokkuð staðið í stjórnendum þar að ráðast til viðbótar í þessa fjárfestingu sem trúlega er um eða yfir milljarður króna, byggingin með tilheyrandi aðstöðu.
    En ég ítreka það sem ég áður sagði, að mér þykir sjálfgefið að stjórnvöld, og e.t.v. fleiri aðilar sem þar gætu komið til greina, ættu að huga vandlega að því að styðja við bakið á íslensku flugfélögunum ef þau vilja reyna að færa starfsemi af þessu tagi inn í landið.
    Ég vil bæta því við að enginn vafi er á því að það er æskilegt frá sjónarhóli flugmálayfirvalda að þessi viðhaldsverkefni séu unnin hér innan lands. Það einfaldar mjög allt eftirlit. Ég held að það sé óumdeilt að hér sé í boði þjónusta sem óvíða fæst betri og öllum öryggismálum sé þannig mjög vel fyrir komið ef verkefnin eru unnin innan lands. Og að sjálfsögðu er svo mikilvægt að við það skapast störf og sparast gjaldeyrir sem ella færi úr landi.
    Enn er eitt atriði í þessu sambandi sem gerir það freistandi að slík viðhaldsaðstaða komist upp við nýju flugstöðina á Keflavíkurflugvelli og það er að með því að slík þjónusta yrði þar í boði ættu að aukast enn möguleikar flugvallarins og aðstöðunnar í kringum flugstöðina til að verða mikilvæg skiptistöð, mikilvægur lendingarflugvöllur fyrir millilendingar og tæknilendingar og ýmiss konar þjónustu við erlend flugfélög. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við gætum gert það að býsna myndarlegum atvinnuvegi ef rétt verður á málum haldið í framtíðinni.