Skákskóli Íslands
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. menntmn. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir áliti menntmn. Nd. um frv. til laga um Skákskóla Íslands.
    Nefndin hefur fjallað um frv. og fékk um það umsögn frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þingskjali. Á þskj. 1046 liggja brtt. fyrir. Þær eru tvenns konar.
    Í fyrsta lagi er gerð breyting á orðalagi í 6. gr. þannig að þar standi: ,,Kennslu í framhaldsdeild annast skákmeistarar sem laun þiggja samkvæmt lögum um launasjóð stórmeistara í skák.`` Hér kemur orðið ,,skákmeistarar`` í stað stórmeistarar en það er tengt þeim breytingum sem gerðar eru á frv., sem væntanlega verður hér til umræðu næst á eftir þessu í deildinni, um launasjóð stórmeistara þar sem gert er ráð fyrir að kona hljóti að jafnaði laun. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að kona sem laun hljóti frá launasjóði stórmeistara geti jafnframt kennt og skuli hafa kennsluskyldu við Skákskólann.
    Seinni breytingin er við gildistökugreinina og orðast þá svo: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1991.`` Þessi breyting er tengd því að ráðgert er að fjárveiting til skólans komi á næstu fjárlögum.
    Virðulegi forseti. Menntmn. er sammála um afgreiðslu á þessu frv. og ritar öll undir nál. til afgreiðslu málsins.