Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. fjvn. (Sighvatur Björgvinsson):
    Frú forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. fjvn. sem er á þskj. 1026.
    Nefndin hefur haft frumvarpið til meðferðar og kallað til viðræðna við sig fulltrúa fjmrn. Þar fengum við skýringar og svör við einstökum atriðum sem við vildum forvitnast nánar um. Einnig höfum við fengið upplýsingar um lokaútgjaldaniðurstöðu einstakra viðfangsefna, stofnana og verkefna á fjárlögum og borið þær saman við fjárlagaheimildir. Í nokkrum tilvikum er um veruleg frávik að ræða þar sem útgjöld hafa farið ótæpilega fram úr fjárlagaheimildum. Hefur nefndin rætt þau mál sérstaklega við fulltrúa fjmrn. og fengið skýringar þess.
    Í öðrum tilvikum er einnig um að ræða óeðlilega mikil útgjöld umfram greiðsluheimildir hjá einstökum stofnunum. Vegna þess hve skammt er nú til þinglausna hefur fjvn. ekki haft tíma til þess að skoða þau mál nánar fyrir afgreiðslu frv. en nefndin og starfsmenn fjmrn. eru sammála um að taka þessi útgjaldaviðfangsefni til sérstakrar skoðunar í sumar. Mun þá nefndin m.a. kalla fyrir sig stjórnendur stofnana og verkefna sem farið hafa, að mati nefndarinnar, talsvert fram úr greiðsluheimildum fjárlaga og fjáraukalaga. Í framhaldi af þeim viðræðum við forstöðumenn stofnana og viðfangsefna verður svo tekin afstaða til þess hvort ástæður liggi til þess að grípa þurfi til sérstakra aðgerða vegna þeirra mála, eða hvort um fullgildar ástæður sé að ræða sem skýra niðurstöðuna.
    Frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1989 var afgreitt frá Alþingi þann 22. des. sl. Hafði frv. þá verið til meðferðar í fjvn. frá því það var lagt fram 1. nóv. sama ár. Nefndin lagði mikla vinnu í yfirferð sína á frv. þessu, enda um nýmæli að ræða að Alþingi fengi til meðferðar frv. til fjáraukalaga á því fjárlagaári sem frv. átti við. Voru nefndarmenn í fjvn. sammála um að nauðsyn bæri til þess að vanda sem best afgreiðslu málsins og að fjáraukalögin, þegar þau yrðu afgreidd, gæfu sem réttasta mynd af niðurstöðunni. Eftir nákvæma athugun á stöðu einstakra verkefna sem fjvn. gerði lagði hún til margvíslegar breytingar bæði á uppsetningu frv. frá upphaflegri gerð þess og eins á einstökum efnisliðum. Í því sambandi kölluðum við nefndarmenn sérstaklega eftir upplýsingum frá framkvæmdarvaldinu og stofnunum þess um stöðu einstakra útgjaldaverkefna og þá ekki hvað síst þeirra fjárfrekustu. Báðum við um rétt fyrir afgreiðslu frv. þann 22. des. sl. að fá að vita hvaða ákvarðanir kynnu að vera á döfinni hjá framkvæmdarvaldinu um útgjöld sem ekki væri fyrir séð. Nefndarmenn allir urðu því fyrir nokkrum vonbrigðum með að útgjöld umfram ákvarðanir þær sem teknar voru við afgreiðsluna þann 22. des. skyldu hafa numið 1 milljarði 73 millj. kr., eins og í ljós kom þegar frv. það til fjáraukalaga sem nú er til afgreiðslu var lagt fram á Alþingi. Fjvn. telur að hér sé um óeðlilega mikla skekkju á útgjaldaáætlunum að ræða þegar tillit

er tekið til þess að einungis örfáir dagar voru eftir af fjárlagaárinu þegar afgreiðsla fjáraukalaganna fór fram á Alþingi þann 22. des. sl.
    Í viðræðum við embættismenn fjmrn. hefur m.a. komið fram sú skoðun þeirra og nefndarinnar að unnt eigi að vera að bæta upplýsingagerð og upplýsingaöflun og ákveðinn vilji sé til að gera það til þess að komast hjá því að slík mistök eigi sér stað. Að vísu er skiljanlegt að í fyrsta sinn sem fjáraukalög eru afgreidd á yfirstandandi fjárlagaári komi ýmislegt í ljós sem betur geti farið. Er það vilji bæði nefndarinnar og ráðuneytisins að reyna að bæta þar úr.
    Það eru þó fleiri ástæður sem valda því að útgjöld fóru svo mjög fram úr þeirri útgjaldaáætlun sem afgreidd var með fjáraukalögunum frá Alþingi 22. des. sl. Þegar sú afgreiðsla fór fram voru að koma fram upplýsingar sem bentu til þess að áætlun útgjalda til einstakra viðfangsefna væru ekki réttar en nefndin lét hjá líða að taka nægilegt tillit til þess. Þá gerðist það einnig að ríkisstjórnin tók á dögunum milli jóla og nýárs ákvarðanir um greiðslu fjár úr ríkissjóði talsvert umfram það sem fjvn. hafði verið tjáð að til stæði.
    Ýmsar orsakir eru þannig til þess að útgjöld ríkissjóðs á árinu 1989 fóru þetta mikið fram úr áætlun fjáraukalaga sem afgreidd voru nokkrum dögum fyrir áramótin. Sumar ástæðurnar eiga sér eðlilegar skýringar og verða ekki gagnrýndar. Aðrar ástæður eru hins vegar gagnrýni verðar og er full ástæða til að hafa hliðsjón af því við næstu afgreiðslu Alþingis á fjáraukalögum og næstu afgreiðslu Alþingis á fjárlögum.
    Ef ég nefni aðeins nokkur einstök atriði þar sem farið var mjög verulega fram úr áætlun fjárlaga og fjáraukalaga þá er rétt fyrst að staðnæmast við menntmrn. en þar voru umframgreiðslur um 132 millj. kr. Þessar umframgreiðslur féllu fyrst og fremst til vegna framhalds- og sérskóla. Í ljós kom að sparnaður, sem gert hafði verið ráð fyrir að mundi skila sér, m.a. vegna verkfalls kennara á því ári, kom ekki fram vegna mikilla aukinna kennsluútgjalda á síðasta missiri. Má segja að það sé eðlileg skýring á því að þarna hafi verið farið allverulega fram úr áætlun fjárlaga og fjáraukalaga. Eðlileg skýring í því tilliti að ekki var hægt að sjá það fyrir þegar fjáraukalög voru afgreidd þann 22. des. að þau útgjöld ættu eftir að falla til.
    Í öðru lagi námu umframútgjöld vegna sjútvrn. 83,7 millj. kr. og voru vegna endurgreiðslu söluskatts í sjávarútvegi. Þegar fjvn. fékk í hendur frá fjmrn. áætlun ráðuneytisins um endurgreiðslu söluskatts til landbúnaðar, fiskeldis og sjávarútvegs var sérstaklega eftir því spurt hvort þær áætlanir, sem nefndin fékk í hendur, væru endanleg greiðsluáform þess ráðuneytis. Um það var spurt daginn áður en afgreiðslan fór fram hér á Alþingi. Fjvn. var tjáð að sú upphæð sem barst frá fjmrn. væri endanleg ákvörðun um þær greiðslur sem mundu eiga sér stað. Það gerðist hins vegar á dögunum milli jóla og nýárs að ákvörðun var tekin um að greiða 83,7 millj. kr. meira vegna þessa viðfangsefnis úr ríkissjóði en Alþingi afgreiddi 22.

des. Þetta telur fjvn. að sé ekki æskileg málsmeðferð og ástæða til að gagnrýna.
    Í þriðja lagi má geta þess að greiðslur umfram fjárheimildir hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu námu röskum 126 millj. kr. og eru þær að stærstum hluta vegna embætta sýslumanna og bæjarfógeta. Um það viðfangsefni má segja að fjvn. hafi fengið upplýsingar um að ástæða væri til þess að ætla að sú áætlun sem nefndin gerði um kostnað vegna embætta sýslumanna og bæjarfógeta mundi ekki standast. Það hefði því verið ástæða hjá fjvn. að endurskoða þær áætlanir sínar frekar. Það var hins vegar ekki gert.
    Það er ástæða til þess, frú forseti, að vekja athygli á að nú sækir mjög í sama farið varðandi útgjöld sýslumanna og bæjarfógeta og var hér fyrir nokkrum árum, áður en sérstakt átak var gert í því skyni að koma þar nokkrum skikk á. Er nú farið að muna ansi miklu á annars vegar áætlunum fjárlaga vegna útgjalda til embætta sýslumanna og bæjarfógeta og síðan greiðsluuppgjöri. Er vissulega ástæða til þess að fara hér að spyrna við fótum og skoða þau mál sérstaklega.
    Þá má enn fremur nefna að greiðslur umfram heimildir vegna heilbr.- og trmrn. námu 314 millj. kr. og eru að stærstum hluta vegna Tryggingastofnunar ríkisins. Er hér um það að ræða að ríkissjóður þarf að endurgreiða vörslusjóðum Tryggingastofnunar ríkisins framlög sem þessir vörslusjóðir hafa reitt af höndum til þess að standa undir kostnaði við aðra starfsemi á vegum Tryggingastofnunarinnar, svo sem atvinnuleysistryggingar og sjúkratryggngar. Fjvn. kallaði sérstaklega eftir því nokkrum dögum áður en hún afgreiddi frá sér frv. til fjáraukalaga síðla í desember 1989, að upplýsingar fengjust bæði frá fjmrn. og Tryggingastofnun ríkisins um líklega greiðslustöðu Tryggingastofnunarinnar. Nefndin fékk þær upplýsingar að ekki væri nein ástæða til þess að gera breytingu á þeim áætlunum sem um þessi útgjöld höfðu verið gerðar í frv. því til fjáraukalaga sem lagt var fram 1. nóv. Nefndinni var tjáð af báðum þessum aðilum að þvert á móti mætti gera ráð fyrir því að þær áætlanir stæðust. Þær stóðust hins vegar ekki og munaði þarna um 300 millj. kr., sem er mjög há fjárhæð, jafnvel þó tekið sé tillit til þess að þessi stofnun, Tryggingastofnun ríkisins, hefur meiri fjárumsvif en flestar ef ekki allar aðrar stofnanir á vegum ríkisins. Sú vitneskja sem fjmrn. og Tryggingastofnun eiga að hafa um útgreiðslu úr þeim stóru sjóðum sem Tryggingastofnun varðveitir á að vera svo traust að þetta ætti ekki að þurfa að koma fyrir í nútímaupplýsingaþjóðfélagi. Eru fjárveitinganefndarmenn og fulltrúar fjmrn. sammála um að hér þurfi að herða eftirlit með kostnaði og kostnaðaráætlunum til þess að svona niðurstaða, svona mikill munur á endanlegum greiðslum og greiðsluáætlunum sem gerðar eru í lok desember þurfi ekki að endurtaka sig.
    Umframgreiðslur vegna fjmrn. námu 302 millj. kr. Stafa þær af þrennu. Í fyrsta lagi fráviki vegna Ríkisábyrgðasjóðs, þ.e. meiri útgreiðslum úr

Ríkisábyrgðasjóði en gert var ráð fyrir upp á 80 millj. kr. Í öðru lagi vegna ýmissa fasteigna ríkissjóðs upp á 105,4 millj. kr. og svo í þriðja lagi, sem ekki var inni í samtölunni sem ég nefndi hér áðan, er um að ræða sölukostnað spariskírteina, auglýsinga- og prentkostnað, 155 millj. kr.
    Það kemur nokkuð á óvart hversu hár sölukostnaður og auglýsinga- og prentkostnaður spariskírteina hefur verið á árinu 1989 og hefur fjvn. óskað eftir nánari upplýsingum og sundurliðun um það sem hún hefur ekki enn fengið en mun fá á næstu dögum.
    Þá er einnig þeirrar skýringar að geta hvað varðar útgjöld umfram áætlun er varða fasteignir ríkissjóðs að á árinu 1989 var tekin upp sú venja að gjaldfæra heildarkaupverð fasteigna þó hluti kaupverðsins hafi verið fjármagnaður með lántökum. Þetta er eðlileg breyting á færslu kaupverðs vegna fasteigna en fram til þess tíma hafði aðeins verið gjaldfærður á kaupárinu sá hluti kaupverðsins sem greiddur hafði verið út á því ári. Annar kostnaður, þ.e. lán sem ógreidd voru vegna kaupanna, voru gjaldfærð þegar þau féllu í gjalddaga. Þessu var breytt vegna uppgjörsins 1989 og er því að því leytinu til eðlileg skýring á þessum umframútgjöldum vegna ýmissa fasteigna ríkissjóðs.
    Ég held að ekki sé ástæða til þess, frú forseti, að fara fleiri orðum um þær niðurstöður sem fjvn. komst að við meðferð á máli þessu. Meiri hl. nefndarinnar telur að fullnægjandi skýringar hafi fengist á öllum efnisatriðum fjárlagafrv. sem frábrugðin eru þeirri afgreiðslu sem fór fram á Alþingi 22. des. sl. Sumt af því sem nú stendur til að afgreiða hefði betur átt heima í
þeirri afgreiðslu sem þá fór fram. En niðurstaðan er óhjákvæmileg og ómótmælanleg. Meiri hl. nefndarinnar leggur því til að frv. verði afgreitt og samþykkt óbreytt eins og það var flutt.