Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil gera grein fyrir þeim fyrirvara sem ég hef við samþykkt þessa frv.
    Meginefni frv. tel ég vera það að nú er loksins verið að koma á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu eins og hefði átt að gera fyrir löngu. Það hefur jafnan frestast um hver áramót og hef ég yfirleitt verið andvíg þeirri frestun þar til alveg síðast þegar lofað var að þessi breyting stæði fyrir dyrum. Það er sam sagt meginefni þessa frv. sem mér finnst vera mikilvægt.
    Síðan eru ýmsar aðrar breytingar sem eru til bóta, en frv. er flutt ekki síst vegna breytinga á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Það eru ýmsar stjórnunarbreytingar eða breytingar á stjórnsýslu heilbrigðisþjónustunnar sem koma hér til og hafa verið gerðar talsverðar breytingar á frv. frá því það var lagt fram fyrst, eins og kom fram í máli hv. framsögumanns nefndarinnar.
    Ég mun nú gera grein fyrir helstu fyrirvörum sem ég hef.
    Það er þá í fyrsta lagi að ég tel að 1. gr. sé í raun óþörf og hún hefði mátt vera eins og hún var. Ég sé ekki ástæðu til þess að breyta greininni eins og hún er í núgildandi lögum um heilbrigðisþjónustu þar sem kveðið er á um að landlæknir skuli annast útgáfu heilbrigðisskýrslna í samvinnu við deildir ráðuneytisins.
    Í öðru lagi er það þá 3. greinin. Ég er ekki sannfærð um að í raun og veru sé þörf eða grundvöllur fyrir starf héraðslækna sem eru embættislæknar, bæði í Norðurlandshéraði eystra og þó sérstaklega í Reykjaneshéraði, og enn síður er ég sannfærð um að heimild þurfi til að ráða slíka héraðslækna víðar. Ég tel að það hefði hreinlega átt að vera heimildarákvæði um aðra héraðslækna en þann sem er í Reykjavík, þ.e. að um sérmenntaðan embættislækni væri að ræða.
    Síðan held ég að mjög mikilvægt sé að sá læknir sem gegnir embætti héraðslæknis, eins og getið er um í 3. gr. nú, sé starfandi læknir á svæðinu, ekki endilega heilsugæslulæknir, heldur almennt starfandi læknir, og haldi þessum starfrænu tengslum sínum. Ég held að það sé nauðsynlegt.
    Síðan hef ég athugasemd við 5. gr. Ég held að þar hefði mátt koma inn að ráðherra setti héraðslæknum erindisbréf að fengnum tillögum landlæknis og umsögn Læknafélags Íslands til að fá aðra faglega umsögn. Það er þó ekki meginatriði.
    Hins vegar er það 9. gr. Þar hefur vissulega á metnaðarfullan hátt verið aukið við menntuðu starfsliði þegar heilsugæslustöð er skilgreind. Nú eru allar heilsugæslustöðvar, H2, H1 og H-stöðvar skilgreindar sem heilsugæslustöðvar einungis ef þar er læknir og hjúkrunarfræðingur eða, í tilvikinu um H-stöðina, að læknir hafi aðsetur varanlega eða um tiltekinn tíma eða vitji stöðvarinnar. Ég er ekki á móti því að landsbúum sé boðið upp á heilbrigðisþjónustu sem best menntaðs starfsfólks. Hins vegar tel ég að það

gæti komið til erfiðleika víða úti á landsbyggðinni, sérstaklega varðandi H1 stöðvarnar og kannski líka H-stöðvarnar, að manna þær eins og hér stendur. Það er hins vegar mál hæstv. heilbrrh.
    Eins og ég sagði áðan hafa bæst ýmsar breytingar við frv. frá því að það var fyrst flutt. M.a. við 10. gr. frv. sem varðar 14. gr. laganna. Þar kemur í lok þeirrar greinar ákvæði um að þrátt fyrir skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi geti íbúar borgarinnar jafnan valið sér heilsugæslulækni eða heimilislækni utan heilsugæslustöðva og leitað læknishjálpar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni. Þarna er komið til móts við óskir borgaranna um að geta leitað til þeirra lækna sem þeir ævinlega hafa haft og að sú ráðstöfun að koma á fót heilsugæslustöðvum í Reykjavík verði ekki í einu vetfangi og ryðji burtu því kerfi sem hér hefur verið heldur verði þessu leyft að þróast eftir því sem eftirspurn og óskir fólksins kveða á um.
    Til þess að þetta ákvæði geti í raun orðið val fyrir almenning var stungið upp á því að við 8. gr. frv., sem varðar 12. gr. laganna, komi áhersluákvæði sem kveði svo á að læknum sé þó heimilt að stunda heimilislækningar og sérfræðistörf á eigin stofum til að veita þessu vali starfsgrundvöll, ef svo mætti að orði komast. Það hefur þó verið tekið fram sérstaklega í nál. að sá
skilningur ríki að þetta sé raunverulegur valkostur fyrir borgarana og vona ég að hæstv. heilbrmrh. staðfesti það hér á eftir.
    Síðan vildi ég aðeins nefna í tengslum við 15. gr. frv. sem varðar 17. gr. laganna. Þegar 13. gr. laganna var breytt, eins og stendur í 9. gr. frv., var jafnframt fellt niður að sjúkraþjálfarar skyldu starfa við heilsugæslustöðvar, H2. Ég tel að starf sjúkraþjálfara við heilsugæslustöðvar sé mjög mikilvægt í fyrirbyggjandi tilgangi og þeirri tegund sjúkraþjálfunar verði varla sinnt svo að vel sé á öðrum stöðum í Reykjavík þar sem mikið annríki er við önnur verkefni. Ég tel því brýnt að taka það sérstaklega fram í lögum að þeim sé ætlað að starfa við heilsugæslustöðvar og þá einkum við fyrirbyggjandi störf.
    Síðan er það 27. gr. frv. sem varðar 47. gr. laganna. Þar hafði verið breyting í frv. Ég tel til bóta að sú breyting hafi verið felld niður. Ég tel
eðlilegt að fólk leitist við að leysa þann ágreining sem upp kemur í starfi, einnig um valdsvið sérmenntaðs starfsliðs, á sínum eigin starfsvettvangi. Það eru ákvæði í lögum sem leyfa að þessi ágreiningur sé tekinn til stjórnar heilsugæslustöðvarinnar eða jafnvel til landlæknis, ef fólkið treystir sér ekki til að leysa hann sjálft á vettvangi sem ég tel þó vera æskilegast. Þess vegna fannst mér eðlilegt að þessi grein félli út úr frv. og er sátt við að hún geri það.
    Síðan er það eitt í viðbót sem er í ákvæði til bráðabirgða og varðar starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar. Ég er ekki sátt við það að starfsemi hennar eigi að leggjast niður frá og með 1. jan. 1992. Ég tel að hún hafi hlutverki að gegna og

það verði að sjá hvernig þróun heilsugæslustöðvanna leysir af hendi þá heilsugæslu sem þörf er á í Reykjavík. Ég held að það verði áfram þörf fyrir ýmsa starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar og er því ekki sátt við að hún verði lögð niður eins og þarna stendur. En mér skilst og ég vil spyrja hæstv. ráðherra að því hvort það er rétt skilið hjá mér, að það eigi að fara fram heildarendurskoðun á lögum um heilbrigðisþjónustu, jafnvel í sumar og þá verði e.t.v. endurskoðuð fleiri ákvæði ásamt þeim sem hér eru. Að sjálfsögðu þarf að endurskoða þau síðar til að sjá hvernig framkvæmd þeirra reynist.
    Eins og ég sagði áðan, hæstv. forseti, tel ég að þarna sé meginefni að verið er að koma á heilsugæslustöðvakerfi í Reykjavík sem hefði átt að vera komið á fyrir löngu og hef því ákveðið að styðja þetta frv. með þeim fyrirvara sem ég hef lýst.