Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Fyrr í þessari umræðu beindi hv. 1. þm. Reykv. til mín spurningum varðandi starfshóp sem ég skipaði í janúarlok til þess að gera athugun á mögulegum aðgerðum á vegum bankakerfisins og ríkisstjórnarinnar í því skyni að tryggja að vaxtalækkun til samræmis við ört hjaðnandi verðbólgu fengi staðist til frambúðar. Starfshópurinn var skipaður að tilmælum samtaka innlánsstofnananna í tengslum við gerð síðstu kjarasamninga. Starfshópurinn hefur skilað áfangaskýrslu þar sem fjallað er um umfang þess vanda sem við er að glíma sem er í stuttu máli sagt sá að þegar verðbólga hjaðnar jafnört og raun ber vitni --- og enn hafa allar verðþróunaráætlanir staðist sem gerðar voru í janúarlok --- þá þrengist vaxtamunurinn mjög og afkoma bankanna versnar. Bankar og innlánsstofnanir hafa farið fram á að starfsskilyrði þeirra yrðu bætt á ýmsa lund og hv. 1. þm. Reykv. vék að nokkrum þeim atriðum í sinni ræðu. Nefndin hefur bent á ýmsa möguleika þar sem hið opinbera kæmi til móts við innlánsstofnanir með breytingum á skattlagningu og með öðrum aðgerðum sem mundu lækka kostnað þeirra. Þar á meðal eru atriði, eins og hv. 1. þm. Reykv. nefndi, rýmri frádráttarréttur vegna afskriftarreiknings útlána við mat á tekjum til tekjuskatts, rýmri frádráttarréttur vegna þess sem lagt er til hliðar vegna lífeyrissjóða, auk þess ýmsar ábendingar um peningamálastjórn sem frá sjónarmiði bankanna gætu breyst þeim til hagsbóta.
    Hugmyndir hópsins eru nú til athugunar í Seðlabanka, viðskrn. og fjmrn. Ég vil láta það koma fram að fjmrn. hefur lýst því yfir fyrir sitt leyti að það muni stuðla að því að starfsskilyrði íslenskra innlánsstofnana verði ekki lakari en starfsskilyrði sams konar stofnana í ríkjum Evrópubandalagsins og EFTA.
    Fyrsta beina aðgerðin í samræmi við hugmyndir starfshópsins er lækkun á bindiskyldu innlánsstofnana úr 11% í 7%. Hún var einmitt ákveðin í gær og kemur fljótt til framkvæmda ásamt hliðarráðstöfunum sem miðast við það að bæta hag innlánsstofnana, án þess að raska jafnvægi á peningamarkaði. Ég vil þó leggja á það ríka áherslu að það eru fyrst og fremst innlánsstofnanirnar sjálfar sem þurfa að laga sig að breyttum aðstæðum með margvíslegum hagræðingaraðgerðum. Þær aðgerðir eru sannarlega í gangi. Ég vildi leyfa mér að benda hv. þm. á það að frá árinu 1988 hefur starfsmönnum í bankakerfinu fækkað um 12%. Nú er svo komið að viðskiptabankarnir eru aðeins þrír, voru sjö fyrir einu ári. Í framhaldi af þessari miklu breytingu í bönkunum mun fylgja uppstokkun, hagræðing, einföldun og lækkun kostnaðar. Þetta er sú þróun sem stefnan í bankamálum þarf að miða að en um leið veita þessum færri sterkari stofnunum aðhald með erlendri samkeppni og þar með er ég að sjálfsögðu kominn að því máli sem við ræðum hér í dag.
    Hv. 5. þm. Austurl. beindi til mín spurningum um markmið stefnunnar í peningamálum og hvort þau væru í samræmi við þá þróun í verðlagsmálum sem

ég hef hér lýst. Já, mitt svar er að ég tel að peningamálaaðgerðirnar séu nú rétt stilltar miðað við það að ná verðbólgunni á þessu ári niður í lægstu tölur sem sést hafa um 20 ára skeið. Það er ákaflega merkilegur árangur og stafar af ýmsu, ekki síst af hyggilegum kjarasamningum sem hér náðust vegna skynsamlegrar afstöðu bæði launþegasamtaka og samtaka vinnuveitenda, og reyndar með víðtækum pólitískum stuðningi úr fleiri flokkum en þeim sem mynda núverandi ríkisstjórn. Það er þakkarvert.
    Það er rétt hjá hv. 5. þm. Austurl. að það er hægt að benda á einstaka peningamálastærðir sem hafa hækkað nokkuð að undanförnu vegna þess bata sem orðið hefur bæði í innlánum bankanna og í tekjum sjávarútvegsins. Það þarf að bregast við þeim batamerkjum af skynsamlegri varfærni. Það verður líka gert. Ef svara ætti spurningu hv. þm. um það hver fyrirmæli ríkisstjórnarinnar til Seðlabankans séu í peningamálum þá eru þau einföld: Að Seðlabankinn hagi sinni peningamálastjórn þannig að hún samrýmist og stuðli að því að við náum verðbólgunni niður í þá 6--7% breytingu frá upphafi til loka árs sem er markmið kjarasamninganna og tengdra aðgerða.