Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég þakka hv. 2. þm. Norðurl. v. fyrir að hefja þessa umræðu. Jafnframt þakka ég hv. 1. þm. Norðurl. v. þá hina mildu ræðu sem hann flutti hér áðan þar sem hann ræddi um hin miklu störf þingsins sem tefðu það að þeir hefðu getað sinnt þessu sem skyldi. Þar var eitt mál upp talið sem mest hefði tafið fyrir, þ.e. sjávarútvegsstefnan, sem er nú í Ed. og stendur til að fari niður í þá neðri í næstu viku. En þá hyggst einmitt hv. formaður nefndarinnar taka þetta mál fyrir og versnar nú mjög ástandið.
    Hitt kom aftur á móti fram hjá formanni að hann hefur, eins og menn gerðu ráð fyrir, gefið sér tíma til að hugsa þetta mál í botn og hefur það alveg á hreinu að hann hyggst greiða atkvæði gegn því. Sá sleifaraháttur að afgreiða þetta ekki úr nefndinni byggist þá fyrst og fremst á því hvað hinir eru seinir að hugsa. Og hefur þó komið fram að frændi hans, hv. 1. þm. Reykv., hefur gert upp sinn hug í málinu --- það er Orrastaðakynið en ekki Guðlaugsstaðaættin sem tengir þá saman, svo að ekkert fari á milli mála --- og þess vegna þrengist nú mjög að öðrum sem eru í nefndinni og ekki hafa látið í sér heyra.
    Ég vil nú í allri mildi beina því til forseta að þegar svo stendur á er það ekki nema eðlilegt að forseti leiti eftir því að mál sé kallað úr nefnd. Það er raunverulega hans verksvið, því þó menn séu ekki með neina illgirni, þá hvarflar ögn að manni að það sé ekki tímaleysið til að vinna við málið heldur meira áhuginn á því að sitja á því sem ráði afstöðunni. En þetta eru auðvitað aðeins hugrenningar en ekki fullyrðingar af minni hálfu.
    Því mælist ég til þess að forseti leiti mjög eindregið eftir því við þá nefndarmenn sem ekki hafa tjáð sig um afstöðu hvort þeir gætu ekki gefið sér tíma til að kynna sér málið utan fundar þannig að þeir gætu á næsta fundi þegar þeir koma nú saman afgreitt þetta mál úr nefndinni.