Skipan prestakalla
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. allshn. (Jón Helgason):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá allshn. um frv. til laga um skipan prestakalla og prófastsdæma og um starfsmenn þjóðkirkju Íslands.
    Nefndin hefur rætt um þetta frv. á mörgum fundum. Auk þess var það sent til athugunar allra prófasta, Prestafélags Íslands og leikmannaráðs þjóðkirkjunnar. Einnig bárust nefndinni ýmsar athugasemdir og ábendingar frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Fjórðungssambandi Norðlendinga og sóknarnefndum nokkrum og einstaklingum.
    Eins og kom fram í framsöguræðu hæstv. dómsmrh. er þetta frv. búið að vera lengi í undirbúningi á vegum kirkjunnar, ræðast á kirkjuþingum og fara til athugunar og umræðu á héraðsfundum vítt um land.
    Frv. hefur þó verið að taka breytingum í þessari meðferð og jafnvel allt fram undir það að það var lagt fram á þessu þingi. Þær breytingar sem síðast voru gerðar voru misjafnlega vel kynntar þeim aðilum sem hlut áttu að máli.
    Nefndin leggur til að nokkrar breytingar verði gerðar á frv.
    Í kjölfar þróunar, sem orðið hefur í þjóðfélaginu, hafa nokkrum sinnum verið gerðar breytingar á lögum um skipan prestakalla og prófastsdæma á þessari öld. Þær breytingar hafa verið misjafnlega róttækar og alllangur tími liðið á milli þeirra. Með þessu frv. er verið að gera slíkt einu sinni enn. Jafnframt er tekin upp í ríkari mæli en áður sú stefna að gera skipulag þjóðkirkjunnar í málefnum prestakalla og prófastsdæma sveigjanlegra en áður. Er þá auðveldara fyrir safnaðarfólk, presta, biskup og ráðherra að gera æskilegar breytingar án þess að slíkt útheimti lagabreytingar á Alþingi. Brtt. nefndarinnar ganga í þá átt að undirstrika þetta sjónarmið og gera það enn
auðveldara að slíkar skipulagsbreytingar verði gerðar með undangengnu samkomulagi.
    Í brtt. felst það að nokkuð er dregið úr breytingum sem frv. gerir ráð fyrir frá núgildandi lögum. Hins vegar er þá hægt síðar, ef vilji er fyrir hendi, að ganga þar lengra eins og ég sagði áðan.
    Í 1. gr. frv. eru talin upp prestaköll og prófastsdæmi landsins. Þar hafa verið gerðar nokkrar breytingar á nöfnum prestakalla sem nefndinni finnst ástæðulaust að gera, þ.e. að fella niður gömul og söguleg nöfn prestakalla þótt aðsetur prests hafi verið fært til. Slíka tilfærslu á prestssetrum hefur verið og er enn, samkvæmt frv., hægt að gera með ákvörðun ráðherra að undangengnum umsögnum viðkomandi aðila. Því eru prestssetrin ekki svo fast staðbundin, þó þau séu nefnd í frv. eins og í núgildandi lögum um mikinn hluta landsins.
    Nefndin gerir þá brtt. í sambandi við þessi heiti að í stað orðsins ,,Egilsstaðaprestakall`` í Múlaprófastsdæmi komi: Vallanessprestakall, eins og það heitir nú. Enn fremur að Bjarnanessprestakall í Skaftafellsprófastsdæmi haldi heiti sínu en verði ekki breytt í Hafnarprestakall. Sama er að segja um

Garðaprestakall á Akranesi, að það haldist og enn fremur Búðardalsprestakall og Hvolsprestakall í Snæfellsness- og Dalaprófastsdæmi. Og að lokum að Suðureyrarprestakall í Ísafjarðarprófastsdæmi verði áfram Staðarprestakall í Súgandafirði og Breiðabólsstaðarprestakall í Húnavatnsprófastsdæmi haldi enn fremur sínu heiti en verði ekki breytt í Hvammstangaprestakall.
    Þá gerir nefndin enn fremur tillögu um nokkrar efnisbreytingar við þessa 1. gr.
    Í fyrsta lagi að Ásaprestakall í Skaftafellsprófastsdæmi haldist áfram óbreytt eins og það hefur verið. Þá verði einnig Klaustursprestakall fært til fyrra horfs og nafni þess reyndar breytt í Kirkjubæjarklaustursprestakall. Þá er í Árnessprófastsdæmi gerð tillaga um að Stóra-Núpsprestakall haldist áfram en við það bætist Hraungerðis- og Villingaholtssóknir og þær færast frá Selfossprestakalli, eins og frv. gerir reyndar ráð fyrir. Hins vegar leggur nefndin til að Hrunaprestakall verði óbreytt.
    Þá leggur nefndin til að skipan prestakalla í Skagafjarðarprófastsdæmi verði óbreytt frá því sem er í núgildandi lögum.
    Í 1. gr. er enn fremur breytt nöfnum á prófastsdæmum hér í Reykjavík þannig að í stað XV. liðar í 1. gr., þar sem er nafnið ,,Reykjavíkurprófastsdæmi`` komi Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og í stað XVI. liðarins ,,Holta- og Vogaprófastsdæmi`` komi Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Að öðru leyti verði skipan þeirra óbreytt.
    Nefndin fékk ábendingu um að neikvætt gæti verið að skipta Reykjavíkurprófastsdæmi þannig í tvennt þar sem það gæti gert samstarf að einhverju leyti erfiðara innan þessa svæðis alls þegar það væri orðið tvö prófastsdæmi heldur en á meðan það er eitt. Stærð þess er hins vegar orðin svo mikil að það hefur þótt eðlilegt að gera þessa skiptingu.
    Þá er gerð breyting á 2. gr. vegna þessara nafnabreytinga.
    Í 4. gr. er lagt til að síðustu orðin, ,,sbr. 2. gr.`` falli niður. Heimild ráðherra til að stofna nýtt prestakall eða breyta mörkum prestakalla eftir tillögu biskups og að fengnum umsögnum héraðsfundar, safnaðarráðs og
aðalsafnaðarfundar viðkomandi sókna gildi þannig um landið allt en ekki aðeins þau svæði sem 2. gr. fjallar um. Þar með vill nefndin við undirstrika að vilji heimamanna og kirkjunnar geti ráðið með samþykki ráðherra ef þeim sýnist að skipan geti farið betur en ákvæðið er samkvæmt lögum þessum. Á þetta vill nefndin við leggja mikla áherslu.
    Eins og ég sagði áðan bætir nefndin inn einu prestakalli aftur í 1. gr. frv. Til þess að standa þó ekki í vegi fyrir eðlilegum breytingum er gerð tillaga um að aftan við 6. gr. bætist orðin: enda hafi það verið prestlaust í a.m.k. tvö ár. Ef ekki fást prestar til að gegna fámennum prestaköllum um nokkurt skeið þá hafi kirkjan og ráðherra heimild til þess að

sameina þau öðrum prestaköllum. Þannig verði það þróunin sem hafi slíkar breytingar í för með sér en ekki valdboð frá Alþingi.
    Í 8. gr. er felld niður næstsíðasta mgr. sem hljóðar svo: ,,Nú er prestssetur selt, þar sem prestakall er lagt niður samkvæmt lögum þessum, og skal þá andvirði þess renna í Kristnisjóð.`` Ríkissjóður hefur kostað byggingu prestsseturshúsa á undanförnum áratugum, þeirra húsa sem nú eru í notkun. Því er eðlilegt að andvirðið renni í ríkissjóð þar sem reiknað er með að þá þurfi að byggja prestssetur á öðrum stað í staðinn, því ákvæði er í frv. um að prestum skuli ekki fækka í heild.
    Þá er komið að IV. kafla frv. Þar gerir nefndin brtt. um upphafsorð 21. gr. Í stað orðanna ,,Samstarf presta innan hvers prófastsdæmis skal einkum lúta að`` komi: Prestum ber að hafa samstarf um kirkjulega þjónustu innan hvers prófastsdæmis undir stjórn prófasts. Samstarf presta skal m.a. lúta að.
    Með þessu vill nefndin leggja áherslu á að æskilegt sé að samstarf presta innan hvers prófastsdæmis sé sem fjölbreyttast. Það er sums staðar komin allgóð skipan á þessi mál. Prófastar halda reglulega fundi með prestum og ræða um samstarf og skipta með sér verkum. Fyrir nokkrum árum kom upp sú hugmynd innan kirkjunnar að búa til nokkurs konar prestamiðstöðvar en hún fékk ekki hljómgrunn. Skoðun okkar er sú að með nánu samstarfi sé hægt að ná fram þeim ávinningi sem hefði hlotist af því að þeir væru á miðstöðvum. Hins vegar héldu þeir betur samstarfi og sambandi við söfnuði sína með því að sitja í hverju prestakalli.
    Til þess að undirstrika þetta og auðvelda er 22. gr. breytt þannig: Biskupi er heimilt að fela sóknarpresti, er þjónar í prestakalli þar sem íbúafjöldi er innan við 700 íbúa og aðstæður að öðru leyti leyfa, að annast bæði tiltekin verkefni og þjónustu í einstökum sóknum utan prestakalls síns að tillögu prófasts, án viðbótarlauna en gegn greiðslu kostnaðar. Þar með er nefndin við að undirstrika að þetta samstarf og þjónusta í öðrum prestaköllum, þar sem um fámennari hluta prestakallanna er að ræða, sé, má segja, sjálfsagður liður í starfi prestanna og ekki greitt fyrir annað en þann aukakostnað sem prestur verður fyrir. Þess vegna er vísað í þetta ákvæði 22. gr. með því að bæta aftan við 23. gr.: sbr. þó 22. gr.
    Í 29. gr. þar sem fjallað er um verkefni prófasta komi einnig: Prófastur skipuleggur samstarf presta innan prófastsdæmis, sbr. 21. gr., og afleysingarþjónustu presta í sumarleyfum og öðrum samningsbundnum leyfum þeirra.
    Þá er það 42. gr. sem fjallar um vígslu biskupa og aðsetur þeirra. Nefndin leggur til að síðasta mgr., þar sem ráðherra er veitt heimild til þess að ákveða annan stað, falli niður. Kirkjan hefur lengi óskað eftir því að vegur hinna fornu biskupssetra yrði gerður meiri og lagt það til að vígslubiskupar sitji þar. Því telur nefndin sjálfsagt að slíkt sé afdráttarlaust ákveðið.
    Einnig er fellt niður ,,í Skagafjarðarprófastsdæmi`` í næstsíðustu mgr. þar sem fjallað er um aðstoð við

vígslubiskupinn á Hólum. Þar er kveðið á um að hann njóti aðstoðar nágrannapresta sinna, og þá þeirra sem aðstöðu hafa til en
ekki eins ákveðins, eins og var gert ráð fyrir í breytingu á 1. gr. frv. þar sem lagt var til að Mælifellsprestur yrði sérstakur aðstoðarmaður vígslubiskups.
    Þá er að lokum breytt gildistökuákvæði laganna þannig að þau öðlast gildi 1. júlí 1990 í stað þess að öðlast þegar gildi. Það er m.a. vegna þess að nú stendur yfir kosning til kirkjuþings. Það mundi rugla kosningu ef hin breytta skipan prófastsdæma hér í Reykjavík væri búin að taka gildi þó að þetta hafi ekki áhrif á fjölda kirkjuþingsmanna þar sem nú eru tveir prestar og tveir fulltrúar leikmanna frá Reykjavíkurprófastsdæmi en koma svo sitt úr hvoru prófastsdæminu eftir skiptingu þá sem kveðið er á um í frv.
    Þá vil ég að lokum geta þess að við frv. hefur einnig komið brtt. frá tveimur hv. þm. Ed. um að færa Strandasýslu ásamt einum hreppi í Húnavatnssýslu úr Húnavatnsprófastsdæmi til Barðastrandarprófastsdæmis. Þarna er um allróttæka breytingu að ræða fyrir þetta svæði sem ég tel að þurfi frekari athugunar við en nú er tóm til. Flm. munu gera grein fyrir viðhorfum sínum til þessarar brtt.
    Einnig var til umræðu í nefndinni nú síðast ákvörðun um prestssetur í Bjarnanessprestakalli. Prestur þar situr nú á Höfn og í samræmi við það kveður
frv. á um að prestssetrið verði á Höfn. Um þetta eru eitthvað skiptar skoðanir heima fyrir, en nefndin treystir sér ekki í heild að taka afstöðu til þess máls sem er viðkvæmt á þeim stað.
    Með þeim breytingum sem ég hef hér gert grein fyrir mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt.