Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þessara síðustu orða hv. 1. þm. Suðurl. tek ég það fram að allt frá því að ég kom hér inn á hið háa Alþingi hefur þingmanni sem ætlar að eiga utandagskrárumræðu við ráðherra verið gert að hafa samband við þann umrædda ráðherra og tryggja það að hann vilji eiga orðastað við þingmanninn. Það stendur hvergi skrifað í lögum um þingsköp, það er alveg rétt, en þetta hefur verið hefð í þinginu eins langt aftur og ég man og þetta held ég að allflestir hv. þm. kannist við.
    Svo stóð á í dag að hæstv. forsrh. kom að máli við mig fyrir hádegi og baðst leyfis vegna anna á tímabilinu kl. 1--3 þannig að það var alveg ljóst að hann yrði ekki við á þessum tíma. Þess vegna var útilokað allra hluta vegna að hefja þessa umræðu kl. 2. Ég tel að það sé lausn í þessu máli fram undan og mælist því til að menn sætti sig við að þessi fundur hefjist kl. 3.15 og nú geti fundur sá sem við erum hér stödd á haldið áfram án þess að hann sé tafinn frekar.