Frelsi í gjaldeyrismálum
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Ég tók mig á í ræðu minni og sagði að hæstv. forsrh. hefði sagt að það væri álitamál hvort ætti að hækka gengið og sjálfur vék hann nú að því í sinni ræðu að það væri álitamál, og það er athyglisvert líka að hann telur sérstaka ástæðu núna til þess að leggja til hliðar fé sjávarútvegsins í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Það má kannski rifja það upp, hæstv. forsrh. ... (Gripið fram í.) Ein leið, já. Hæstv. ráðherra sagði að það væri ein leið. Hann hefur áhyggjur af því að sjávarútvegurinn standi of vel. Hæstv. forsrh. hefur áhyggjur af því. Ég get minnt hæstv. forsrh. á að í Verðjöfnunarsjóð eru nú teknir peningar t.d. af Ítalíuskreið og þó liggur það fyrir að mörg fyrirtæki sitja uppi með um þriðjung og helming af sinni framleiðslu og ef litið er til afkomu skreiðarverkenda á sl. ári er það síður en svo að það gefi neitt tilefni til slíks. Ég vil að þetta komi skýrt fram og verð bara að brosa yfir því þegar hæstv. forsrh. segir að vangaveltur hans um það að hækkka gengið, vangaveltur hans um að ein leiðin sé sú að hækka vexti, vangaveltur hans um það að taka í Verðjöfnunarsjóð, þær eigi að taka bara sem óráðshjal sem ekkert mark sé takandi á. Það er auðvitað algjörlega útilokað. Staðreyndin er sú að þeir tveir heiðursmenn sem hér sitja mér á hægri hönd tóku ákvörðun um það haustið 1988 að reyna að keyra niður verðbólguna á kostnað útflutningsframleiðslunnar.
    Ég heyrði að hæstv. iðnrh. sagði áðan: Þetta eru alltaf sömu orðin. --- Það eru alltaf sömu orðin. Það er tapreksturinn, það eru erfiðleikarnir, það eru mennirnir sem standa frammi fyrir gjaldþrotunum. Hæstv. viðskrh. hefur talað um það og líka formaður Alþb. að nú séu einhverjir sérstakir uppgangstímar á Íslandi og atvinnuleysið sé bara þegar farið að minnka. Í skýrslu Þjóðhagsstofnunar var þetta hrakið undir eins, strax eftir að viðskrh. hafði skrifað sína grein. Ég veit ekki hvort þessum mönnum er líka kunnugt um það
að fjöldi ungs, efnilegs fólks hefur verið að fara hingað til Reykjavíkur í atvinnuleit og sá maður sem veitir atvinnumálum forstöðu í félmrn. hefur sagt mér að þetta unga fólk komi sumt hér um bil undir eins þangað niður eftir til að leita að atvinnu erlendis. Og sá maður sem gleggst fylgist með því hefur einmitt áhyggjur af því að margt af duglegasta fólkinu, utan af landi, sé nú á förum utan vegna þess að það sér ekki fram á að það hafi viðunandi lífsafkomu hér á landi.
    Ég sé hér fyrir framan mig formann þingflokks Alþfl. Það væri kannski fróðlegt að hann fengi þessa tvo ráðherra í fylgd með sér upp á Akranes og ræddi við þá um atvinnuástandið þar. Það væri kannski líka fróðlegt ef, eigum við að segja ef hv. 2. þm. Austurl. færi með þessa tvo ráðherra í sitt kjördæmi og þeir spyrðu konurnar þar hvort atvinnuástandið þar sé ekki sérstaklega gott. Það hefur hvergi verið verra en einmitt þar. Þannig er nú ástandið í þessum málum og

auðvitað mjög broslegt að þessir ráðherrar sem hafa búið til þá kreppu sem við stöndum frammi fyrir, hafa valdið því að fólk býr nú við meiri sultarkjör en það rekur minni til, skuli vera með yfirlæti, þessir menn skuli vera að kasta steinum að öðrum í staðinn fyrir að reyna að standa sig sjálfir í stað þess að leysa öll mál á síðustu stundu og ævinlega með klækjum. Síðasta dæmið um þetta er frv. um stjórn fiskveiða. Það var ekki fyrr en á síðustu stundu sem ráðherrarnir komu saman til þess að ræða málin. Þeir létu starfsnefndir þingsins sitja hér yfir þessu frv. svo vikum skipti án þess að gera grein fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar og án þess að gera sjálfir grein fyrir því hvað þeir vildu. Það sýnir auðvitað lítilsvirðingu þessara manna fyrir því fólki sem vinnur úti í atvinnugreinunum, fyrir útgerðarmönnum, fyrir sjómönnum, fyrir fiskverkafólki að þeir skuli aldrei geta gert Alþingi grein fyrir málunum þegar þau eru lögð fyrir þingið, heldur hlaupa inn í myrkvastofur á síðustu stundu og reyna þá að komast að einhverri niðurstöðu sem auðvitað er til bölvunar. Jafnvel menn sem vinna hjá fyrirtækjum sem eiga þó að vera hliðholl þessari ríkisstjórn koma á fund þingnefnda, segja að vísu við mann frammi á gangi: ,,Það er ekki nema skrípaleikur að koma hingað. Ég veit að það er ekki tekið mark á því sem ég segi``, láta samt sjá sig í nefndunum en vita að það er gjörsamlega þýðingarlaust að koma með ábendingar eða leiðbeiningar.
    Hæstv. viðskrh. talaði allra manna mest um það að hann vilji frjálsa viðskiptahætti. Af hverju reynir þá ekki maðurinn að beita sér fyrir því á þinginu? Ef maðurinn hefur einhvern áhuga á því að sýna vilja sinn í verki, af hverju gerir hann það þá ekki? Og ég spyr líka: Af hverju var hann þá að hlaupa frá þeim mönnum sem einmitt hafa sjálfir á stefnuskrá sinni að auka frelsið, gera þjóðfélagið nútímalegra, að vinna hér að markaðsbúskap? Við sjáum hér í dag, hæstv. forseti, viðtal við Gorbatsjov. Hann var þar að tala um það hvernig ætti að reyna að bregðast við vanda ýmissa verksmiðja í Sovétríkjunum, ég vil segja atvinnurekstrar Sovétríkjanna. Þá talaði hann einmitt um það að fyrirtækin yrðu að standa sig á frjálsum markaði. Á sama tíma og Gorbatsjov er að boða þetta í sínu stóra og mikla ríki er
ríkisstjórnin að knýja á stuðningsmenn sína hér á þinginu til að búa til enn eitt sultarkerfið í sjávarútveginum, enn eitt uppbótakerfið, enn eitt gjafakerfið, til þess að brjóta niður frjálst framtak og eðlilega uppbyggingu í þessari þýðingarmiklu atvinnugrein, og ég hygg að enginn beri jafnmikla ábyrgð á því eins og sá ráðherra sem hér er í salnum.