Skipan prestakalla
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég verð að segja það sem einn af nefndarmönnum í hv. allshn. sem hafði afgreitt þetta frv. úr nefndinni ásamt brtt., eins og fram kom í framsögu hv. 2. þm. Suðurl., formanns nefndarinnar, að það kom okkur mjög á óvart þegar við komum af nefndarfundi í allshn., þar sem við vorum að fjalla um eitt atriði í þessu frv., að málið skyldi vera komið á dagskrá og frsm. farinn að mæla fyrir málinu. Við höfðum komið okkur saman um það í nefndinni að málið kæmi ekki á dagskrá núna vegna þess að við ætluðum okkur að reyna að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það mál sem við vorum að fjalla um. Ég ætla ekki nú að fara nánar út í efnisatriði þess sem við vorum að ræða. En það kom enn þá meira á óvart þegar formaður í lok ræðu sinnar sagði að nefndin í heild væri ekki tilbúin að standa að brtt. sem þetta atriði fjallar um.
    Við höfum tekið málið upp í nefndinni vegna þess að umsögn hafði borist eftir að nefndin hafði afgreitt málið. Ég held að allir séu sammála um að þetta frv. er fyrir marga vítt og breitt um landið mjög viðkvæmt. Þess vegna er það mjög æskilegt að hægt sé að ná sem bestri og breiðastri samstöðu um flest og helst allt í þessu frv. Þetta vildi nefndin reyna til þrautar, áður en frv. yrði tekið á dagskrá til 2. umr. Þess vegna fer ég fram á það nú að þessari umræðu verði frestað þangað til nefndin hefur fengið að fjalla endanlega um þetta mál og ljóst er að hvaða niðurstöðu hún kemst sem slík.