Afgreiðsla þingmála
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Aðeins af því að hv. þm. Eyjólfur Konráð gerði að umræðuefni það ágæta blað Tímann sem hann lýsti réttilega sem frjálslyndu og framfarasinnuðu þá kemur mér á óvart að svo lífsreyndur maður og fyrrv. ritstjóri skuli láta rauða og bláa fyrirsögn fara eitthvað fyrir brjóstið á sér. Fyrirsögnin er eflaust ritstjórans eins og gengur og gerist og engir þekkja betur en hv. þm. Hins vegar sýnist mér það sem segir í greininni vera efnislega nákvæmlega það sama og ég sagði hér niðri í Nd. Það væri ekki rétt af mér að meina þingmönnum einhverja daga til viðbótar ef þeir vilja ræða betur svo mikilvægt mál. Það er það sem ég sagði. Ég álít að þarna eigi að gæta lýðræðislegra vinnubragða. Á fyrirsögninni tek ég því enga ábyrgð. Hún má vera svört og hvít eða hvað sem er. Því verða aðrir að ráða.