Skipan prestakalla
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég ætlaði aðeins að segja örfá orð, þó ekki varðandi efnisatriði þessa máls. Við höfum fjallað um þetta frv. nokkuð lengi í hv. allshn. Það kom fram í umsögnum að innan prestastéttarinnar og meðal prófasta hafði náðst eitthvað sem e.t.v. mætti kalla bærilega sátt. En auðvitað vitum við að fólk út um allt land er misánægt eða jafnvel óánægt með þetta og samþykkir þessar breytingar á skipan prestakalla með semingi. Ég vil taka undir orð síðasta hv. ræðumanns. Það kom mér á óvart að hv. formaður skyldi lýsa svo afdráttarlaust yfir að nefndin hefði ekki treyst sér til að flytja brtt. varðandi Bjarnanessprestakall vegna þess að þegar hann vék af fundi höfðu ekki allir tjáð sig.
    Ég segi fyrir sjálfa mig að ég tel mér skylt að kanna málið nánar í framhaldi af fundi okkar nú í dag. Sjálf þekki ég ekki mjög vel til aðstæðna þarna fyrir austan, en eins og við vitum spila bæði tilfinningaleg og söguleg rök inn í þegar um þessi mál er fjallað. Þau eru auðvitað ekki verri en hver önnur rök.
    Ég veit að ég má vænta þess af hæstv. forseta, sem er formaður hv. allshn., að hann verði við beiðni okkar um frestun þessa máls í bili þar til við höfum gert upp hug okkar.
    Ég veit að ég þarf ekki að búast við sams konar yfirgangi af hans hálfu og mér sýnist við fá yfir okkur í blöðum. Hér er ég með Tímann frá því í dag þar sem haft er eftir hæstv. forsrh. að menn megi tala sig rauða og bláa um kvótann. Það kann auðvitað ekki góðri lukku að stýra þegar slíkur yfirgangur og hroki, liggur mér við að segja, er sýndur þeim þm. sem eru að rækja sín skyldustörf hér af þeirri alúð sem þeim er unnt. Það virðist vera nokkur agablær á öllu því sem hér á að gerast næstu dagana. Það vakti dálitla athygli að einmitt á forsíðu Tímans í dag stærir hæstv. fjmrh. sig af því að hafa betri aga á efnahagsmálum en járnfrúin. Mér þykir það vægast sagt hættulegt hugarfar sem birtist í báðum þessum fyrirsögnum, sem eru fyrirsagnir í þessu blaði sem telur sig hafa boðað frjálslyndi og framfarir í sjö tugi ára. Ég held að þetta sé ekki rétt aðferð í átt til frelsis og framfara. Við þingmenn erum að reyna að taka störf okkar hér alvarlega en mér sýnist reyndar að e.t.v. geri það ekki allir jafnt. Þó að svo hátti til að hæstv. fjmrh. hafi ekki atkvæðisrétt á þingi þá rakst ég á auglýsingu í DV í dag þar sem hann boðar fundi um landið til þess að kynna hversu góðan aga hann hefur í efnahagslífinu. Hann hefur boðað fundi á morgun og mér skilst að þá sé fundur hér í báðum deildum og sömuleiðis á mánudagskvöldið. Mér þykir líklegt að einhverjir hv. þm. kunni e.t.v. að óska eftir nærveru hæstv. fjmrh., hefðu e.t.v. til hans einhverjar fyrirspurnir. Því við erum svo sannarlega að fjalla um mjög viðamikil mál í báðum deildum sem snerta ráðuneyti hans eins og ráðuneyti annarra hæstv. ráðherra.
    Eins og ég sagði ætlaði ég ekki að fara út í

efnisatriði frv. en ég fer fram á að þessari umræðu verði frestað, eins og fram kom reyndar í máli síðasta ræðumanns, hv. 6. þm. Reykn. ( EKJ: Ég vil heyra hvað ráðherrann sagði orðrétt, áður en ræðumaður lýkur máli sínu.) ( StG: Er ekki hægt að lesa þriðju síðuna líka?) Hæstv. forsrh. sagði í Tímanum í gær svo að ég vitni beint, með leyfi forseta:
    ,,...að þinghald yrði að standa yfir þar til frumvarp um úreldingu fiskiskipa og um stjórn fiskveiða yrðu afgreidd. Hann telur sjálfsagt að þinghald standi þá eitthvað lengur en gert hafði verið ráð fyrir ef menn vilja taka sér lengri tíma í að ræða málið.`` Þar læt ég lokið minni tilvitnun, þetta er efni þess sem hæstv. forsrh. sagði.
    Ég er auðvitað alveg sammála honum. Það þarf að taka tíma til þess að ræða þessi mál, en það skín í gegnum þetta að þau eigi að ræða þau í þeirri mynd sem þau eru núna og þar megi engu breyta. Þar kemur enn og aftur þessi agi sem hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að hafa hér og sýna þannig ákveðinn yfirgang í garð þingmanna.