Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Egill Jónsson):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hér á þskj. 813 till. til þál. um uppbyggingu og rekstur stóriðjuvers á landsbyggðinni, en flm. auk mín eru hv. þm. Halldór Blöndal, Pálmi Jónsson, Eggert Haukdal, Friðjón Þórðarson og Þorv. Garðar Kristjánsson. Tillgr. er stutt og skýr og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að næsta stóriðjuveri skuli valinn staður á landsbyggðinni.``
    Segja má að þessi þáltill. komi í beinu framhaldi af ályktun landsfundar Sjálfstfl. sem haldinn var í upphafi vetrar og fjallaði um byggðamál. Þar er greint frá þeirri stefnu að stóriðjuverum verði komið fyrir, eins og þar er sagt, á vaxtarsvæðum landsbyggðarinnar sem nánar eru skilgreind í ályktuninni. Þannig má segja að þessi landsfundarályktun hafi markað nokkur tímamót í þessum efnum og eins og ég sagði áðan kemur þessi tillöguflutningur í beinu framhaldi af henni.
    Eins og fram kemur í grg. með tillögunni og á fylgiskjölum sem henni fylgja má ætla að stóriðjuver af þeim toga sem er núna sérstaklega í umræðunni muni kalla til sín 2500--3500 manns eftir því hvar það kann að verða staðsett og það má náttúrlega hverjum manni ljóst vera að það væri óhagkvæm ráðstöfun frá sjónarmiði í byggðamálum ef sú niðurstaða yrði að velja stað fyrir væntanlegt álver á þenslusvæðum sem fólksstraumurinn liggur þegar til.
    Menn hafa nú af því vaxandi áhyggjur í þessu þjóðfélagi hvernig komið er í byggðamálum og hvers má vænta í þessum efnum. Byggðastofnun hefur fyrir sitt leyti skýrt hver þróun þeirra mála gæti orðið á næstu áratugum og það er
fróðlegt að hyggja að því að ef þróun í búsetu frá næsta ári, árinu 1991, til ársins 2010 yrði sú sama og verið hefur síðasta áratuginn mundi fækka á landsbyggðinni um 9738 einstaklinga en höfuðborgarsvæðið mundi taka aftur til sín fólksfjölgunina alla og raunar meira eða 54.071 mann. Það sér nú hver maður hvað mundi af slíku leiða og þess vegna hlýtur það að vera grundvallaratriði í þessum efnum að aðgerðir í atvinnumálum gangi gegn þeirri þróun sem verið hefur á síðustu árum.
    Hér er að sjálfsögðu um flókið og mikið vandamál að ræða og það er fjarri því að því sé haldið hér fram að ein ákvörðun út af fyrir sig, eins og t.d. staðsetning á næsta álveri, ráði þar höfuðúrslitum en hún væri áreiðanlega þáttur í því að leita jafnvægis og þannig þurfa menn að hugsa og framkvæma í öðrum þáttum atvinnumála ef þessi straumur á að geta snúið við. Menn sjá það líka fyrir sér að vandinn er ekki einungis bundinn við fólkið í hinum dreifðu byggðum eða byggðarlögin þar því að auðvitað mega menn sjá til hvers það leiðir hér í þéttbýlinu ef slíkur straumur heldur áfram, bæði að því er varðar mannvirkjagerð í samgöngum og þjónustugreinum.
    Frá því að þessi tillaga var lögð fram hefur umræðan um staðsetningu næsta álvers miklu meira

lotið að því að því verði valinn staður á landsbyggðinni. Ég minni á það að daginn eftir að þessi tillaga var lögð fram á Alþingi lýsti hæstv. forsrh. því yfir að það væri svo að segja einróma stuðningur við þessi sjónarmið í þingflokki Framsfl. og í umræðum í Ed. Alþingis um frv. til laga um raforkuver fagnaði hann því að tillagan hefði komi fram sem hefði skýrt afstöðu með þeim hætti sem hér er gert.
    Það liggja líka fyrir mikilvægar yfirlýsingar af hendi Alþb., eins og kunnugt er, um það að ef til þess kæmi að byggt yrði stóriðjuver væri það nánast skilyrt af hendi Alþb. að það yrði sett upp úti á landi.
    Hér er því orðin býsna víðtæk umræða sem fellur í sömu átt og tillagan á þskj. 813 kveður á um og ber sérstaklega að fagna því. Það er líka afar mikilvægt að þessi sjónarmið hafi komið fram með jafnskýrum hætti og raun ber vitni því að auðvitað leiðir það af því að ríkisstjórnin hlýtur að taka tillit til þeirra þegar samningar fara fram við erlenda aðila um þessi efni. Því að auðvitað er það alveg út í hött að slík fyrirtæki geti valið sér stað hér á landi. Þar hljótum við sjálfir að ráða. Eins og ég sagði áðan er það grundvallaratriði í þeim efnum hvaða stefna er mörkuð, hvaða möguleikar eru fyrir þessa staðsetningu. Ég fæ ekki betur séð en málin hafi að því leyti skýrst með afar mikilvægum hætti einmitt núna á síðustu vikum.
    Við eigum það að sjálfsögðu allir sammerkt, flm. þessarar tillögu og þannig mun það vafalaust vera með marga fleiri alþm., að kjósa helst að henni yrði valinn staður í þeim kjördæmum sem við erum fulltrúar fyrir. Það leiðir af sjálfu sér að slíkri starfsemi mun fylgja mikilvæg atvinnuuppbygging og margháttuð umsvif og að sjálfsögðu gera þeim byggðum sem þess nytu kleift að snúa vörn eða jafnvel undanhaldi, eins og verið hefur í byggðamálum, í sókn. Við mundum þess vegna áreiðanlega hver og einn vilja sjá slíkt stórfyrirtæki rísa í okkar kjördæmum.
    Við höfum hins vegar valið þann kostinn að marka meginstefnuna, þ.e. að væntanlegt stóriðjuver verði staðsett úti á landsbyggðinni. Auðvitað munum við hver og einn og að sjálfsögðu þá við hliðina á forustumönnum í okkar kjördæmum vinna að því að svo geti orðið. En í þessari tillögu er ekki kveðið neitt á um
slíkar ákvarðanir. Hér höfum við valið þann kostinn að flytja till. til þál. um það sem við erum sammála um, þ.e. að næsta stóriðjuveri skuli valinn staður úti á landsbyggðinni og með því leitast við að snúa við straumnum í byggðamálum frá því sem verið hefur.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að tillögunni verði vísað til 2. umr. og atvmn.