Fjáraukalög 1989
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Málmfríður Sigurðardóttir:
    Virðulegur forseti. Ég mun nú ekki gera mál mitt langt hér svo ítarlega sem búið er að gera grein fyrir niðurstöðum fjáraukalaga fyrir árið 1989, bæði af stjórnarliðum og stjórnarandstöðu. Ég vil lýsa því að ég stend að nál. minni hl. sem hv. 2. þm. Norðurl. v. mælti hér fyrir áðan og er því samþykk.
    Uppgjör sl. árs liggur nú fyrir samkvæmt þessum fjáraukalögum og sýnir halla á ríkisrekstrinum á sl. ári um rúma 6 milljarða. Og þetta gerist þrátt fyrir verulegan niðurskurð á fé til opinberra framkvæmda og þrátt fyrir það að tekjur ríkissjóðs af skattheimtu jukust um tæpa 3 milljarða frá því sem fjáraukalög gerðu ráð fyrir. Þetta gerðist á árinu þegar ríkisstjórnin setti fjárlögunum það meginmarkmið að skila umtalsverðum tekjuafgangi í ríkissjóð samkvæmt hátíðlegri yfirlýsingu hæstv. fjmrh. sem ekki þykir við hæfi að vera við þessa umræðu. E.t.v. fyrirverður hann sig fyrir þessa niðurstöðu og er það nú eiginlega meira en maður hefði trúað á hann að óreyndu.
    Þessi niðurstaða, sem ég lýsti áðan, hlýtur að vekja furðu almennings þegar litið er til þess að skattheimta fer síharðnandi og tekjur ríkisins hafa hækkað um milljarða á síðustu árum. Hvað veldur því að síauknar tekjur af skattheimtu geta ekki leitt til betri afkomu ríkissjóðs? Þær stórfelldu kerfisbreytingar sem orðið hafa á síðustu tveimur árum koma ekki fram í hagsbótum til almennings en aftur á móti eykst í sífellu umfang yfirstjórnar ráðuneyta bæði í mannafla og kostnaði og ber þar hæst heimastöðvar hæstv. fjmrh. sem þó boðar í sífellu sparnað og samdrátt hjá öðrum.
    Ég ítreka það enn að þegar frv. til fjárlaga fyrir árið 1989 var lagt fram, þá gagnrýndi ég það. Ég benti á að forsendur þess um laun, gengi og verðlag væru ekki trúverðugar. Ég benti einnig á vanáætlanir í frv. sem skellt var skollaeyrum við og ég var ósátt við ýmsar þær ráðstafanir sem fjárlagafrv. bar í sér. Nú hefur sannast að gagnrýnin hafði við rök að styðjast. Forsendur fjárlaganna reyndust marklitlar, vanáætlanirnar komu upp á yfirborðið eins og óhjákvæmilegt var og er spurning hvaða rök liggja til þess að hæstv. fjmrh. vill heldur greiða vanáætlanirnar eftir á og hljóta ámæli fyrir rangar áætlanir og fyrir að fara fram yfir greiðsluheimildir en láta fjárlögin gefa sem sannasta mynd af raunverulegri stöðu ríkissjóðs. Ég held að heiðarlegra væri og happasælla að taka þá stefnu við gerð fjárlaga að þar kæmu fram þau útgjöld sem eru fyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Það gerir fjárlagadæmið réttara. Hins vegar er auðvitað verulega gagnrýni vert að á dögunum eftir að fjáraukalög fyrir 1989 voru afgreidd í desember skyldu koma til greiðslur á annan milljarð, eftir að fjáraukalög höfðu verið afgreidd.
    Þær niðurstöður sem hér liggja fyrir sýna auðvitað svo að ekki verður um villst að öll stjórn á fjármálum ríkisins fór gersamlega úr böndunum á síðasta ári. Það vekur óneitanlega þá spurningu í hug okkar hvort hæstv. ríkisstjórn muni yfir höfuð takast að koma

einhverju lagi á stjórn efnahagsmála í okkar landi. Því miður sjást ekki mörg merki þess og það kann að verða okkur öllum dýrkeypt.