Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Ólafur G. Einarsson:
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Karvel Pálmason lét svo ummælt að frásögn í hádegisfréttum væri á ábyrgð ráðherra og þingflokksformanna. Ég vil taka það fram að þessi ummæli, sem ég heyrði að vísu ekki, eru ekki á nokkurn hátt á mína ábyrgð. Ég vil aðeins staðfesta það sem ég hef sagt áður að enginn samningur hefur verið gerður við stjórnarandstöðuna svo að mér sé kunnugt, né um það sem sagt var í hádegisfréttum, um að kvótafrv. svokallaða skyldi tekið út úr hv. Ed. á laugardag og lokið umfjöllun þar. Þvert á móti kom það fram í viðræðum okkar hæstv. forsrh. í gærkvöldi að slíkt væri óraunhæft og það hlyti að verða í fyrsta lagi á mánudag sem slíkt gæti gerst. Þetta vil ég að komi fram af minni hálfu.
    Eiginlegar samningaumleitanir um afgreiðslu einstakra mála hafa ekki átt sér stað milli stjórnar og stjórnarandstöðu að því mér sé kunnugt. Við höfum talað saman eins og gengur og gerist og reynt að átta okkur á því með hvaða hætti væri reynt að afgreiða hér tiltekin mál fyrir þinglausnir 4. eða 5. maí eins og stefnt hefur verið að. En ég hlýt að velta því fyrir mér, ef kallað yrði til einhvers konar formlegra samningafunda við stjórnarandstöðuna, við hverja við erum að semja. Hvort hæstv. forsrh. eða aðrir ráðherrar hafa yfirleitt nokkurt umboð sinna stuðningsmanna, eins og ég freistast nú til að kalla þá, þegar þeir eru að semja við okkur.
    Ég leyfi mér að kalla þá stuðningsmenn hæstv. ríkisstjórnar sem með atkvæði sínu styðja stjórnina eða greiða atkvæði á móti vantrausti. Þrír slíkir hafa komið hér upp í ræðustól, hv. þm. Karvel Pálmason, Skúli Alexandersson og Stefán Valgeirsson. Mér heyrist að þeir keppist allir núna hver um annan þveran við að afneita þessari ríkisstjórn. En þegar þeir hafa tækifæri til þess að fella hana þá gera þeir það ekki.