Útgáfa hæstaréttardóma
Fimmtudaginn 26. apríl 1990


     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Virðulegi forseti. Þetta er væntanlega síðasta tillagan til þál. sem ég flyt hér í Sþ. á 112. löggjafarþingi. Vil ég nota tækifærið til að þakka fyrir mjög góða samvinnu og mjög ánægjulegar samverustundir, sérstaklega þegar við forseti vorum tvö ein í salnum og aðrir áheyrendur voru ekki að máli mínu svo tímum skipti hér í þingsalnum.
    Ég mæli hér að lokum fyrir till. til þál. um að fella niður nöfn fólks með útgáfu hæstaréttardóma. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að breyta útgáfu hæstaréttardóma þannig að felld verði niður nöfn á fólki sem þar kemur við sögu. Breytingarnar taki gildi við útgáfu næstu hæstaréttardóma eftir samþykkt þessarar ályktunar og taki til endurútgáfu eldri rita í framtíðinni.``
    Greinargerðin hljóðar svo:
    ,,Allir dómar Hæstaréttar eru gefnir út á Íslandi og er sú útgáfa einkum hugsuð sem handbók fyrir lögmenn og dómara og aðra sem vilja kynna sér faglegu hliðina á dómsmálum og lögfræðina á bak við dómana. Útgáfan er því fagleg.
    Í hæstaréttardómum eru allir málavextir nákvæmlega raktir, meðferð mála hjá lögreglu og fyrir dómstólum. Fólk er þar kallað til sögunnar undir fullu nafni og heimilisfangi og ítarlega greint oft frá högum hvers og eins. Sakaskrár
fólks birtar þar sem við á og aðrar persónulegar upplýsingar. Þannig birtast oft mjög viðkvæmar upplýsingar um fjölda fólks í hæstaréttardómum.
    Það færist hins vegar í vöxt að fólk les hæstaréttardóma til að forvitnast um aðra og hagi þeirra en ekki til að lesa lögfræðina á bak við dómana. Hér er lagt til að fólk verði verndað fyrir þeirri hnýsni.
    Lögfræðin í hæstaréttardómum er jafnskýr þó að nöfn fólks falli niður en það auðkennt á annan hátt. Fordæmi eru reyndar fyrir því í hæstaréttardómum þar sem fólk kemur við sögu í viðkvæmustu málum á borð við barnsfaðernismál og nauðgunarmál. Sú breyting er líka í anda nýrra laga um söfnun persónuupplýsinga með tölvum.
    Flm. þekkir þess dæmi að fólk veigrar sér við að áfrýja málum til Hæstaréttar vegna nafnbirtingar í hæstaréttardómum. Þannig hafa þessar nafnbirtingar þegar haft áhrif á gang réttvísinnar í landinu og er það miður.``
    Virðulegi forseti. Að lokum mæli ég með því að tillagan fari til síðari umr. og hv. allshn.