Samkomulag um afgreiðslu kvótafrumvarpsins
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Hér hefur verið mikið rætt um það frv. sem hefur verið til meðferðar í sjútvn. Ed. Það hefur komið fram að menn eru ekki á eitt sáttir um afgreiðslu málsins sem er sannleikanum samkvæmt. Ég kom hérna upp til þess að leiðrétta formann nefndarinnar. Ég kannast ekki við að það hafi verið um það samið í nefndinni, en þar á ég áheyrnarrétt, að afgreiða málið úr Ed. á laugardaginn kemur. (Gripið fram í.) A.m.k. klára 2. umr. málsins. Ég held að þetta mál þurfi miklu meiri og ítarlegri afgreiðslu og umræðu. Margir hagsmunaaðilar bíða núna eftir að koma á fund nefndarinnar til þess að segja álit sitt á málinu. Ég býst ekki við að þeir verði búnir að koma og tjá sig fyrr en á morgun eða laugardag.
    Það sem ég vildi einnig segja hér er að ég held að það sé mjög áríðandi að menn, og þá forsrh. og ráðherrar ásamt formönnum þingflokka, komi sér saman um afgreiðslu þessa máls og hvenær og hvernig á að ljúka þinghaldinu. Sá dagur hefur verið markaður 4. maí. Ég held að við ættum ekki að ana að neinu í þessum efnum þar sem hér er um mesta hagsmunamál þjóðarinnar að ræða.
    Um afstöðu mína og afstöðu einstakra þm. í nefndinni og í Ed. ætla ég ekki að fjölyrða hér. Það hlýtur að koma fram í þeirri atkvæðagreiðslu sem nú fer fram. En ég get fullyrt að það verður eflaust tekist mjög á í þeim efnum.