Afgreiðsla þingmála
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Ég ætla ekki að vera langorður en svo vel ber í veiði að hæstv. forsrh. birtist hér. Hér áðan var verið að lesa upp úr dagblaðinu Tímanum sem boðað hefur frjálslyndi og framfarir í sjö tugi ára, hvorki meira né minna, en menn þekkja nú allt frjálslyndið og framfarirnar sem þeir hafa barist fyrir. Þetta er hins vegar hin merkasta forsíða sem hér birtist og mjög fögur mynd af hæstv. forsrh. og yfirskriftin er þessi: ,,Forsrh. segir þingið sitja þar til kvótamálið er afgreitt. Mega tala sig rauða og bláa um kvótann``. Það segir hann nú. Það eru hv. alþm. sem forsrh. er að ávarpa með þessum hætti.
    Úr því að ég var nú að biðja um orðið hér núna um þingsköp leyfi ég mér að geta þess að hér var upplýst áðan að varðandi frv. sem um prestaköllin fjallar hefði hv. allshn. verið á fundi þegar hæstv. forseti hóf hér framsögu án þess að við vissum af, hin sem vorum á fundi í nefndinni til að fjalla um það mál. Við höfðum ekki ætlað að blanda einstökum ágreiningsefnum, eða álitaefnum skulum við frekar segja vegna þess að ég vil ekki tala um ágreining í nefndinni, við höfum reynt að leysa málin í bróðerni, þá bregður svo við að hæstv. sjútvrh., áður hæstv. dómsmrh. og kirkjumrh., fer að taka einstakt dæmi hér í ræðustól og útmála það af hæversku sinni að það sé nú fólkið í landinu sem öllu eigi að ráða í þessum efnum og nefnir þar sérstaklega til ákveðna sóknarnefnd, einmitt það mál sem við erum að fjalla um og reyna að leysa í bróðerni. Hann gat þess svo sem ekki að það mun hafa verið tveim dögum áður en hann lét af embætti dómsmrh. sem hann hafði síðast afskipti af þessu máli. Hvort þau afskipti hafi verið af hinu góða eða ekki skal ég náttúrlega ekki ræða nú, en ég held að hann hefði átt að hlífast við að fara að nefna þau afskipti sín af þeim málum, að það hafi verið til þess að vilji fólksins kæmi fram og lýðræðisástin hafi verið svo mikils ráðandi í gjörðum hans þar. Ég held að þau orð hefðu betur verið ósögð, en við höfðum ekki ætlað okkur að ræða það mál efnislega fyrr en síðar og það mun þá væntanlega gert eftir helgi.