Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Karvel Pálmason:
    Virðulegur forseti. Mér sýnist að hæstv. forseti Sþ. hafi ekki enn gert sér grein fyrir því hvernig þingstörfum er háttað. Það er auðvitað um tómt mál að tala. Verði ekki nefndarfundir í sjútvn. Ed. í dag um kvótamálið ... (Gripið fram í.). Það er búið að fresta, segir hæstv. forseti. Það er búið að afskrifa þann fund. (Gripið fram í.) Ekkert korter fyrir neitt. Ég held að menn verði að fara að gera sér grein fyrir því að það er ekki hægt, það er bókstaflega útilokað að ætla sér að halda þingstörfum áfram, hvort sem er í sameinuðu þingi eða í deildum, á sama tíma og nefndarfundir eiga að fara fram, ég tala nú ekki um í slíkum málum eins og hér er um að ræða. Þetta ættu þingvanir menn að hafa gert sér ljóst, en mér heyrist á hæstv. forseta að hún hafi ekki gert sér þetta ljóst.
    Það er búið að boða nokkra aðila utan úr bæ til fundar í dag til umsagnar um breytt viðhorf þeirra sem menn kalla stjórnarliða í kvótamálinu --- (Gripið fram í.) það er rangt, hv. þm. Egill Jónsson, það er ekkert samkomulag --- þannig að menn geta ekki talað svona frjálslega um hlutina. Menn verða auðvitað að vinna með eðlilegum hætti og það dugar ekkert að vera að boða nefndarfundi í sjútvn. á sama tíma og annaðhvort Sþ. er starfandi eða deildir. Það er ekkert um það að ræða. Ég óska því eftir úrskurði forseta um það, eigum við hv. nefndarmenn í sjútvn. Ed. að neita að á mæta á fundi og sitja hér? Ég óska úrskurðar forseta um þetta mál. Ég vil ekki sitja undir því að ég sinni ekki þingskyldum, en ég get ekki verið á tveimur stöðum í einu. Það er um tómt mál að tala.
    Varðandi ráðherrana: Auðvitað er það skylda hæstv. forseta, alveg eins gagnvart ráðherrum og óbreyttum þingmönnum, að sjá til þess að þeir sinni þingskyldum. Það hlýtur að vera gerð krafa til þess. Varðandi það að ég tryggi viðveru tiltekinna ráðherra hér, þá er ég ekki að tala um neinn einstakan ráðherra í þessum efnum. Það er allt liðið sem fellur undir þetta, þannig að það er enginn einn einstakur, og ég ætla ekki að ganga í það að hringja upp 11 manns og skikka þá til þess að koma hér niður í Sþ. til að vera við umræður eins og þeim ber skylda til samkvæmt þingsköpum. ( ÞP: Þarftu ekki að hringja til 10 ef einn er mættur?) Já, ég var ekki kominn að því, hv. þm. Og kannski er það sá sem málið heyrir frekast til sem er mættur.
    Mér finnst hæstv. forseti gera ósköp lítið úr umræðum af þessu tagi. Kannski er það orðin skylda í seinni tíð að ráðherramál og tiltekin þingmál einhverra útvaldra alþingismanna gangi hér fyrir í umræðum. En hvar er þá lýðræðið? Þetta er engin þegnskylduvinna að mínu viti fyrir ráðherra að rétta upp hönd þegar þeim líkar og þeir biðja. Hér hafa menn hver um sig ákvörðunarrétt til þess að taka afstöðu samkvæmt sinni eigin sannfæringu. Ekkert er tilskipan tiltekinna ráðherra, sama í hvaða flokki eru, þannig að ég held að þeir sem ráða ferðinni í þinginu verði að gera sér það ljóst að það er ekki

ákvörðunarvald einstakra ráðherra, hvort sem um er að ræða einn, tvo, þrjá eða fleiri, að þeir ráði hér ferðinni í þinginu. Það er ákvörðunarvald hvers og eins þingmanns hvaða afstöðu hann tekur til mála.
    Að þessu sögðu ítreka ég enn spurningu mína til forseta: Á ég að sitja hér kyrr og neita að mæta á nefndarfundi í sjútvn. þar sem verið er að ræða einmitt það mál sem hér er verið að tala um eða hvað skal gera? Ekki verð ég á báðum stöðum. Ég mun hlíta úrskurði forseta í því efni, sem hún ákvarðar. En þá þýðir það auðvitað að málið verður ekkert afgreitt út úr nefnd á morgun eða út úr deild á laugardag og um þetta snýst málið. Ég mun að sjálfsögðu, ef hæstv. forseti úrskurðar svo að ég sitji hér kyrr, fallast á utandagskrárumræður korter yfir þrjú um þetta mál og vænti þess að þær geti orðið með eðlilegum hætti, málefnalegar umræður um það sem er að gerast hér á hv. Alþingi, ekki einhvern skrípaleik sem settur er á svið í fjölmiðlum til þess að villa fólki sýn og láta það halda allt annað en reyndin er.