Stóriðjuver á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Það er óþarfi að vera langorður um þessa tillögu. Hún er staðfesting á samþykkt síðasta landsfundar, orðalagið er það sama, og snýst einfaldlega um það að næsta stóriðjuver rísi á landsbyggðinni. Ég verð auðvitað að láta í ljós, eins og ég hef oft gert áður, undrun mína á því að hv. 6. þm. Norðurl. e. skuli ekki slást í hóp okkar ýmissa annarra sem höfum barist fyrir því að álver rísi við Eyjafjörð vegna þeirrar miklu nauðsynjar sem þar er á því að treysta betur undirstöður atvinnulífsins. Það er mjög mikill fjöldi fólks atvinnulaus nú nyrðra. Við sjáum líka fram á það að útgerðin stendur þar höllum fæti vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt í sambandi við sjávarútvegsmálin og tvö þau fyrirtæki sem hafa verið burðarásar atvinnulífs á Akureyri. Fyrst skal ég nefna ullariðnaðinn. Hann er nú fluttur suður má segja og það fólk sem þar var margt atvinnulaust. Erfiðleikar ullariðnaðarins eru líka runnir undan þeim rifjum að halda genginu röngu. Ef við horfum til Slippstöðvarinnar á Akureyri og þess að samkeppnisstaða þess myndarlega fyrirtækis er erfiðari en áður þá er það vegna þess að genginu hefur verið haldið röngu og auðvitað alveg makalaust og dæmalaust í sambandi við það raðsmíðaskip sem þar er í smíðum að ríkisstjórnin skyldi ekki hafa staðið við fyrirheit um það að eðlileg lánafyrirgreiðsla yrði föl til þess að einkaaðilar keyptu það skip eins og einstakir ráðherrar a.m.k. gáfu í skyn hér í þingsölum og sögðu í einkasamtölum að væri tryggt. Að vísu er Niðursuðuverksmiðja Kristjáns Jónssonar það sterk en auðvitað, eins og hæstv. iðnrh. hefur sagt, hefur sá iðnaður líka staðið höllum fæti vegna einmitt gengisstefnunnar sem fylgt hefur verið. Í þessum byggðarlögum norður
þar hefur það verið svo, eins og þeir sem þar eru kunnugir vita, sérstaklega á Akureyri, að útflutningsiðnaðurinn hefur verið öflugri þar hlutfallslega en í nokkru öðru byggðarlagi á landinu og þess vegna hefur hin ranga gengisstefna ríkisstjórnarinnar bitnað mjög þungt á þessum byggðarlögum, mjög þungt svo ekki sé meira sagt.
    Nú hefur það komið fram í ræðum hæstv. menntmrh. og í ræðu hæstv. forsrh. að innan ríkisstjórnarinnar --- hjá Framsfl. var vilji til þess og Alþb. vildi gera það að skilyrði að næsta álver risi utan höfuðborgarsvæðisins. Mér er að vísu ekki kunnugt hvort hæstv. menntmrh. muni standa við það ef til kemur að gera það að algjöru úrslitaatriði en ég vil þó gera mér vonir um það og þá liggur auðvitað beint við að það álver sem nú er verið að semja um við Alumax muni rísa við Eyjafjörð. Hins vegar er auðsætt af grein sem birtist í DV í dag að Suðurnesin eða nágrenni Reykjavíkur, Vatnsleysuströndin, virðist vera að koma sterkar inn í myndina en áður eftir því sem hæstv. iðnrh. segir. Hann sagði í samtali við DV að Keilisnes væri ,,sterklega inni í myndinni``. Þessi ummæli sýna að iðnrh. tekur ekki mark á þeim fyrirvörum sem hæstv. menntmrh. hefur gert varðandi

staðsetningu álversins. Hitt veldur auðvitað erfiðleikum að ræða þessi mál alvarlega við hæstv. iðnrh. og ríkisstjórnina þegar haft er í huga að stöðugt og ávallt er verið að gefa nýjar og nýjar dagsetningar á því hvenær staðarvalið liggi fyrir. Síðasta yfirlýsing iðnrh. sem ég sá laut að því að staðarvalið yrði ákveðið í lok maímánaðar. Nú stendur hér í DV að talið sé að ákvörðun um staðsetningu álvers muni dragast nokkuð en fyrirhugað var að hún lægi fyrir í maí. Nú er talið ljóst að hún liggur ekki fyrir fyrr en í lok júní í fyrsta lagi, segir í Dagblaðinu í dag. Nú veit ég ekki hvort fréttamaður hefur rök fyrir þessari fullyrðingu sinni og væri fróðlegt að fá upplýsingar um það.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég gerði tilraun til þess í Ed. að kalla fram skýr svör hjá hæstv. forsrh. um það hvernig málið stæði í ríkisstjórninni. Auðvitað svaraði hann svona út og suður, upp og niður eins og hans vandi er. Hæstv. iðnrh. svaraði engu ræðu menntmrh. þegar hann lýsti því yfir að það væri úrslitaatriði í sínum huga og í huga þeirra alþýðubandalagsmanna að næsta álver risi utan höfuðborgarsvæðisins. Í þeim skilningi hlýtur Vatnsleysuströndin að vera höfuðborgarsvæðið, því að ekki búast menn við því að álver rísi í Skerjafirðinum. Ólafur Ragnar Grímsson, hæstv. fjmrh., talaði auðvitað út frá þeim sjónarmiðum að hann er nú á leið inn í Alþfl., er að ganga úr Alþb. og hefur raunar gefið í skyn opinberlega að það sé eiginlega sjálfsagt mál að Alþfl. og Alþb. muni bjóða fram saman í næstu þingkosningum undir nafninu Nýr vettvangur eða einhverju öðru, AA eða eitthvað, ég skal ekki segja. Þess vegna er auðvitað ósanngjarnt að vera að krefja fjmrh. svara þegar spurt er hver sé stefna Alþb. og hvernig beri að skilja samþykktir þingflokks Alþb. Við efrideildarmenn urðum vitni að því að hann tók ummæli Svavars Gestssonar hæstv. menntmrh. ekki alvarlega en talaði miklu frekar á þeim nótum sem hæstv. iðnrh. hefur gert sem eðlilegt er út frá því bræðralagi sem milli þeirra er því ekki kann ég við að segja að þeir séu komnir í eina pólitíska sæng saman.
    Þetta vildi ég sagt hafa en athyglisvert er að ummæli hæstv. iðnrh. í Dagblaðinu í dag verða naumast skilin öðruvísi en svo að Keilisnes sé að verða
sá staður sem fyrir valinu verður. A.m.k. er alveg ljóst af þessari frétt að blaðamaðurinn telur, eftir að hafa rætt við iðnrh. og aðra þá sem málið varðar, útilokað að nýtt álver rísi t.d. við Hvalfjörð, í nágrenni Akraness. Það er einnig ljóst að Austurland er úr sögunni. Spurningin stendur þá núna um Keilisnesið eða Eyjafjörð en í þessari frétt er ekki haft eitt einasta orð eftir iðnrh. um það hvort Eyjafjörður sé líka sterklega inni í myndinni, sem mér þætti eðlilegt að iðnrh. tæki fram ef svo væri. Ég verð að láta í ljósi mikil vonbrigði yfir þessu, hæstv. forseti, líka þar sem það virðist ljóst að iðnrh. hafi ekki viljað taka því boði samstarfsmanna hans í ríkisstjórn að láta á það reyna hvort álverið gæti risið við Eyjafjörð heldur kaus að fara aðrar leiðir og sýndi með því verki að það svæði er honum ekki ofarlega í huga í

sambandi við staðsetningu álvers.