Ofbeldi í myndmiðlum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vildi einungis koma hér upp til þess að fagna því að nefndin hefur nú afgreitt þessa tillögu frá sér. Ég þakka fyrir þá afgreiðslu.
    Hins vegar kom ljóslega fram, bæði í áliti nefndarinnar og einnig í umsögnum annarra aðila um málið, að þar var lögð mikil áhersla á að fram færu kannanir til þess að hægt væri að draga úr ofbeldi í myndmiðlum með einhverri skynsemi og komast að niðurstöðu um skilgreiningar. Þess vegna legg ég megináherslu á að kannanirnar fari fram og tel að þær muni í raun ekki kosta það mikið fé að það ætti að verða menntmrn. til vandræða. Ég vil bara í stuttu máli segja að ég fagna því að tillagan skuli samþykkt og sé að skilningur nefndarinnar á málinu hefur í raun verið mjög í þeim anda sem tillagan var flutt.