Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það er orðið nokkuð undarlegt og vægast sagt rafmagnað andrúmsloftið hér þessa síðustu daga. Það er greinilegt á þeirri umræðu sem hér fer fram að ekki hefur einu sinni verið borið við að rækta sambandið við svokallaða stjórnarliða eða stuðningsmenn þessarar ríkisstjórnar. Ég vil fyrir okkur kvennalistakonur segja það að í gærkvöldi var verið að ræða þessi mál á kvöldfundi í Ed. Þá ræddu bæði hv. formaður sjútvn. og hæstv. sjútvrh. við mig og þar voru kynnt drög að hugsanlegu samkomulagi. Þau voru ekki kynnt sem hið endanlega samkomulag. Við settum okkur ekki sérstaklega upp á móti þeim hugmyndum um gang mál sem settar voru fram. Við höfum reyndar beðið nokkuð lengi með okkar brtt. við kvótafrv. vegna þess að við gerðum okkur vonir um breytingar í ljósi þeirra umræðna sem fram hafa farið undanfarið, m.a. aukið fylgi við byggðakvóta allt frá því að hugmyndir um hann komu fyrst fram við síðustu umfjöllun um lög um fiskveiðistjórn. Okkur þótti málið orðið heldur vonlaust í gærkvöldi þegar við sáum að enginn hugur var í mönnum um að gera breytingar í þá átt sem við hefðum kosið. Því lögðum við fram okkar brtt. í morgun sem, eins og ég sagði, voru reyndar tilbúnar fyrir allnokkru. Okkur er því ekkert að vanbúnaði að þessi umræða fari fram á laugardaginn.
    Hins vegar var ekki rætt um neitt formlegt allsherjarsamkomulag. Mér er kunnugt um að okkar þingflokksformaður ræddi við forsrh. í gær en þá var eingöngu verið að ræða um að flytja eldhúsdagsumræður frá mánudegi til miðvikudags. Það er auðvitað alveg ljóst að þeir sem bera fram þetta frv. bera ábyrgð á því og að ná samkomulagi um framgang þess.