Utandagskrárumræða um kvótafrumvarpið
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Forseti talaði þvert um hug sinn ef hún segði ekki að hún vildi mjög svo gjarnan hafa hv. 3. þm. Vestf. í þingsölum sem oftast og alltaf. Nú er það svo að forseti hefur ekki hingað til þurft að hafa neinar áhyggjur af því að hv. þingmenn ræki ekki störf sín. Ég held að hv. 3. þm. Vestf. sé jafnljóst og öllum þeim sem hér inni sitja að þingmenn verða því miður oft að sinna tveim störfum í einu og nægir nú að nefna þá hv. þm. sem í fjvn. sitja. Hrædd er ég um að oftlega verði þeir að sitja nefndarfundi á þingtíma. Við þetta höfum við orðið að búa vegna þess hve hið íslenska þjóðþing er fámennt og störfin hlaðast á færri hendur en almennt gerist í öðrum þjóðþingum. Þessa speki hélt ég nú ekki að ég þyrfti að lesa yfir hv. þingheimi.
    Það er auðvitað alveg rétt að það er ákaflega óheppilegt að nauðsynlegt sé að boða nefndafundi á sama tíma og þingfundir eru, en það er hvorki nýlunda né í þessu tilviki neitt sérstakt og allra síst þegar þinglok nálgast eins og nú er. Og eins og ég hef áður sagt: Þetta er það sem þingmenn hafa orðið að leggja á sig til þess að við getum haldið hér uppi þinghaldi með svo fáu fólki sem hér situr.
    Ég fagna því að hv. þm. hefur fallist á að umræða utan dagskrár hefjist hér kl. 3.15 og forseti hefur beðið skrifstofuna að sjá svo til að fundi verði þá frestað í hv. sjútvn. Vænti ég þá að þessari umræðu um þingsköp sé lokið.