Málefni aldraðra
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Geir Gunnarsson:
    Herra forseti. Ég er andvígur því frv. sem hér liggur fyrir til afgreiðslu og vildi helst nýta atkvæði mitt til þess að greiða atkvæði gegn því. Hér liggur hins vegar fyrir tillaga um að vísa frv. til hæstv. ríkisstjórnar og ég get fyrir mitt leyti fallist á þá afgreiðslu mála, þó ekki á sömu forsendum og koma fram í nál. þess nefndarhluta sem tillöguna flytur.
    Ég er samþykkur álagningu þess nefskatts sem í frv. er gert ráð fyrir að felldur verði niður og vil að sá skattur verði lagður á áfram með þeim hætti og í þeim tilgangi sem lögin gera ráð fyrir. Ég er sannfærður um að málefnum aldraðra er best borgið með þeim hætti. Forsendan fyrir því að vísa frv. til ríkisstjórnarinnar ætti að mínu mati að vera athugun á því hvort rétt sé að lækka tekjuskatt einstaklinga um jafngildi nefskattsins. Á þeim forsendum samþykki ég fyrirliggjandi tillögu um að vísa frv. til ríkisstjórnarinnar og segi já.