Heilbrigðisþjónusta
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Þar sem ég hef skrifað undir nál. sem frsm. nefndarinnar, hv. 3. þm. Norðurl. v., hefur nú gert grein fyrir þótti mér rétt að gera aðeins grein fyrir því. Það má segja, og þar get ég einnig talað fyrir munn hv. 14. þm. Reykv., að fyrirvari okkar sé í raun sá sami og kom fram í máli hv. 6. þm. Reykv. þegar hún gerði grein fyrir sínum fyrirvara við frv. Ég ætla þess vegna efnislega ekki að fara út í einstakar greinar eða brtt.
    Eins og fram hefur komið hér þá hefur þetta frv. legið í nefndinni. Það fékk mikla umfjöllun fram að jólum en hefur svo legið lengi óhreyft. Vegna þess að það bárust það miklar athugasemdir við frv. frá ýmsum aðilum var útilokað að afgreiða það eins og það var lagt hér fram upphaflega. Það var ljóst að þetta frv. hefði aukið miðstýringu að mörgu leyti og ég ætla ekki að fara út í þær einstöku greinar. Eins og það liggur nú fyrir með þeim brtt. sem nefndin stendur að teljum við að það sé ásættanlegt, enda hafði verið unnið ítarlega að því að ná fram samstöðu þeirra hagsmunaaðila um frv. sem kannski eiga hvað mestra hagsmuna að gæta. Þá er ekki síst um að ræða það sem snýr að Reykjavíkurborg, heilsugæslunni þar og sjúkrastofnunum.
    Það sem mér fannst upphaflega vera ástæða til að gera athugasemdir við var það að réttur sjúklinga hér í borginni var óljós hvað varðaði það að sjúklingar ættu valkosti um hvert þeir leituðu læknisþjónustu, hvort það væri á væntanlegar heilsugæslustöðvar eða til sjálfstætt starfandi heimilislækna eða heilsugæslustöðva og hver framtíð þeirra yrði. Það hefur nú komið fram, bæði varðandi þær brtt. sem gerðar hafa verið við frv. og eins í framsögu hv. 3. þm. Norðurl. v. þegar hann gerði grein fyrir þeim brtt., að réttur sjúklinga að þessu leyti hefur verið tryggður. Þeir geta áfram þrátt fyrir skiptingu Reykjavíkur í heilsugæsluumdæmi valið sér heilsugæslulækni eða heimilislækni utan heilsugæslustöðva og leitað læknishjálpar sem þeir eiga auðveldast með að ná til hverju sinni. Við töldum skipta miklu máli að ná þessu fram í nefndinni. Þess vegna fagna ég því að það hefur tekist og vænti þess að hæstv. heilbrrh. staðfesti það hér á eftir að sá skilningur sé réttur hjá okkur að áfram geti sjálfstætt starfandi heimilislæknar starfað á heilsugæslustöðvum og veitt þessa þjónustu eins og verið hefur.
    Eins og ég sagði ætla ég ekki að fara í einstök atriði, hvorki brtt. eða frv. umfram það sem ég hef nú gert, en mér þótti nauðsynlegt að láta koma fram hvers vegna ég skrifaði undir nál. með fyrirvara.