Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég vil ögn víkja að bjórmáli, þó gamalt sé, að gefnu tilefni. Svo stóð á í þessu þingi að fyrir þinginu lá þáltill. um bjórmál og lagafrv. Ég taldi eðlilegra að afgreiða lagafrv. því það væri mun fljótvirkari afgreiðsla til ákvarðanatöku. Og það mun liggja bókað í þeirri fundagerðabók sem þá var notuð að ég var ofurliði borinn og menn neituðu að láta frv. fara út úr nefndinni en vildu fá þáltill. ( Forseti: Mætti ... ) Þetta er til að bera af sér sakir. ( Forseti: Mætti forseti beina því til hv. þingdeildarmanna að þeir ræði þingsköp á líðandi þingi en ekki þeirra þinga sem liðin eru.) Þessi athugasemd hefði mjög gjarnan mátt koma fram hér ögn fyrr á fundinum og spara mér umræðu, en hún skal tekin til greina.
    Nú stendur svo á að í fjh.- og viðskn. er mál, mikilvægt að dómi fjvn. Og meira að segja er látið að því liggja í blöðum þessa lands að seðlabankastjóri, sá er mestu ræður, brjóti nú um það heilann hvort taka beri yfirdráttarheimild af ríkissjóði. Bendir það til að fleiri hugsi sitt þó þeir sitji ekki í fjvn. Ég tel þess vegna að það sé gjörsamlega vonlaust að neðri deild hafi efni á því að lána starfskrafta til að greiða fyrir málum í efri deild með sameiginlegu nefndarstarfi þegar menn komast ekki yfir að sinna því sem hér er á dagskrá. Og það er gjörsamlega vonlaust að búa við það, þegar þing er hér í tvískiptum deildum, að menn beri því við að það sé ekki hægt að afgreiða mál í efri deild nema varaformaður nefndarinnar sé að störfum þar uppi. Ég tel þetta nánast vantraust á formann sjútvn. í efri deild, að halda svona málflutningi uppi. Auðvitað er ekki hægt að líða það.
    Hitt er svo hæpið að það sé sanngjarnt að ætlast til þess að koma því alfarið yfir á varaformann nefndarinnar að hann standi þar eins og klettur í hafinu fyrir að þetta sé afgreitt. Og þarf ég nú ekki annað en horfa fram fyrir mig og sjá hverjir muni þá eigast við innan Alþfl. ef þau illindi halda áfram. Ég veit ekki hvort það er vel meint hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að etja til þeirra illinda.
    En það verður forseti deildarinnar að gera sér ljóst að þetta mál var ekki flutt sem neitt ,,djók``. Það er af fullri þörf sem þetta mál er flutt og þess vegna er það ekki líðanlegt að nefndin telji það rökrétt vinnubrögð að afgreiða þetta mál ekki inn til þingsins. Auðvitað eru skiptar skoðanir en málið á að koma inn til þingsins.