Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegur forseti. Ég hélt að mér væri óhætt að biðja um orðið af því að virðulegur forseti gaf mér orðið áðan án þess að ég bæði um það, en ég skal vera mjög stuttorður, vil raunar helst bera af mér sakir eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. segir svo oft.
    Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta misskilning, vil ég kalla það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. Ég hef aldrei boðað gengishækkun. Ég hef aðspurður sagt: Vissulega er það eitt tæki til að sporna á móti þenslu, en ég hef þvert á móti sagt að batinn í íslensku efnahagslífi er ekki almennur. Hann er fyrst og fremst bati sjávarútvegs og fiskvinnslu og þá er gengishækkun hættuleg leið því að hún mismunar svo mikið.
    Ég hef sömuleiðis sagt: Það er betri leið að þeir sem njóta þessa bata noti hann til þess að greiða niður sínar skuldir og ég hef jafnframt sagt að frekar en að ráðast í gengishækkun er æskilegra, þegar svona stendur á, að nota Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins. Ég vona því að þetta komist skýrt til skila og að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um það.