Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hér er verið að ræða um stjórnarfrv., frv. sem er búið að vera í farvatninu mánuðum saman, hefur verið til kynningar í stjórnarflokkunum langtímum saman. Og enn þá er staðan sú, núna nokkru dögum fyrir þinglok, að ekki liggur einu sinni fyrir samkomulag um það hvernig eigi að afgreiða þetta mál. Hér er ekkert byrjað að tala um það hvernig eigi að taka á þessu máli efnislega.
    Hér hafa hv. stjórnarliðar, eða svokallaðir stjórnarliðar eins og þeir kalla sig nú, ekkert rætt efnislega um það hvort þeir séu sammála efni þessa frv. Nei, þeir eru ekki einu sinni sammála um það hvort eða hvernig eigi að afgreiða þetta mál úr nefnd. Þannig er nú staðan. Trúnaðarbresturinn er alger.
    Hv. 4. þm. Vesturl. sagði hér áðan að þetta væri lítilsvirðing við störf Alþingis. Það sem hér hefur gerst er ekki bara lítilsvirðing við störf Alþingis, það er lítilsvirðing við þjóðina vegna þess að þetta mál hefur verið til umræðu á allt öðrum forsendum út um þjóðfélagið, meðal hagsmunasamtaka og hvarvetna. Síðan gerist það á einni nóttu eða því sem næst að frv. er breytt í öllum aðalatriðum, búinn til einhver Úreldingarsjóður, sem enginn þekkir, í trássi við vilja allra hagsmunaaðila í landinu og þetta á að verða lendingin sem hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að finna í þessu lífshagsmunamáli þjóðarinnar.