Kvikmyndastofnun Íslands
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. meiri hl. menntmn. (Ragnar Arnalds):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. menntmn. um lög um Kvikmyndastofnun Íslands. Ég sé það á nál. 1. minni hl. nefndarinnar, undirrituðu af Birgi Ísl. Gunnarssyni, að honum þykir hafa verið óhæfilegur hraði á málsmeðferð. Það skal viðurkennt að málið hefur farið hraðferð í gegnum nefndina, fyrst og fremst vegna þess að það er seint fram komið. Það kom ekki til nefndarinnar fyrr en í byrjun þessarar viku og það er nokkuð ljóst að verði það ekki afgreitt frá Nd. núna öðru hvoru megin við helgi er óvíst að málið nái fram að ganga. Og þar sem málið er talið mikilvægt var ekki hægt annað en að hraða málsmeðferð.
    Hv. menntmn. hefur haldið fundi á hverjum degi eftir páska. Hún hefur haldið sjö fundi á sjö dögum og hún hefur á þessum tíma afgreitt frá sér sjö stjfrv. Ég held að þau hafi öll fengið hæfilega meðferð, en vissulega skal viðurkennt að betra væri ef meira tóm gæfist til meðferðar á þingmálum.
    Hv. menntmn. fékk nokkra aðila til sín á fund. Í fyrsta lagi Þráin Bertelsson, formann þeirrar nefndar er samdi upphaflegu frumvarpsdrögin, Þorstein Jónsson, formann Félags kvikmyndagerðarmanna, Ara Kristinsson, varaformann Félags kvikmyndagerðarmanna, Knút Hallsson, formann stjórnar Kvikmyndasjóðs, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur úr úthlutunarnefnd Kvikmyndasjóðs, Guðbrand Gíslason, framkvæmdastjóra Kvikmyndasjóðs, og frá Kvikmyndasafninu þá Árna Björnsson þjóðháttafræðing og Helga Jónasson fræðslustjóra.
    Að lokinni skoðun á frv. mælir nefndin með samþykkt þess með nokkrum breytingum sem koma fram á þskj. 1068.
    Ég hygg að þessar breytingar séu almennt þess eðlis að þær þarfnist ekki skýringa. Ég tek það þó sérstaklega fram að 6. brtt. er nær orðrétt komin frá þeim sem síðast voru taldir af þeim sem heimsóttu nefndina, Guðbrandi Gíslasyni, Árna Björnssyni og Helga Jónassyni, sem töldu ástæðu til þess að fjalla örlítið ítarlegar um viðfangsefni og hlutverk Kvikmyndasafnsins og vildu að Kvikmyndasafnið lyti sérstakri stjórn. Nefndin taldi ekki unnt að verða við þessu þar sem erfitt væri að hafa tvær stjórnir í sömu stofnuninni, þessi stofnun hefur sérstaka þriggja manna stjórn, en komst að þeirri niðurstöðu að hæfilegt gæti verið að hafa þarna þriggja manna umsjónarnefnd sem að sjálfsögðu starfar þá undir forustu stjórnarinnar og hefur það sérstaka hlutverk að fjalla um rekstur Kvikmyndasafnsins en umsjónarnefndin mundi vera skipuð samkvæmt tilnefningum frá Þjóðminjasafni Íslands, Félagi ísl. safnamanna og Námsgagnastofnun. Stjórn Kvikmyndastofnunar yrði hins vegar yfirstjórn allrar stofnunarinnar að sjálfsögðu og framkvæmdastjóri yrði framkvæmdastjóri fyrir alla stofnunina, þar á meðal Kvikmyndasafnið.
    Ég hygg að allir nefndarmenn hafi verið á einu máli um það að grundvallaratriði í sambandi við

uppbyggingu kvikmyndaframleiðslu á Íslandi sé að meira fé fáist til úthlutunar. Nefndin ræddi ítarlega þann möguleika að útleiga myndbanda yrði einn af tekjustofnum Kvikmyndastofnunar eins og mun hafa verið í frv. sem hæstv. menntmrh. lagði fyrir ríkisstjórn og þingflokka fyrir nokkrum vikum síðan. Þetta ákvæði var hins vegar tekið út úr frv. áður en það var lagt fyrir Alþingi og auðvitað er ljóst að það felst ekki mikil tekjuaukning í þessu frv. í þágu Kvikmyndastofnunar frá því sem er varðandi Kvikmyndasjóð.
    Ég er þeirrar skoðunar að brýna nauðsyn beri til að efla kvikmyndagerð á Íslandi verulega umfram það sem nú er. Ég tek heils hugar undir þau rök sem fram hafa verið borin að íslensk kvikmyndagerð kynnir land og þjóð betur en nokkuð annað getur gert og enginn vafi er á því að sú kynning skilar sér margfaldlega fjárhagslega bæði í þjóðarbúið og ríkiskassann. Með fjölgun íslenskra kvikmynda er þannig beinlínis verið að auka þjóðartekjur og ríkistekjur. Það eru því full rök fyrir því að stórauka framlög til Kvikmyndastofnunar og ég harma það, eins og margir aðrir, að sú aukning felst því miður ekki í þessu frv. og ekki tókst samstaða um það að þessu sinni að bæta tekjum af útleigu myndbanda við þannig að stofnunin fengi aukna tekjustofna. Hins vegar er það ofmælt sem heyrst hefur að enginn ávinningur sé af samþykkt frv. Ég vil nefna fjögur atriði sem ég tel vera mikilvæg í þessu sambandi.
    Í fyrsta lagi verður meira til úthlutunar til kvikmyndagerðar, einfaldlega vegna þess að reksturinn verður greiddur af sérstakri fjárveitingu og skerðir ekki það fé sem kemur til úthlutunar til kvikmyndagerðar. Þarna er ekki um að ræða stórfé. Við fengum það nú ekki alveg á hreint í nefndinni hvað þarna gæti verið um mikla fjármuni að ræða. Sumir nefndu í okkar eyru 3 milljónir og aðrir nefndu 10 milljónir. Það er sjálfsagt einhvers staðar á því bili. En þarna er vissulega um nokkra aukningu að ræða á fé til úthlutunar til kvikmyndagerðar.
    Í öðru lagi eru í frv. ákvæði sem heimila Kvikmyndastofnun að veita lán og veita ábyrgðir fyrir lánum. Þetta eru hvort tveggja mjög mikilvæg ákvæði,
sérstaklega ákvæðið um ábyrgðir. Og ég álít að hin nýja Kvikmyndastofnun geti veitt aukinn stuðning til íslenskrar kvikmyndagerðar frá því sem nú er á grundvelli þessa ákvæðis og kannski talsvert aukinn.
    Í þriðja lagi er heimild til þess að stofnunin leggi fram eignarframlög til kvikmyndagerðar þannig að stofnunin sé beinlínis eignaraðili að kvikmyndum sem gerðar eru. Þetta er nýmæli, þekkt í öðrum löndum en vissulega óreynt hér, og skal ég ekkert um það fullyrða hversu mikið þetta verður nýtt, en þarna er samt verið að fjölga möguleikum og reyna nýjar leiðir þannig að um verður að ræða hugsanlegan stuðning af fernu tagi. Það getur verið um eignarframlag Kvikmyndastofnunar að ræða til kvikmyndaframleiðslu, það getur verið um að ræða beinan styrk, það getur verið um að ræða lán og það

getur verið um að ræða ábyrgð á láni.
    Þetta eru framfaraspor sem ekki er ástæða til að vanmeta og síðan bætist í fjórða lagi við að kvikmyndagerð nýtur þess að gjafir og styrkir til hennar frá fyrirtækjum eru frádráttarbær í bókhaldi, eins og aðrar gjafir til menningarmála, og verður þessu fyrir komið með breytingu á reglugerð um tekjuskatt og eignarskatt. Og ég hygg að þetta geti tvímælalaust orðið kvikmyndalistinni og kvikmyndagerð á Íslandi til framdráttar.
    Ég ætla að vona að þingmenn og ríkisstjórnir beri gæfu til þess að skilja að það er brýn nauðsyn að efla kvikmyndagerð á Íslandi. Það er brýn nauðsyn að veita framlög til Kvikmyndastofnunar í næsta sinn óskert miðað við lög, en það hefur ekki verið gert á undanförnum árum. Jafnvel þótt í lögum hafi verið ákvæði um að svo og svo mikið fé skyldi renna til Kvikmyndasjóðs þá hefur það ekki verið framkvæmt. Það hefur ævinlega verið mjög verulega skorið niður og ég held að kannski sé það brýnna en nokkuð annað að þessi ósiður verði af tekinn og farið verði eftir lögunum í næsta sinn.
    Ég hefði vissulega kosið að lögin kvæðu á um aukinn stuðning við Kvikmyndasjóð í ríkara mæli en er í frv. en ég hygg nú samt að hitt sé ekki síður mikilvægt að menn einsetji sér að leggja fé í Kvikmyndasjóð í samræmi við lög án þess að um skerðingu sé að ræða í næsta skipti sem fjárlög verða afgreidd.
    Herra forseti. Með þessum brtt. leggur meiri hl. nefndarinnar til að frv. verði samþykkt.