Afgreiðsla þingmála
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Salome Þorkelsdóttir :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki stillt mig um að lýsa því hér yfir að það hefur valdið mér vonbrigðum að hæstv. núv. sjútvrh., fyrrv. kirkjumrh., skuli einmitt fara með í ræðustól þær umræður sem við ætluðum að reyna að koma í veg fyrir og ég er honum sammála um að eiga helst ekki að fara fram hér í þinginu. Svo viðkvæm mál ber að leysa í nefndarstörfum en ekki hér í umræðum. Það var það sem ég var að reyna að gera grein fyrir, að við vildum fá tíma til að leysa málin, til þess að þurfa ekki að fara með slíkar umræður hér inn í þingsalinn. Beiðni mín um frestun á þessu máli beindist einmitt að því að gera það ekki. Nú hefur hæstv. sjútvrh. og fyrrv. hæstv. kirkjumrh. hins vegar gefið tilefni til þess að slík umræða fari hér fram sem ég ætla samt sem áður ekki að stunda.