Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Hér stendur upp einn af stjórnarþingmaður, hv. þm. Karvel Pálmason, og lýsir því yfir --- hv. þm. hefur verið skráður í þingflokki Alþfl. eins og hv. þm. vita --- að forustumenn stjórnarflokkanna, þ.e. ráðherrar og formenn þingflokka, fari í fjölmiðla og gefi yfirlýsingar um það hvernig einstök mál verði afgreidd hér úr nefndum og í deildum. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að þegar maður heyrir ummæli sem þessi eftir stjórnarþingmanni hlýtur maður að taka undir kröfu hv. þm. um að forseti leyfi þessa utandagskrárumræðu. Þessi yfirlýsing stjórnarþingmannsins hlýtur auðvitað að hafa áhrif á það hvernig málið er afgreitt út úr nefndum. Ef það kynni að koma í ljós í nefndarstörfum í sjútvn. Ed. í dag og á morgun að stjórnarþingmenn hyggjast ekki afgreiða frv. út úr nefnd verður það náttúrlega að koma skýrt fram hér í þingsal strax í dag.