Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Frsm. minni hl. fjvn. (Pálmi Jónsson):
    Virðulegi forseti. Þegar frv. til fjáraukalaga var afgreitt þann 22. des. sl. var það tekið til mjög ítarlegrar athugunar, eins og fram hefur komið í máli formanns fjvn. Sú athugun leiddi m.a. til þess að meiri hl. fjvn. flutti við frv. hvorki meira né minna en 211 brtt. Og til viðbótar margs konar brtt. sem fólust í undirliðum hinna einstöku aðalbrtt. Þetta sýndi tvennt; að frv. var ekki úr garði gert eins og það hefði þurft að vera af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, og svo hitt að hv. fjvn. lagði í þetta mikla vinnu.
    Þegar sú vinna fór fram var eftir því gengið hvort þar mundi vera nokkurn veginn um endanlegar niðurstöður að ræða varðandi útkomu síðasta árs, ársins 1989, og voru svör mjög á þá lund að veruleg frávik yrðu ekki frá því sem þá var afgreitt. Þá voru afgreiddar heimildir til greiðslna úr ríkissjóði sem námu um 8,5 milljarði umfram fjárlög.
    Nú liggur reynslan fyrir með því frv. sem hér er til 2. umr. og tekið hefur verið til athugunar af fjvn. Þá kemur í ljós að þetta reyndist ekki rétt. Nú kemur í ljós að á níu dögum, frá því að fjáraukalög voru afgreidd hér á hinu háa Alþingi 22. des. sl. og til ársloka, hafði ríkisstjórn greitt út úr ríkissjóði umfram heimildir 1073 millj. kr. Þetta var niðurstaðan úr því dæmi og að þessu var vikið af hálfu formanns nefndarinnar sem hér talaði fyrir hönd meiri hl. fjvn. rétt áðan.
    Með þessum hætti var halli á ríkissjóði aukinn um 1200 millj. kr. svo að í stað þess að halli yrði innan við 5 milljarða eins og gert hafði verið ráð fyrir við afgreiðslu fjáraukalaga 22. des. reyndist hann verða 6 milljarðar og 55 millj. kr.
    Nú er liðið fyrsta fjárlagaár þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Á þessu fjárlagaári hefur hæstv. ríkisstjórn gengið í gegnum prófraun. Við höfum fengið að kynnast því hvernig þessi hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér markmið,
hvaða leiðir hún ætlaði að fara til þess að ná þeim markmiðum og hvernig útkoman hefur svo orðið, hver árangurinn hefur orðið. Það kemur í ljós með því frv. sem hér er til meðferðar hvernig hún hefur staðist prófið.
    Ég minni á það að þegar fjárlagafrv. fyrir árið 1989 var flutt voru þar sett mjög afdráttarlaus og eindregin markmið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Mjög á sama hátt talaði hæstv. fjmrh. þegar hann mælti fyrir því frv., eins og ég vitnaði nokkuð til við 1. umr. þessa máls. Í athugasemdum með fjárlagafrv. fyrir árið 1989 segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin hefur sett það sem meginmarkmið fjárlaga fyrir árið 1989 að ríkissjóður skili umtalsverðum tekjuafgangi. Fyrir þessu eru margar ástæður. Þar vegur þyngst nauðsyn þess að beita ríkisfjármálum til þess að hamla gegn auknum viðskiptahalla.``
    Enn segir í hinum pólitíska inngangi með athugasemdum fjárlagafrv. að þetta sé nauðsynlegt ,,til að slaka á þeirri spennu á innlendum

fjármagnsmarkaði sem ríkt hefur að undanförnu. Aðeins með því að skila rekstrarafgangi geti ríkissjóður dregið úr lántökum sínum.``
    Í athugasemdum með þessu frv. er víðar vikið að þessum meginmarkmiðum hæstv. ríkisstjórnar. Þar segir enn, undir fyrirsögninni ,,Stefnan í ríkisfjármálum``, að ,,tekjuafgangur á ríkissjóði er nauðsynlegur þrátt fyrir fyrirsjáanlegan samdrátt.``
    Þau markmið sem hæstv. ríkisstjórn setti með fjárlagafrv. og hæstv. fjmrh. mælti skörulega fyrir í þessum ræðustól voru því ótvíræð. Þau voru þess efnis að nú væri efnahagsleg nauðsyn að reka ríkissjóð með því sem kallað var ,,umtalsverðum tekjuafgangi``. Það væri grundvallarforsenda fyrir því að takast mætti að koma nýju lagi á efnahagsmál landsmanna. Og ég segi það eins og það liggur fyrir að það var mikið satt í því sem þarna var sagt. Í þessu var mikill sannleikur.
    Það kom svo í ljós í fjárlagafrv. fyrir árið 1989 hvaða leiðir hæstv. ríkisstjórn ætlaði að fara til að ná þessum árangri. Þær leiðir voru m.a. þær að leggja nýja skatta á þjóðina sem áttu að nema um 7 milljörðum kr. Fjárlagafrv. sýndi að tillögur ríkisstjórnarinnar voru að skera niður framlög ríkisins til verklegra framkvæmda. Fjárlagafrv. sýndi að ríkisstjórnin leit svo á að nauðsynlegt væri að láta framlög til ýmissa sjóða og verkefna, þar á meðal tilfærslur til ýmissa atriða, svo sem millifærslna í þjóðfélaginu, standa óbreyttar að krónutölu, sem þýddi vitaskuld niðurskurð. Og ríkisstjórnin kynnti það með fjárlagafrv. að það var stefna hennar að skylda þjónustustofnanir í eigu ríkisins til þess að afla mjög aukinna sértekna með því að stórhækka verð á þjónustu þeirra. Enn fremur var meðal þeirra leiða sem fara átti til að ná heildarmarkmiði ríkisstjórnarinnar í fjármálum að auka sparnað í rekstri og mannahaldi á vegum ríkisins.
    Öll þessi markmið náðust fram utan eitt, það síðasta. Sparnaður í rekstri og mannahaldi á vegum ríkissjóðs, sem fjárlög byggðu þó á í verulegum mæli, fór meira og minna út í veður og vind. Þó segir að tekist hafi að ná nokkrum
sparnaði í yfirvinnu miðað við það mikla yfirvinnumagn sem verið hafði á vegum ríkisins árið áður eða sem nemur um 70 millj. kr.
    Þrátt fyrir að þessar leiðir að heildarmarkmiðinu væru settar fram með fjárlögunum með skattheimtu, með niðurskurði og með tekjuöflun á vegum þjónustustofnana ríkisins, með stórhækkuðum þjónustugjöldum, þó allt þetta kæmist fram þá er niðurstaðan úr fjármálum ríkisins á þessu ári sú að í stað þess sem ríkisstjórnin setti sem grundvallarmarkmið, að reka ríkissjóð með umtalsverðum rekstrarafgangi, varð halli á ríkisrekstrinum sem nam 6.055 millj. kr. Þótt fjárlögin væru afgreidd með tekjuafgangi upp á 635 millj. kr. þá breyttist þessi staða í höndum hæstv. fjmrh., sem á hér auðan stól í þingsalnum, og í höndum hæstv. ríkisstjórnar yfir í nærri 6,1 milljarðs króna rekstrarhalla.

    Það er því ekkert vafamál að sú prófraun í fjármálum ríkisins sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. hafa gegnið í gegnum á sínu fyrsta fjárlagaári hefur áþreifanlega sannað að ríkisstjórnin og hæstv. fjmrh. hafa fallið á prófinu. Hvernig sem séð væri í gegnum fingur, hvernig sem reynt væri að afsaka þá niðurstöðu sem fengin er, væri ómögulegt að gefa nema falleinkunn.
    Miðað við það markmið hæstv. ríkisstjórnar við afgreiðslu fjárlaga að leggja á þjóðina um 7 milljarða nýja skatta til ríkisins þá kemur það auðvitað í ljós að árið 1989 varð metár í tekjum ríkissjóðs, þ.e. í skattaálögum á þjóðina. Alls urðu innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1989 80 milljarðar eða um 2,9 milljörðum hærri en fjárlög gerðu ráð fyrir. Jafnframt er þetta hæsta hlutfall tekna ríkissjóðs af landsframleiðslu sem nokkru sinni hefur orðið. Til þess að sýna dæmi um skattheimtur ríkissjóðs, hvernig þær hafa reynst sem hlutfall af landsframleiðslu á árunum 1985--1989, skal það hér rakið: Árið 1985 var það 22,7%. Árið 1986 24%. Árið 1987 23,6%. Árið 1988 26,6% og árið 1989 27%. Það er því ljóst að hallarekstur ríkissjóðs á árinu 1989 stafar ekki af því að hæstv. ríkisstjórn hafi látið undir höfuð leggjast að afla ríkissjóði tekna með skattlagningu á þjóðina eða með því að innheimta þær.
    Það liggur sem sé algjörlega fyrir að á þessu ári var um metár að ræða í skattlagningu á þjóðina og innheimtar tekjur ríkissjóðs jukust á því ári að raungildi um 2,6% frá árinu á undan, sem þó var ærið mikið skattheimtuár.
    Ég hef áður leyft mér að kalla þetta ár ,,skattaárið mikla``. Og ég spáði því, þegar við umræður um fjárlög fyrir árið 1989, að það ár yrði skattaárið mikla. Nú hefur það sannast.
    En árið 1989 varð einnig metár í útgjöldum ríkissjóðs. Útgjöldin fóru nefnilega enn þá meira fram úr fjárlögum en tekjurnar. Í útgjaldaþætti ríkissjóðs sannaðist að ríkisfjármálin fóru gjörsamlega úr böndunum á þessu ári. Og það sannaðist að það dugar ekki að hækka í sífellu skatta á þjóðina og innheimta þar með meira í hlut ríkissjóðs ef ríkisstjórnin sem við völd er og hennar stuðningslið og hæstv. fjmrh. í broddi fylkingar notar þá skattheimtu til þess að auka í sífellu útgjöld ríkissjóðs og miklu meira en heimildir liggja fyrir í fjárlögum og síðan fjáraukalögum. Það er auðvelt að eyða því sem aflast ef ekki er aðgæsla viðhöfð.
    Samkvæmt því frv. sem hér er til 2. umr. urðu útgjöld ríkissjóðs á síðasta ári tæplega 86,1 milljarður króna meðan tekjurnar urðu 80 milljarðar eins og fyrr segir. Útgjöldin fóru því 9,6 milljarða fram úr heimildum fjárlaga. Þetta gerðist þrátt fyrir niðurskurð á fé til verklegra framkvæmda, þrátt fyrir að fjárveitingar til ýmissa sjóða og margs konar verkefna væru óbreyttar í krónutölu frá því á árinu á undan og þrátt fyrir yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um sparnað og hagræðingu. Í heild urðu útgjöld ríkissjóðs meiri en nokkru sinni og hækkuðu að raungildi frá árinu á undan um 2%.

    Hér er einnig um metár að ræða í útgjöldum A-hluta ríkissjóðs miðað við landsframleiðslu. Árið 1984 var þetta hlutfall 22,8%, 1985 24,6%, 1986 25,4%, 1987 24,9%, 1988 28,6% og 1989 29,1%. Þessi upptalning sýnir alvarlega þróun í útgjöldum ríkissjóðs og þá miklu stökkbreytingu sem orðið hefur á því sviði á síðustu tveimur árum og þó einkum og alvarlegast nú á síðasta ári. Ég held því, miðað við það sem hér hefur verið sagt og allt liggur fyrir í þessum skjölum, að það sé hverjum manni ljóst að fjármálastjórn hæstv. ríkisstjórnar á árinu 1989 hafi farið úr böndunum. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. féllu á prófinu. Markmiðin sem sett voru í upphafi voru góð, leiðirnar sem átti að fara að markmiðunum voru misjafnar og sumar slæmar. En þó að þær næðust sumar hverjar er árangurinn sá sem hér hefur verið lýst.
    Hægt er að greina það sundur í nokkrum atriðum á hvern hátt hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur hrökklast frá markmiðum sínum sem hún setti í ríkisfjármálum og fyrr er að vikið. Í fyrsta lagi voru fjárlögin sjálf ótraust. Við sem skrifum undir þetta nál. vöktum ítrekað athygli á því við umræður um fjárlagafrv. fyrir árið 1989 að um verulegar vanáætlanir væri að ræða við fjárlagaafgreiðsluna. Og við vöktum ítrekað athygli á því og gagnrýndum harðlega að forsendur fjárlaganna væru í lausu lofti vegna þess að ríkisstjórnin var algerlega stefnulaus í efnahags- og atvinnumálum. Hvort
tveggja hefur þetta sannast. Launa-, verðlags- og gengisforsendur fjárlaganna voru markleysa, eins og lýst var og nú liggur rækilega fyrir.
    Í fjárlögunum var byggt á forsendum sem voru, eins og áður sagði, út í bláinn. Þessar forsendur voru sem hér segir: Í launum var byggt á því að hækkun milli áranna 1988 og 1989 skyldi vera 7,5%. Raunveruleikinn varð 13%. Verðlagshækkun samkvæmt framfærsluvísitölu átti að verða 13,5% hækkun á milli ára, varð 20%. 21% segir að vísu fjmrn. sjálft. Verðlag samkvæmt byggingarvísitölu átti að verða 11,5% en varð í raunveruleikanum 23%. Og gengi átti að breytast á milli ára að meðaltali um 11%, varð í raun 25,5%.
    Þá þætti sem hér hafa verið raktir ásamt vanáætlun við fjárlagaafgreiðsluna mátti að verulegu leyti sjá fyrir. Það máttu allir sjá fyrir að hæstv. ríkisstjórn gæti ekki starfað út árið 1989 án þess að grípa til einhverra aðgerða í efnahagsmálum og atvinnumálum þjóðarinnar vegna þess að undirstöðuatvinnugreinar landsmanna voru að fara fram af brúninni. Þetta máttu allir sjá. En hæstv. ríkisstjórn og hv. stjórnarliðar, sem rækilega var bent á þetta við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1989, höfðu þær viðvaranir að engu.
    Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga fyrir árið 1989 er dregið saman álit þeirrar stofnunar á því hvaða orsakir hafi helst legið til verri afkomu A-hluta ríkissjóðs á því ári en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir. Þar segir að það sé einkum vegna þessara þátta, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ákvarðana stjórnvalda um útgjöld umfram tekjur

innan fjárlagaársins. Vanáætlana fjárlaga. Skorts á að framkvæmdarvaldið virði heimildir fjárlaga. Áform stjórnvalda um sparnað náðu ekki fram að ganga. Rangra verðlagsforsendna fjárlaga.``
    Þó að hér sé varlega að orði kveðið, sem sjálfsagt er af slíkri stofnun, þá liggur niðurstaðan ljós fyrir. Þær staðreyndir liggja fyrir að ríkisstjórnin tók á síðasta ári, 1989, ákvarðanir um gífurleg útgjöld sem ekki var aflað heimilda fyrir í fjárlögum; það voru vanáætlanir, eins og áður er vikið að; það var skortur á því að framkvæmdarvaldið virti heimildir fjárlaga og sinnti því í ýmsum greinum að fara að lögum; það voru rangar verðlagsforsendur og í fimmta lagi að áform stjórnvalda um sparnað náðu ekki fram að ganga.
    Hæstv. ríkisstjórn tók á stundum hinar ólíklegustu ákvarðanir um útgjöld úr ríkissjóði án heimilda í fjárlögum eða fjáraukalögum og sumar þeirra í trássi við önnur lög í landinu. Þetta gekk svo langt að í fyrsta skipti sem ég man eftir sá ég, sem fulltrúi stjórnarandstöðunnar í fjvn., mig knúinn til þess á fyrsta starfsdegi Alþingis að kveðja mér hljóðs utan dagskrár og vekja rækilega athygli á því að hæstv. ríkisstjórn hefði í mörgum greinum að því er snerti útgjöld ríkissjóðs ekki farið að lögum. Og ég man aldrei eftir því fyrr við upphaf Alþingis að fulltrúi stjórnarandstöðu hafi talið sig knúinn til þess að hefja umræður á Alþingi um það mál, aldrei fyrr. En svo gekk fram af mér, sem hef hér alllanga reynslu af því, hvernig hæstv. ríkisstjórn hafði hagað sínum málum að því er snerti útgjöld úr ríkissjóði, að ég sá mig knúinn til á fyrsta starfsdegi þingsins að rífa þessi mál upp. Og það verður að segjast eins og er að hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. svöruðu með þeim hætti að það var eins og verið væri að skvetta vatni á gæs. Báðir þessir hæstv. ráðherrar lýstu þeim skoðunum sínum að þeir teldu sér heimilt að haga útgjöldum ríkissjóðs án þess að tekið væri tillit til laga. Og ef lögin væru eitthvað að þvælast fyrir þeim þá hefðu þeir rétt á því að fara fram með þeim hætti sem þeim væri þóknanlegt. Ég hef aldrei orðið fyrir eins miklum vonbrigðum með svör ráðamanna þjóðarinnar. Svo var nú þetta. Er þá að furða þótt mál hafi farið úr böndunum að því er varðar rekstur ríkissjóðs á fjárlagaárinu?
    Það má sem sé segja að í stað sparnaðar og aðhalds hafi komið eyðsla og sóun. Mest í þeim ráðuneytisskrifstofum sem hæstv. ráðherrar stjórnuðu sjálfir. Afleiðingin blasir við öllum. Markmiðið, hið hátíðlega markmið um að reka ríkissjóð með umtalsverðum rekstrarafgangi, snerist upp í andhverfu sína. Í stað 636 millj. kr. tekjuafgangs fjárlaga, eins og þau voru afgreidd, varð niðurstaðan 6.055 milljóna halli í höndum hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórnar. Í stað aðhalds og sparnaðar og festu í fjármálum ríkisins var valin sú hæga leið að velta undan brekkunni. Þetta er sú niðurstaða sem fyrir liggur, þetta er einkunnin sem hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur fengið á sínu fyrsta heila fjárlagaári.
    Það segir sig auðvitað sjálft að þau áform hæstv.

fjmrh. sem kynnt voru við meðferð fjárlagafrv. fyrir árið 1989, og þar voru prentuð í áætlun um greiðsluyfirlit ríkissjóðs um tiltölulega litla lánsfjárþörf ríkissjóðs á árinu, hurfu gersamlega út í buskann við slíka framkvæmd fjárlaganna. Í stað þess að gert var ráð fyrir í fjárlögum að lánsfjárþörf A-hluta ríkissjóðs væri 1.320 millj. kr., sem er tiltölulega lítið miðað við það sem oft hefur verið, reyndist fjárþörfin verða 7.280 millj. kr. Þessi lán voru þó ekki öll tekin heldur varð niðurstaðan sú að það var greiðsluhalli á rekstri ríkissjóðs um 2.100 millj. kr. Því var ekki einu sinni sinnt að ná nokkurn veginn
greiðslujöfnuði í rekstri ríkissjóðs á þessu ári, hvað þá að staðið væri við markmiðið um rekstrarafgang sem snerist upp í 6,1 milljarðs halla.
    Ég tel að þessi mál liggi svo skýrt fyrir að ekki sé ástæða til þess að velta þeim upp hér í ræðustól á Alþingi í öllu lengra máli. Mér þykir vitaskuld verra að hæstv. fjmrh. skyldi ekki sjá sér fært að verða hér viðstaddur og enginn af ráðherrum hæstv. ríkisstjórnar, sem munu vera eitthvað að gleðja sig úti í Seðlabanka. En kannski hefur þeim ekki þótt það eftirsóknarvert að vera við umræður um fjáraukalög fyrir árið 1989 þegar sú skýra niðurstaða liggur fyrir sem hér hefur verið lýst.
    Ég vil svo í lokin fara örfáum orðum um þær ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar sem sýndu sig í því á dögunum milli jóla og nýárs, eða frá 23. des. til ársloka, að greiða úr ríkissjóði 1073 millj. kr. án heimilda. Og ekki einungis heimilda fjárlaga heldur einnig án heimilda fjáraukalaga sem afgreidd voru 22. des. Með þessum greiðslum úr ríkissjóði var farið fram úr heimildum fjárlaga og lánsfjárlaga um meira en 100 millj. kr. á dag, líka á jóladaginn og annan í jólum og á öðrum helgum dögum.
    Hv. formaður fjvn. sem hér mælti fyrir áliti meiri hl. gerði þetta nokkuð að umtalsefni og ég sé ekki ástæðu til þess að vitna í nál. meiri hl. þar sem að þessu er vikið vegna þess að það kom allt fram í máli hv. 5. þm. Vestf. hér áðan. Það er þó ljóst að ekki einungis okkur sem erum í stjórnarandstöðu og erum fulltrúar í fjvn. finnst hér hafa verið farið fram úr öllu því sem kalla má viðunandi vinnubrögð heldur er ljóst að það er einnig álit meiri hl. í fjvn. Það kom berlega fram í máli formanns nefndarinnar hér áðan og það kemur einnig fram í nál. frá meiri hl. fjvn. á þskj. 1026.
    Ég get stytt mál mitt með því að fara yfir það hvaða liðir það eru sem vega þyngst í útgjöldum ríkissjóðs umfram heimildir á þessum dögum um hátíðirnar. En ég tel mig ekki komast hjá því að vekja þó athygli á einstökum þáttum.
    Hér kemur fram, eins og einnig var skýrt í máli hv. 5. þm. Vestf., að af einstökum ráðuneytum eyddi heilbr.- og trmrn. mest án heimilda á þessum dögum eða 314 millj. kr., að stærstum hluta vegna Tryggingastofnunar ríkisins. Annað í röðinni er á hinn bóginn fjmrn. sjálft. Það eyddi á þessum dögum 302,6 millj. kr. umfram heimildir. Eru þó færðar yfir á Fjárlaga- og hagsýslustofnun 155 millj. kr.

heimildarlausar greiðslur vegna sölukostnaðar spariskírteina, auglýsinga- og prentunarkostnaður sem að sjálfsögðu ætti að færast á fjmrn. sjálft. En jafnvel þó að þetta sé ekki talið með í heimildarlausum útgjöldum fjmrn. sjálfs fóru útgjöld fjmrn. á þessum dögum, þar á meðal á jóladögunum, um 9% fram úr heimildum fjárlaga og fjáraukalaga. Á hverjum einasta degi á þessum dögum, þar á meðal á jóladaginn, fór fjmrn. sjálft 1% fram úr því sem fjárlög og fjáraukalög heimiluðu í greiðslum úr ríkissjóði, fjmrn. sjálft með undirstofnunum sínum. Það fer vitaskuld vel á því að sá sem er í fylkingarbrjósti af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að því er varðar fjármál ríkisins, sjálfur hæstv. fjmrh., fari einnig í fylkingarbrjósti þegar eytt er úr ríkissjóði umfram það sem fjárlög og fjáraukalög heimila. Og þegar fjmrh. sjálfur fer fram úr slíkum heimildum aðeins fyrir sitt eigið ráðuneyti og sínar undirstofnanir um 1% á dag, líka á jóladaginn, 9% í heild umfram heimildir á 9 dögum, frá 23. des. til ársloka, er sannarlega ekki von á því að slíkur fjmrh. hafi vald á að taka á fjármálum ríkisins af festu. Áður höfðu þó verið afgreiddar drjúgar heimildir til hæstv. fjmrh. og fjmrn. því að í heild fór hæstv. fjmrh. fram úr heimildum fjárlaga um 940 millj. kr. á árinu 1989. Samkvæmt fjárlögum hafði hann heimild til útgjalda fyrir fjmrn. um 2 milljarða 979,9 millj. kr. en greiðslurnar urðu 3 milljarðar 919,9 millj. kr. eða sem svarar um 31,5% sem fjmrn. sjálft fór fram úr því sem fjárlög ákváðu fyrir þetta ár.
    Ég held að ekki fari á milli mála að hér sé rösklega að verki staðið og það þarf svo sem engan að undra vegna þess að á árinu 1989 lét hæstv. fjmrh. sig hafa það að raða á jötuna í sínu ráðuneyti aðstoðarmönnum umfram það sem lög heimila, ekki einungis fjárlög, heldur einnig umfram það sem lög um Stjórnarráð Íslands og reglugerð við þau lög heimila, eins og ég hef margoft vakið athygli á. En þó að á því sé vakin athygli og þess sé krafist að slíkum ólöglegum starfsmönnum ríkisins sé sagt upp er það að engu haft. Hæstv. ráðherrar, a.m.k. sumir hverjir, telja að þeir megi haga sínum málum að því er varðar útgjöld ríkisins alveg án tillits til þess hvað lög segja.
    Þannig er nú staðan í þessum málum. Og þegar þannig er að verki staðið, þá er ekki á því von að árangur verði af góðum fyrirheitum, þá er ekki von á því að góð markmið náist og ekki von á því að málaflokkur eins og fjármál ríkisins verði meðhöndlaður á þann hátt að vel fari, enda sýna nú merkin verkin.
    Ég held að engum blandist hugur um, hvort sem sá hv. þm. er í tölu ,,svokallaðra`` stjórnarliða, eins og hér var tekið til orða í umræðu áðan af einum sem talinn hefur verið í þeirra hópi, ellegar hvort það er þingmaður í liði stjórnarandstöðunnar, að fjármál ríkisins verður að taka öðrum tökum en gert hefur verið á því ári sem við erum hér með afraksturinn af fyrir framan okkur. Þau verður að taka öðrum og fastari tökum og breyta um vinnulag. Það

verður ekki gert af þeirri hæstv. ríkisstjórn sem nú situr. Það er alveg víst að enginn hefur trú á því að þar færist neitt til hins betra. Alþingi og þjóðin eru reynslunni ríkari eftir fyrsta fjárlagaár þessarar hæstv. ríkisstjórnar og þessa hæstv. fjmrh.
    Það hefur stoðað lítt þó hæstv. fjmrh. hafi komið hér í ræðustól með hátíðlegar yfirlýsingar og steigurlæti í málflutningi. Þegar til kastanna kom er niðurstaðan sú að fjármálastjórnin á árinu 1989 brást. Markmiðin sem sett voru voru að vísu góð, leiðirnar sem fara átti til þess að ná þeim markmiðum voru sumar eðlilegar, aðrar fráleitar, en eyðslan og sóunin sem sat í fyrirrúmi á þessu ári hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn hefur leitt til þess að málin í heild fóru úr öllum böndum. Hæstv. ríkisstjórn og hæstv. fjmrh. hafa fallið á því prófi sem þeir gengu undir í fjármálum ríkisins á árinu 1989.