Fræðsluvarp
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi er spurt að því hvers vegna fræðsluvarpið var lagt niður. Svarið er einfalt. Það var vegna peningaleysis. Það var ónóg fjárveiting.
    Á síðasta ári lagði framkvæmdanefnd um fjarkennslu fram tillögur vegna fjárlaga fyrir menntmrh. og ríkisstjórnina fyrir árið 1990 upp á u.þ.b. 40 millj. kr. Fjárveitingavaldið, Alþingi og ríkisstjórn, taldi sig ekki geta komið til móts við óskir nefndarinnar og niðurstaðan varð 8,4 millj. kr. til fjarkennslunnar í ár. Þáv. framkvæmdastjóri nefndarinnar og forsvarsmaður fræðsluvarps vildi ekki una svo lítilli fjárveitingu og gaf ekki kost á sér til starfsins á árinu 1990, eins og kunnugt er.
    Í byrjun þessa árs ræddi ráðuneytið stöðu fræðsluvarpsins við Ríkisútvarpið sérstaklega. Forráðamenn þess töldu sig ekki geta tekið við fræðsluvarpinu nema til kæmi sérstök fjárveiting. Þeir létu líka í ljós vissar efasemdir um að fræðsluvarp á vegum útvarpsins í tengslum við skólastarf væri í takt við tímann þegar þess er gætt hver þróunin hefur orðið í notendabúnaði, þ.e. myndböndum og hljóðböndum. Þess skal einnig getið í þessu sambandi að Ríkisútvarpið hefur farið fram á að fá greidda verulega fjármuni í útsendingarkostnað eða 40 þús. kr. fyrir hverja útsenda stund.
    Nýlega hefur Ríkisútvarpið sent reikning fyrir útsendingu fræðsluvarps fyrir tímabilið 21. nóv. 1988 til 20. maí 1989 upp á 4,5 millj. kr., þar með taldar verðbætur upp á 40% af upphæðinni. Þessi útsendingarkostnaður hefur ekki verið greiddur og ég tel ekki ástæðu til að greiða hann miðað við núverandi aðstæður.
    Hinn 15. jan. sl. boðaði menntmrn., Guðný Helgadóttir sem fer með fullorðinsfræðslu í ráðuneytinu núorðið, ýmsa skólamenn, útgefendur og fulltrúa ljósvakamiðla til umræðufundar um fjarkennslumálin. Það var álit fundarmanna að leggja ætti aukna áherslu á að efla opið og sveigjanlegt skóla- og fræðslustarf til að auka möguleika fólks á að afla sér menntunar, óháð búsetu. Margar efasemdir komu fram á þessum fundi um gildi fræðsluvarpsins sem þáttar í fjarkennslu, ekki síst þegar þess væri gætt hvaða útsendingartímar væru notaðir og hversu dýrt væri að vinna gott fræðsluefni. Þess skal getið að framkvæmdanefndin um fjarkennslu fór um 2,5 millj. kr. fram úr fjárveitingum síðasta árs vegna fræðsluvarpsins og samt sem áður var enginn útsendingarkostnaður greiddur. Þannig að af fjárveitingunni í ár verðum við m.a. að borga það sem fór umfram á síðasta ári.
    Eftir þennan fund sem ég gat um áðan og haldinn var 15. jan. sl. og fund með fulltrúum frá Ríkisútvarpinu og í ljósi þeirrar fjárveitingar sem er til ráðstöfunar í ár var ákveðið að bíða átekta með fræðsluvarpið og leggja áherslu á að auka fjarkennslu skólanna sjálfra.
    Í öðru lagi er spurt um til hvers sú fjárveiting verði notuð sem fræðsluvarpi var ætluð á síðustu

fjárlögum, þ.e. fjárlögum ársins 1990.
    Fjárveitingin verður notuð til að styrkja gerð fjarkennsluverkefna. Með fjarkennsluverkefnum er átt við verkefni sem gera nemendum kleift að stunda nám að mestu fjarri skóla með hjálp mismunandi kennslugagna, svo sem kennslubóka, kennslubréfa, hljóð- og myndbandaefnis og með leiðsögn kennara. Þar sem núverandi framkvæmdanefnd um fjarkennslu leggur höfuðáherslu á opið og sveigjanlegt skóla- og fræðslustarf er þess óskað að verkefni verði fyrst um sinn byggð á því námsefni sem fyrir hendi er t.d. í kjarnaáföngum framhaldsskólanna. Nýlega hefur ýmsum skólum og fræðsluaðilum svo og útgefendum verið boðið að sækja um styrk til þess að gera verkefni til notkunar í fjarkennslu.
    Ég vil minna á að fjárveitingin samkvæmt fjárlögum er til fjarkennslu. Og fræðsluvarpið er aðeins hluti af henni, þ.e. að útvarp og sjónvarp eru notuð til að miðla fræðslu. Aðeins hluti þess efnis sem var fluttur í fræðsluvarpinu var eiginleg fjarkennsla. Vil ég þar nefna t.d. íslenskuþættina, stærðfræðiþættina og þætti um erlend tungumál. Í þessum greinum var viðbótarefni og nemendur gátu fengið aðstoð í gegnum bréfanám, t.d. í Bréfaskólanum og í Fjölbrautaskóla Suðurlands. Ýmsir aðrir þættir fræðsluvarpsins verða frekar að flokkast undir almenningsfræðslu. Ríkisútvarpið hefur auðvitað sinnt slíkri fræðslu og sinnir enn með ýmsum hætti.
    Í þriðja lagi er spurt hvers vegna skipuð var ný framkvæmdanefnd um fjarkennslu og hvert sé hlutverk hennar.
    Ný nefnd var skipuð vegna þess að skipunartími fyrri nefndarinnar var útrunninn. Hann rann út samkvæmt skipunarbréfi forvera minna einhverra 30. júní á árinu 1989. Það var einnig talið nauðsynlegt að nefnd starfaði með ráðuneytinu til að leggja á ráðin um það hvernig fjárveitingunni í ár yrði best fyrir komið til að efla fjarkennslu í landinu. Hlutverk nefndarinnar sem skipuð var er í meginatriðum, samkvæmt erindisbréfi:
    1. Að efla fjarkennslu á grundvelli tillagna fjarkennslunefndar frá 1987, tillagna framkvæmdanefndar um fjarkennslu frá 1989 og ábendinga umræðufundar frá 15. jan. sl.
    2. Að gera tillögur um framtíðarskipulag fjarkennslu.
    3. Að gera tillögur um hvernig mætti halda starfsemi fræðsluvarps áfram.
    4. Að stuðla að samstarfi stofnana.
    5. Að veita ráðgjöf og standa fyrir námskeiðahaldi um framkvæmd fjarkennslu.
    Loks spyr hv. 6. þm. Reykv. hvort menntmrh. hyggist beita sér fyrir því að fræðsluvarp eða eitthvert annað form á fjarkennslu verði tekið upp aftur og ef svo er þá hvenær.
    Eins og ég hef minnst á hér að framan mun framkvæmdanefndin um fjarkennslu leggja höfuðáherslu á að hægt verði að stunda núverandi nám, t.d. framhaldsskólanám, í fjarkennslu og því verður fjármagninu varið í gerð ýmiss konar

fjarkennsluverkefna.
    Ég vil einnig geta þess að Kennaraháskóli Íslands býður upp á kennsluréttindanám fyrir leiðbeinendur að hluta í fjarkennslu og í undirbúningi er dreifð og sveigjanleg kennaramenntun sem einnig byggir á fjarkennslu og er því í rauninni eiginlegur hluti þeirrar hugmyndafræði sem býr að baki fjárlagaliðnum Fjarkennsla. Þá verður hluti af kennsluréttindanámi Háskóla Íslands í formi fjarkennslu og hefst hún í ár. Einnig er Fósturskóli Íslands að undirbúa dreift og sveigjanlegt fósturnám.
    Í erindisbréfi framkvæmdanefndarinnar um fjarkennslu er minnst á að leggja beri áherslu á að hægt verði að ljúka kjarnaáföngum í framhaldsskóla í fjarkennslu, að hægt verði að stunda nám í fámennum áföngum framhaldsskóla fyrir tilstuðlan fjarkennslu, að hægt verði í fjarkennslu að stunda nám til kennsluréttinda, bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla, að fjarkennsla aukist í háskólanámi og að stuðlað verði að fjarkennslu sem lýtur að endurmenntun og viðbótarmenntun í tengslum við atvinnulífið. Þetta eru áhersluþættirnir eða þetta eiga að vera áhersluþættirnir að okkar mati.
    Hvort hafin verður útsending fræðsluvarps að nýju er eins og fyrr segir eingöngu háð fjármagni. En miðað við núverandi fjárveitingu teljum við æskilegra að nýta fjármunina til að auka fjarkennslu skólanna. Hins vegar vil ég benda á að í 9. gr. frv. til útvarpslaga, sem liggur fyrir hv. menntmn. Ed., stendur: ,,Ríkisútvarpið skal starfrækja kennsluútvarp í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skal veita til þess fé á fjárlögum.`` Það hygg ég að sé í raun úrslitaforsenda þess að fræðsluvarpið geti starfað áfram.