Frumvarp um fjárgreiðslur úr ríkissjóði
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Kristinn Pétursson:
    Hæstv. forseti. Ég vildi koma hér upp í umræðum um þingsköp til þess að ítreka það að þetta mál sem hér er til umræðu, frv. til laga um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, verði afgreitt á þessu þingi. Ég tel þetta eitt af þeim almikilvægustu málum sem hafa komið til kasta Alþingis í mörg ár. Það er auðvitað fyrir neðan allar hellur þegar níu manna þingnefnd eins og fjvn., sem stendur öll að þessu frv. þó flytjendur séu einungis þeir sem sitja hér í hv. Nd., ef á að fara að troða slíku frv. undir stól.
    Mér kom það mjög á óvart að heyra í hv. formanni fjvn. hér áðan. Hann sagði eitthvað á þá leið að ekki væri víst að þm. gæfist kostur á að afgreiða þetta á yfirstandandi þingi. Þetta mál var lagt hér fram 21. des. sl., en ekki tekið fyrir fyrr en í mars, eftir þrjá mánuði, þó að væri jólahlé. Síðan er það búið að liggja niðri í skúffu í fjh.- og viðskn. Hvað eiga svona vinnubrögð að þýða með málefni sem níu manna þingnefnd flytur?
    Þetta mál er að mínu mati mjög nauðsynlegt til aðhalds í ríkisfjármálum. Ég mundi telja að ef eitthvað ætti að vera forgangsmál hér í þinginu þá væri það þetta mál ef mönnum er einhver alvara með það að stöðva verðbólguna hér í landinu og ef mönnum er einhver alvara með það að stíga þurfi á bremsurnar. Einhvers staðar hlýtur skýringin að vera á allri óráðsíunni undanfarin ár og sér í lagi hjá þessari hæstv. ríkisstjórn.
    Vegna þess að það tengist þessu máli mjög mikið vil ég vitna í frétt í Morgunblaðinu í gær um mál sem er einmitt náskylt efni þessa frv. Þó ekki sé verið að ræða það efnislega hér þá verð ég að fá að rökstyðja það að peningamagn hafi aukist um 42% í landinu sl. 12 mánuði á sama tíma og þjóðarframleiðslan hefur verið að dragast stórlega saman og við erum að draga saman fiskveiðar. Hvernig getur svona lagað gerst? Það gerist með því að það er bara prentað og prentað stjórnlaust fyrir allri eyðslunni. ( Forseti: Ég vil áminna hv. þm. um að fjalla um þingsköp eingöngu.) Ég tel mig vera að gera það, hæstv. forseti, að fjalla hér um þingsköp. Að því leyti sem maður verður að rökstyðja mál sitt verður maður að fá að vísa í efni til þess að geta rökstutt það sem maður er að segja. Og þessi 42%, eins og ég sagði hér áðan, eru yfir 4 milljarðar sem hefur verið dælt inn í bankakerfið af peningum sem engin verðmæti standa á bak við. Svo er bara að bíða og sjá hvort kviknar ekki í öllu saman og verðbólgan fari hér á fljúgandi ferð.
    Þetta frv. sem við erum að ræða, um fjárgreiðslur úr ríkissjóði, er einmitt tækifæri til þess að stíga á bremsuna og bjarga því sem bjargað verður hjá þessari ríkisstjórn.