Veiðar á hrefnu
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Sighvatur Björgvinsson):
    Frú forseti. Till. til þál. á þskj. 809 er flutt af mér og hv. þm. Skúla Alexanderssyni. Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi en hlaut þá ekki afgreiðslu og eins og fram er tekið í grg. með tillögunni nú er e.t.v. enn brýnna að hún hljóti afgreiðslu í ár en var í fyrra.
    Um fárra ára skeið hafa veiðar á hrefnu verið bannaðar. Þegar það var gert var nokkur óvissa um stærð hrefnustofnsins og töldu sumir að hrefnum kynni að hafa fækkað svo við landið að ástæða væri til að draga mjög verulega úr veiðum eða jafnvel að hætta þeim. Slíkt var þó ekki áformað heldur þvert á móti fyrirhugaði hæstv. sjútvrh. að veita veiðiheimildir, en mjög takmarkaðar í samræmi við sérstaka áætlun um veiðar á hrefnu undir stjórn og eftirliti Hafrannsóknastofnunar. Sú áætlun hefur hins vegar aldrei séð dagsins ljós af ýmsum ástæðum, en þeir hrefnuveiðimenn sem áður höfðu atvinnu sína af hrefnuveiðum og þau byggðarlög sem byggðu afkomu sína þar á hafa ár eftir ár beðið og vonast til þess að hæstv. sjútvrh. efndi það fyrirheit sem gefið var á sínum tíma um takmarkaðar veiðar. Hefur það þó aldrei orðið.
    Á þeim árum sem liðið hafa án þess að hrefnuveiðar hafi verið stundaðar hefur ýmis ný vitneskja bæst við um hrefnufjölda við Ísland. Við talningu hefur komið í ljós að hrefnur eru við og umhverfis landið í þúsundatali og eru menn almennt sammála um að engin ástæða sé til að ætla að stofninn sé í hættu heldur bendi þvert á móti allt til þess að meira en óhætt sé að hefja hrefnuveiðar í atvinnuskyni á ný. Er þetta einnig niðurstaða Norðmanna en þar munu veiðar á hrefnu hefjast áður en langt um líður.
    Einnig kom fram hjá hæstv. sjútvrh. fyrir tveimur árum í umræðum hér á Alþingi um þetta sama mál að hann teldi að ekki væru lengur fyrir hendi þær
ástæður sem voru á sínum tíma fyrir því að veiðar á hrefnu voru ekki leyfðar og hæstv. ráðherra tók fram að hann sæi engin vísindaleg rök fyrir því að veiðum á hrefnu yrði ekki haldið áfram.
    Það er því ekki nauðsynlegt að halda þeim sem afkomu sína eiga undir hrefnuveiðum í frekari óvissu um framtíð veiðanna og það er ástæðulaust að ganga ekki úr skugga um það með takmörkuðum veiðum að óhætt sé að nýta þessa auðlind sjávarins með eðlilegum og skynsamlegum hætti eins og allt bendir til að mögulegt sé.
    Till. sú til þál. sem hér er lögð fram er í því fólgin að Alþingi álykti að skora á sjútvrh. að heimila takmarkaðar veiðar á hrefnu sumarið 1990. Veiðarnar skuli stundaðar undir umsjón Hafrannsóknastofnunar, m.a. í því skyni að meta ástand og stærð hrefnustofnsins og leggja grundvöll að hagnýtingu hans í atvinnuskyni í samræmi við niðurstöður um veiðiþol.
    Ég vil ekki fara fleiri orðum um þessa tillögu. Þetta mál hefur oft verið rætt, m.a. hér á Alþingi, og allar forsendur liggja ljósar fyrir. Það hefur komið

fram, eins og ég sagði áðan, að hæstv. sjútvrh. telur ekki efnislegar ástæður, þ.e. vísindalegar ástæður, mæla gegn því að þessi heimild verði veitt. Ég legg því til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til framhaldsumræðu og hv. atvmn. og vænti þess fastlega að hæstv. sjútvrh. geti tekið undir þau meginsjónarmið sem í till. þessari felst.