Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Sighvatur Björgvinsson:
    Mig langar aðeins að taka undir það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. um hans rökstuðning í málinu og enn fremur það sem komið hefur fram hjá hæstv. forseta, að það er rétt að vaninn hefur verið sá að þingmenn hafa verið spurðir að því, þegar þeir hafa óskað eftir utandagskrárumræðu sem ætti að vera við tiltekinn ráðherra, hvort þeir hafi haft samband við ráðherrann og látið hann vita af því. Hins vegar er mér einnig kunnugt um það frá minni þingreynslu að það hefur komið til að forseti hafi leyft umræðu utan dagskrár þó svo að sá ráðherra sem átt hafi að ræða við hafi tilkynnt að hann gæti ekki verið viðstaddur. Það hefur gerst. Ég sé hins vegar eins og hæstv. forseti að lausnin er fram undan. En ég vildi benda á að það er náttúrlega mjög óeðlilegt að á sama tíma og fulltrúi í sjútvn. óskar eftir að ræða mál sem svo mjög varðar starfsemi nefndarinnar, og á þingtíma, sé nefndin á fundi. Ég teldi því eðlilegt að forseti sæi til þess að meðan þessi umræða fer fram, sem hér hefur verið óskað eftir um málefni er varða sjútvn., boði formaður sjútvn. ekki nefndarmenn á fund því að það væri mjög óeðlilegt að einn nefndarmanna, sá sem hefur beðið um umræðu utan dagskrár, yrði að vera fjarstaddur svo þýðingarmikinn fund í sjútvn. eins og sá fundur er sem fyrir dyrum stendur. Því væri eðlilegt að hæstv. forseti sæti til þess að fundur væri ekki haldinn í sjútvn. Ed. á sama tíma og sú umræða sem boðuð hefur verið fer fram.