Kvikmyndastofnun Íslands
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. 2. minni hl. menntmn. (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið, bæði í máli frsm. meiri hl. menntmn., hv. þm. Ragnars Arnalds, og hv. þm. Birgis Ísl. Gunnarssonar, þá þríklofnaði nefndin í þessu máli. Þó liggja leiðir saman hér og þar. Sú sem hér stendur og skipar 2. minni hl. stendur að brtt. meiri hl. nefndarinnar en flytur auk þess eigin brtt. Hún er svo til samhljóða brtt. sem einnig er að finna hjá 1. minni hl. menntmn.
    Ég vil leyfa mér að byrja á því að lesa nál. 2. minni hl. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Íslensk kvikmyndagerð á sér orðið töluverða sögu, þó mest sé nú haldið á lofti því tímabili sem kennt hefur verið við ,,vor`` og hófst fyrir tíu árum.
    Í upphafi þessa tímabils ríkti bjartsýni og ekki að ástæðulausu. Hver kvikmyndin rak aðra, ungir leikstjórar komu fram á sjónarsviðið og allir lögðu fúslega hönd á plóginn, báðum megin kvikmyndatökuvélarinnar. En brátt dró úr bjartsýninni og hægðist á ferðinni. Æ færri kvikmyndir voru framleiddar ár hvert. Það dró úr aðsókn, m.a. vegna þess að nýjabrumið var farið af, fjárhagsbyrðar urðu framleiðendum íslenskra kvikmynda of þungar í skauti og opinber framlög af svo skornum skammti að fáir gátu lagt út í framleiðslu nýrra kvikmynda. Nú er málum svo komið að árið 1989 voru tvær íslenskar kvikmyndir frumsýndar, í ár verður það ein og von er á einni árið 1991.
    Það var því orðið tímabært að skapa íslenskri kvikmyndagerð nýjan og betri grundvöll með nýrri lagasetningu. Frv. til laga um Kvikmyndastofnun Íslands hefur verið nokkuð lengi í undirbúningi og miklar vonir við það bundnar. Því urðu vonbrigðin mikil þegar frv. leit dagsins ljós. Ekki einasta var það svo illa unnið að illmögulegt var að skilja sumar greinar þess, heldur voru líka í því prentvillur sem breyttu efni frv. verulega.
    En alvarlegast var þó að í frv. fólst engin sú nýbreytni sem skipti sköpum fyrir íslenska kvikmyndagerð. Fjárhagslega mun hún standa á jafnmiklum brauðfótum og nú.
    Í umfjöllun nefndarinnar hefur ýmislegt verið fært til betri vegar, þ.e. ef brtt., sem meiri hl. nefndarinnar a° fulltrúi Kvennalistans standa að og prentaðar eru á þskj. 1061, verða samþykktar en þar eru lagðar til breytingar á sex af þrettán greinum frv. og talar það sínu máli. Þar skipta mestu máli breytingar á fyrirkomulagi úthlutunar úr Kvikmyndasjóði.
    Annar minni hl. flytur auk þess brtt. á þskj. 1073. Þar er lagt til að virðisaukaskattur af útleigu myndbanda og sjónvarpsauglýsingum renni í Kvikmyndasjóð. Það væri rökrétt tilhögun. Í frv. er lagt til að framlag ríkissjóðs nemi áætluðum virðisaukaskatti af kvikmyndasýningum. Sú tillaga er í athugasemdum við einstakar greinar frv. skýrð með eftirfarandi hætti: ,,Ákvæðið byggist á því að sýning erlendra kvikmynda hér á landi sé til styrktar íslenskri kvikmyndagerð.``

    Einungis hluti áhorfenda erlendra kvikmynda sækir sýningar þeirra í kvikmyndahúsum. Myndbandanotkun eykst með ári hverju og því er það einungis hluti tekna ríkissjóðs af erlendum kvikmyndum sem innheimtist af kvikmyndasýningum. Annað eins fæst af útleigu myndbanda, og fer sá hluti eflaust vaxandi. Þess vegna er fjarri lagi að halda því fram að ,,sýning erlendra kvikmynda hér á landi sé til styrktar íslenskri kvikmyndagerð``.
    Niðurstaðan er því að í frv. felist, auk breyttrar úthlutunaraðferðar, fyrst og fremst nafnbreyting. Það dugir ekki minna en ,,stofnun`` til að standa straum af einni til tveimur leiknum íslenskum kvikmyndum á ári. Þá er e.t.v. verr af stað farið en heima setið því að ekki mun það eitt nægja. Íslensk kvikmyndagerð mun ekki ná að slíta barnsskónum við óbreyttar aðstæður.
    Að brtt. 2. minni hl. á þskj. 1073 samþykktri munu kvennalistakonur styðja frv., en sitja hjá ella.``
    Í upphafi máls míns vil ég geta þess að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson fór nokkuð hörðum orðum um störf nefndarinnar. Nú get ég tekið undir þau sjónarmið að það hafi ekki verið vel að verki staðið en verð þó að láta í ljósi þá skoðun að verr hafi ekki verið staðið að verki en mjög venjulegt er. Ég verð að segja eins og er að umfjöllun mála í þessari umræddu nefnd er oft með þeim hætti að vont er við að una. Hún hittist sjaldan og lítil umræða verður þar oft um mál.
    Í þessu tilfelli náðist þó til þeirra sem að mínu viti mestu máli skipta í þessu sambandi, en það eru auðvitað fulltrúar þeirra tveggja heildarsamtaka kvikmyndagerðarfólks, þ.e. fulltrúar frá Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda og Félagi kvikmyndagerðarmanna. Bæði þessi félög höfðu farið ítarlega yfir frv., áttu reyndar bæði fulltrúa í þeirri nefnd sem upphaflega var falið að semja frumvarpsdrög og skiluðu bæði þessi félög ítarlegum umsögnum og brtt. við frv. Þær brtt. hafa flestar ratað inn aftur með brtt. meiri hl. Sú brtt. sem ekki rataði þangað inn er sú sem mestu máli skiptir, þ.e. tillaga sem mundi stuðla að því að renna traustari stoðum undir íslenska kvikmyndagerð.
    Eins og ég nefndi í nál. og reyndar í ræðu minni við 1. umr. þá er tómt mál um að tala að halda uppi marktækri kvikmyndagerð á Íslandi með þeim opinberu fjárframlögum sem völ hefur verið á. Íslenskir kvikmyndaleikstjórar og kvikmyndaframleiðendur eru því dæmdir til sífelldrar bernsku í þessu fagi. Það gildir hér eins og annars staðar að reynslan er mikilvægur skóli og fáir eru líklegir til mikilla afreka á þessum sviðum með einungis örfár kvikmyndir að baki. Því er það í rauninni hörmulegt að þegar þetta frv. kemur fram skuli ekki annað blasa við íslenskum kvikmyndaframleiðendum og kvikmyndaleikstjórum en sama ástand. Það má spyrja að því hvort þessum peningum sem undanfarið og samkvæmt þessum lögum er varið til þessarar listgreinar sé ekki einfaldlega betur varið með einhverjum öðrum hætti.

Ekki ætla ég að gera það að tillögu minni en e.t.v. væri heiðarlegast að segja bara: Búið í bili. Gerum eitthvað annað við peningana þangað til einhver ríkisstjórn ber gæfu til þess að standa þannig að málum að viðunandi sé.
    Ef bornar eru saman brtt. þær sem nú liggja frammi við frv. er brtt. frá 1. minni hl. við 2. gr. frv., þ.e. um skipan stjórnar Kvikmyndastofnunar Íslands. Í frv., eins og það liggur fyrir, er gert ráð fyrir þriggja manna stjórn og er það fækkun um tvo frá því sem áður var. Eins og ég lýsti hér í ræðu minni við 1. umr. er mér ekkert kappsmál að fækka í þessari stjórn og tek ekki endilega undir þau sjónarmið að litlar stjórnir séu betri en stærri. Hinu lýsti ég líka að það vefðist fyrir mér að finna hverjir ættu þá að sitja í þeirri stjórn nema ef vera skyldi fleiri fulltrúar frá Félagi kvikmyndagerðarmanna eða Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda. Nú á Bandalag ísl. listamanna aðild að stjórn Kvikmyndasjóðs og það tel ég í rauninni alveg eðlilegt fyrirkomulag, en sú tillaga sem lögð er fram í brtt. 1. minni hl. um að Félag kvikmyndaleikstjóra tilnefni einn stjórnarmann finnst mér aldeilis fráleit. Þess ber að geta í því sambandi og því til rökstuðnings að Félag kvikmyndaleikstjóra er nýtt félag. Allir meðlimir þess félags, held ég að ég geti fullyrt, eru meðlimir annaðhvort í Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda eða í Félagi kvikmyndagerðarmanna og nokkrir þeirra munu reyndar vera félagar í báðum félögunum. Auk þess verður að nefna að í þessu nýstofnaða Félagi kvikmyndaleikstjóra eru ekki mikilvirkustu kvikmyndaleikstjórar landsins utan einn. Til að nöfn séu nefnd vil ég geta þess að í því félagi er ekki Ágúst Guðmundsson, en við hans fyrstu mynd er kvikmyndavorið oft kennt. Þar er ekki Þráinn Bertelsson, þar er ekki Lárus Ýmir Óskarsson, ekki Guðný Halldórsdóttir, ekki Kristín Pálsdóttir, svo að aðeins fáeinir séu nefndir. Það verður því að draga þá ályktun að þetta Félag kvikmyndaleikstjóra sé ekki enn marktækt félag.
    Það væri fullkomlega óeðlilegt ef sami aðilinn gæti haft áhrif á tilnefningu fulltrúa í stjórn Kvikmyndastofnunar eftir þremur mismunandi leiðum. Nóg er nú að sumir eigi það eftir tveimur þó þeim opnaðist ekki þriðja leiðin og vil ég nú spyrja hvaða valddreifing finnist í slíku fyrirkomulagi. Því undirstrika ég að það er algerlega fráleitt á þessu stigi málsins að Félag kvikmyndaleikstjóra tilnefni mann í stjórn. Það getur vel verið að því félagi vaxi fiskur um hrygg með árunum, en staða þess er ekki slík nú að það komi til greina. ( FrS: Félagið er opið eins og ...) Já, en einhver ástæða er til þess að obbinn af íslenskum kvikmyndaleikstjórum hefur ekki séð ástæðu til að ganga í það félag og því verður það að bíða betri tíma að það skipi fulltrúa í svo áríðandi stjórnir sem stjórn Kvikmyndastofnunar. Ég ég vil aftur undirstrika að það væri fullkomlega óeðlilegt að eiga þrjár leiðir til áhrifa um tilnefningu fulltrúa. Vill hv. þm. gera aðra athugasemd? ( FrS: Hv. þm. tekur til máls á eftir í umræðunni.) Gott.

    Við 6. gr. frv. sem fjallar um úthlutun gerir meiri hl. ásamt 1. minni hl. og 2. minni hl. brtt. Sú tilhögun sem meiri hl. nefndarinnar leggur til er fullkomlega í samræmi við þær tillögur sem þau tvö félög sem hér um ræðir, Samband ísl. kvikmyndaframleiðenda og Félag kvikmyndagerðarmanna, lögðu til, þ.e. að stjórn Kvikmyndastofnunar tilnefni aðila til að annast úthlutun úr sjóðnum og að úthlutað skuli tvisvar á ári og sömu aðilar annist ekki úthlutun í bæði skiptin. Í báðum brtt. er síðan ákvæði um hve lengi eða hve oft sami aðili megi annast úthlutun og kveðið á um að úthlutunaraðilar megi ekki eiga hagsmuna að gæta sem er auðvitað fullkomlega haldlaus málsliður, en látum það vera.
    Í brtt. 1. minni hl. er reyndar ekki útilokað að úthlutun gæti farið fram tvisvar á ári en það er ekki lagt til. Þeir vilja veita hverjum úthlutunaraðila lengri tíma, þ.e. hann hafi möguleika á setu í úthlutunarnefnd eða til úthlutunar þrjú ár í röð. Meiri hl. nefndarinnar vill takmarka þann tíma við tvö ár í röð. Tel ég það tvímælalaust betri tilhögun vegna þess sem ég sagði hér áðan að þessi málsl. um að úthlutunaraðilar mættu ekki eiga hagsmuna að gæta væri fullkomlega marklaus.
    Það verður ekki hjá því komist í litlu þjóðfélagi, hvað þá í svo litlum geira þess sem kvikmyndaframleiðsla er, að einhverjir hagsmunir séu í húfi, einhverra hagsmuna sé gætt. Hjá því verður ekki komist en þeim mun meira
áríðandi er að það sé ekki gætt sömu hagsmuna ár eftir ár. Sjálf hefði ég því sætt mig við að hver úthlutunaraðili ynni aðeins að einni úthlutun.
    Mér finnst það skinhelgi í raun og veru að tala um að þarna séu ekki hagsmunaárekstrar. Miklu heiðarlegra er að viðurkenna þá og reyna að hafa þá breytilega frá ári til árs. Auk þess tel ég mjög mikilvægt að úthlutun fari fram tvisvar á ári. Jafnvel þó ekki verði úr miklum peningum að spila samkvæmt þessu frv. eins og það liggur hér fyrir, þá er það þó svo að það er ekki alltaf verið að veita fjárframlög til leikinna kvikmynda, það kemur margt fleira til, t.d. að veita til handritsgerðar eða annars undirbúnings. Ég held að það hljóti að vera ákaflega mikilvægt, þó ekki sé mikið til skiptanna, að þeir sem um sækja hafi áfrýjunarrétt, þ.e. geti beint sinni hugmynd til annars aðila og fengið aðra skoðun á hugmyndinni og hugsanlega fyrirgreiðslu þar. Smekkur manna er vissulega misjafn og um smekk verður ekki deilt, en þarna er vís leið til þess að mismunandi smekkur ráði líka, ekki bara á tveggja ára fresti heldur tvisvar sinnum á ári. Ég vona líka að þess verði ekki langt að bíða að tekjur Kvikmyndastofnunar verði meiri. Því það hlýtur að blasa við annaðhvort að íslensk kvikmyndagerð lognist út af innan skamms eða að gerð verði á bragarbót.
    Í báðum brtt. er síðan sagt: ,,Einnig er heimilt að veita lán og ábyrgðir fyrir láni, sbr. 8. gr.``
    Í brtt. meiri hl. er brtt. við 7. gr. frv., þar sem kemur nýr tölul. sem orðast svo: ,,Tekjur af

eignarhluta í íslenskum kvikmyndum.`` Þetta er líka samkvæmt eindreginni ósk tveggja margnefndra félaga og virðast þeir álíta að þetta geti komið bæði kvikmyndaframleiðendum og Kvikmyndasjóði til góðs, þ.e. ef svo ólíklega vildi til að kvikmynd skilaði ágóða. Því miður er ekki líklegt að svo
verði í bráð og því ekki líklegt að þetta ákvæði komi í raun til framkvæmda. En ekki sakar að hafa það þarna ef svo skyldi vilja til. Hver eignarhlutinn yrði eða hvernig því yrði hagað yrði nánar skilgreint í samningum milli þess sem úthlutun hlýtur og Kvikmyndastofnunar hverju sinni. Kvikmyndagerðarmenn hafa nefnt möguleika eins og þann að eftir að framleiðandi hefur tvöfaldað áhættufé sitt skiptist innkoma hlutfallslega eftir eignarhluta.
    Þá komum við að margfrægri 8. gr. Hún var e.t.v. versta dæmið um hroðvirknisleg vinnubrögð við þetta frv. Vil ég rifja það upp að við 1. umr. lýsti ég því yfir að ég skildi ekki þessa grein, þarna væri talað í belg og biðu um lán, styrki og ábyrgðir og bað um nánari skýringar. Hæstv. menntmrh. varð við þeirri ósk og skýrði þessa grein sjálfsagt eftir bestu getu. Annaðhvort tókst honum ekki betur eða mín skilningarvit voru ekki betur á sig komin en svo að ég fór í stól aftur og lýsti því enn að þrátt fyrir útskýringar skildi ég ekki greinina, en ég skyldi gera mitt besta til að reyna að skilja hana í nefnd. Þar hóf ég svo máls á þessu aftur og var af einhverjum aðilum hálfsnupruð fyrir að skilja ekki, en viti menn, í ljós kom að það var prentvilla sem gjörbreytti inntaki greinarinnar. Líklega hefur hún verið óskiljanleg öllum frá upphafi en samt var nú verið að reyna að verja hana og kenna mínu granna viti um skilningsleysi. En sem betur fer hafa nú allir séð að sér.
    Ég er sammála því að þessi grein sé betur orðuð í brtt. 1. minni hl. og það hefði átt að standa betur að verki hjá meiri hl. en einungis þannig að breyta orðinu ,,lán`` í styrki. Einmitt í því sambandi vil ég geta þess að ég gerði það líka að umræðuefni við 1. umr. málsins að hugnanlegra væri að tala ekki sífellt um styrki heldur fjárframlög. En það er nú kannski ekki stórmál miðað við ýmislegt annað sem upp á vantar. Aftur á móti, svo ég víki aftur að brtt. 1. minni hl., er ég ekki viss um að orðið ,,úthlutunaraðili`` komi í stað Kvikmyndasjóðs og reyndar hvort ekki ætti að standa: stjórn Kvikmyndastofnunar í 8. gr. Þarna er um það að ræða að veita lán eða ábyrgð fyrir bankalánum með vissum skilyrðum. Mér finnst harla ólíklegt að einn aðili geti veitt lán og veitt ábyrgð fyrir bankalánum sem, ef illa tekst til, eiga svo að falla á annan. Ég held því að það sé fyllsta ástæða til að líta á greinarnar, bæði eins og þær eru í framlögðu frv. og í brtt. 1. minni hl., og athuga hvort þetta stenst. En ég ítreka að að öðru leyti finnst mér greinin miklu betur orðuð hjá 1. minni hl.
    Síðan er hér tæknileg breyting en eflaust var hún af fljótfærni gerð eða misgá, eins og ýmislegt annað í þessu frv., þ.e. að í stað orðsins ,,Ríkisbókhald``

komi Ríkisendurskoðun.
    Þess utan vil ég minna á brtt. 2. minni hl. þar sem kveðið er á um að tekjur sjóðsins verði, auk virðisaukaskatts af kvikmyndasýningum, af útleigu myndbanda og sjónvarpsauglýsingum og tel mig þegar hafa fært rök fyrir því að það sé fullkomlega rökrétt tilhögun og í raun sú eina breyting í þessu frv. sem skiptir raunverulegu máli.
    Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson gerði mjög að umræðuefni hér hugmyndir úthlutunarnefndar um frv. en þeim mun minna gerði hann úr hugmyndum þessara tveggja stóru félaga þessa sama fólks. Með fullri virðingu fyrir
úthlutunarnefnd þá hefur hún eins árs reynslu af úthlutun og vinnu við Kvikmyndastofnun en félagar í þessum tveimur félögum, Sambandi ísl. kvikmyndaframleiðenda og Félagi kvikmyndagerðarmanna, hafa tíu ára reynslu af því kerfi sem hefur verið við lýði og hafa búið við þá tilhögun í tíu ár. Þess vegna finnst mér sérkennilegt að þeirra skoðanir skuli ekki vega þungt í þessu máli. Þetta er einróma niðurstaða beggja þessara félaga, sem ég ítreka að Félag kvikmyndaleikstjóra á líka aðild að, sem birtist í þeim tillögum sem nefndinni voru afhentar.
    Hv. þm. Ragnar Arnalds lauk máli sínu hér áðan með því að láta í ljósi þá ósk að Alþingi og ríkisstjórn mættu bera gæfu til þess að standa við lög um fjárframlög til Kvikmyndastofnunar, en sú hefur ekki verið raunin undanfarin ár. Ég vil nú að hálfu gera þessi orð að mínum en taka þó sterkar til orða og lýsa því yfir að ég vona að íslenskir stjórnmálamenn beri gæfu til að gera bragarbót á þessum lögum fyrr en seinna, þ.e. að koma inn í þau ákvæðum um meiri fjárframlög, svo miklu máli sem þau nú skipta.
    Varðandi það hvort verr sé af stað farið en heima setið, og þau orð hef ég sjálf tekið mér í munn varðandi þetta frv., þá er ég þrátt fyrir allt ekki sammála þeirri niðurstöðu að vísa frv. aftur til ríkisstjórnarinnar. Ég held að það gæti einungis gert að verkum að málið tefðist enn frekar. Menn gætu þá skýlt sér bak við það þegar kvikmyndagerðarmenn sæktu á um aukin fjárframlög að lögin væru í endurskoðun, allt mundi lagast með nýju frv. Ég held að staða þeirra versni ekki við það að fá ný lög með aðeins ákveðnari lagaramma og með þau að bakhjarli að berjast fyrir meiri fjárframlögum og þurfi ekki að eyða meiri tíma í umfjöllun um úthlutunaraðferðir, stjórn stofnunarinnar, o.s.frv., heldur geti einbeitt sér að þessu eina atriði. Ég óska þeim sigurs í því efni sem fyrst.