Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Þessi þáltill. sem hér er til umræðu er mikilvægt innlegg í umræðu um frelsi í gjaldeyrismálum og aðlögun að sameiginlegum fjármagnsmarkaði Evrópuríkjanna. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að hafa gjaldeyrisviðskipti frjáls, sér í lagi í þeim tilgangi að halda uppi jafnvægi í utanríkisviðskiptum svo og til þess að þeir aðilar sem versla með gjaldeyri geti fylgst með hagstjórn hverju sinni og verðlagt gjaldeyrinn í samræmi við það. Það kemur einmitt fram um þessar mundir. Í Morgunblaðinu í dag er frétt um það að peningamagn í umferð hafi aukist um 42% sl. 12 mánuði, útgjöld fjárfestingarlánasjóða um 38% og erlendar lántökur um 51%. Það er einmitt nauðsynlegt að fá gjaldeyrisverslunina frjálsari þannig að þeir sem versla með gjaldeyri geti verðlagt hann í samræmi við hagstjórn hverju sinni, eins og ég sagði áðan, og þannig komið í veg fyrir að fyrirtæki í útflutnings- og samkeppnisiðnaði verði rúin eigum sínum.
    Það er hins vegar miður að hæstv. viðskrh. skuli ekki vera staddur hérna við umræðuna því það er haft eftir honum í Morgunblaðinu í dag, með leyfi hæstv. forseta, að hann hafi ekki miklar áhyggur af þessari aukningu peningamagns um þessar mundir. Hann segist ekki telja að mikið sé að marka þessar mælingar. Hann telur að sveiflur í þröngum peningastærðum, eins og þessum, sé ákaflega lítil vísbending um verðbólgutilhneigingar.
    En það er nú einmitt það sem málið snýst um, að hæstv. ríkisstjórn á sennilega Íslandsmet í seðlaprentun og aukningu peningamagns. Þeir sem skipta sínum gjaldeyri yfir í íslenska mynt geta enga hönd fyrir höfuð sér borið. Þannig er staðið að framleiðslunni í landinu að hún fær ekki tækifæri til þess að verja sig fyrir þessum athöfnum kerfisins.
    Ég bar upp fsp. til hæstv. viðskrh. um þetta mál í hæstv. Alþingi í vetur og spurði einmitt að því hvað peningamagn í umferð mætti aukast frá upphafi til loka ársins 1990 svo það samrýmdist verðlagsforsendum nýgerðra kjarasamninga og enn fremur hvaða stjórntækjum viðskrh. hygðist beita til að ná þessum markmiðum og hvaða fyrirmæli hann hefði gefið Seðlabankanum varðandi þessi málefni. Svörin voru harla loðin og maður var satt að segja engu nær hver þau markmið væru.
    Nú liggur einmitt fyrir í sjútvn. Nd. frv. til laga um nýjan Verðjöfnunarsjóð þar sem gert er ráð fyrir því að verðjafna sveiflum á sjávarafurðum í gegnum nýjan sjóð. Einmitt í því sambandi er ástæða til að spyrja: Hver skyldu þá önnur markmið vera í stjórnun peningamála ef það á að fara að taka þær hækkanir sem núna koma, eftir gífurlegar lækkanir á sjávarafurðum, inn í Verðjöfunarsjóð? Hvaða önnur markmið í stjórnun peningamála skyldi þessi hæstv. ríkisstjórn hafa til samræmis við þennan Verðjöfnunarsjóð? Við því hafa ekki fengist nein svör. Það verður nú að telja ákaflega hæpið að ætla sér

núna, þegar verð á afurðum er nýbyrjað að hækka, að taka þá fjármuni sem koma inn í sjávarútveginn, svo skuldugur sem hann er og svo mikið sem búið er að skuldbreyta þar síðustu mánuði. Mér er því spurn: Með hverju á svo að borga ef aðrir hlutir eiga að dingla lausir og þenslan að fara af stað? Með hverju á þá sjávarútvegurinn að verja sig? Það verður kannski gamla sagan að hann verður alltaf sífellt fórnarlamb og dregið verði að fella gengið, þ.e. að gengi íslensku krónunnar verði sett fast eins og það er núna, kerfið heldur áfram að prenta stjórnlaust fyrir fjárlagahallanum og svo seint og um síðir verða menn að viðurkenna staðreyndirnar og fella gengið.
    Ég sé að hæstv. viðskrh. er kominn. Ég fagna því að hann skuli vera kominn hingað til að taka þátt í þessari umræðu. Ég vil því leyfa mér að spyrja hann aftur að því hvaða markmiðum hæstv. ríkisstjórn hafi hugsað sér að stefna að í stjórnun þessara peningastærða sem koma hér fram í Morgunblaðinu í dag, þ.e. að peningamagn í umferð hafi aukist um 42% á 12 mánuðum. Ég vil leyfa mér að ítreka þá fsp. sem ég bar fram hér í vetur: Hvaða fyrirmæli hafa verið gefin Seðlabankanum?
    Ég var að segja það hér áðan að þar sem fyrir lægi nýtt frv. um Verðjöfnunarsjóð, sem er í sjálfu sér rökrétt, er erfitt að treysta því ef ekki er meiningin að stefna að sömu markmiðum á öðrum sviðum peningamála. Ég hef heyrt hæstv. viðskrh. flytja ágætis ræður stundum þar sem hann talar um samræmda stjórnun peningamála, launamála, ríkisfjármála og gengismála. Því ítreka ég þessar spurningar: Hver eru fyrirmælin og hver er stefnan varðandi peningamálin? Er hún þessi 42% aukning, er þetta alveg stjórnlaust, eða eru einhver fyrirmæli á ferðinni? Þetta er náskylt þessari umræðu og auðvitað er eðlilegast og best að þeir sem skipta með gjaldeyri geti verið einhvers konar kviðdómur á efnahagsstjórn stjórnvalda og varið sig fyrir óstjórn með því að verðleggja gjaldeyrinn í samræmi við þær upplýsingar sem fyrir liggja hverju sinni varðandi hagstjórn. Það er hinn eðlilegasti gangur málsins.
    Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.