Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Hv. 3. þm. Vestf. er þingvanur maður og hlýtur að gera sér ljóst að til þess eru sett lög um þingsköp að þinghald geti farið fram með reglulegum hætti. Í 32. gr. laga um þingsköp segir svo:
    ,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi geta þingmenn fengið tekið fyrir mál utan dagskrár hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar. Skal þá þingmaður bera fram við forseta ósk sína hér um eigi síðar en tveim klukkustundum áður en þingfundur hefst.``
    Klukkan var um það bil 10 mínútur yfir eitt þegar hv. þm. hafði samband við forseta. Það er því úrskurður forseta að það sé óleyfilegt samkvæmt þingskapalögum að leyfa þessa umræðu. Ég hafði hins vegar orð á því við hv. þm. að ef honum tækist að ræða við viðkomandi ráðherra, eins og honum ber, skyldi ég koma til móts við þessa ósk með því að setja nýjan fund síðar í dag og leyfa þá þessa umræðu, en forseti getur ekki samkvæmt lögum um þingsköp leyft þessa umræðu nú á þessum fundi. Þetta held ég að hv. þm. hljóti að skilja. Og vitaskuld er þetta ákvæði sett í lögin til þess að þingmenn geti ekki sprottið upp hvenær og hvar sem er og hafið umræðu um eitthvað allt annað en á dagskrá er.
    Forseti vill taka það fram að hún hefur aldrei neitað umræðu utan dagskrár, aldrei, síðan hún tók við forsetaembætti hafi sú ósk verið fram borin tveim tímum áður en fundur hófst. Að þessu sinni var ekki um það að ræða þannig að forseti telur sig enga heimild hafa til að leyfa þessa umræðu.