Launasjóður stórmeistara í skák
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. menntmn. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti menntmn. Nd. um frv. til laga um launasjóð stórmeistara í skák. Menntmn. hefur fjallað um frv. og fengið um það umsagnir frá Fjárlaga- og hagsýslustofnun, Jafnréttisráði og Tryggingastofnun ríkisins. Nefndin mælir með samþykkt frv. með breytingum sem gerð er tillaga um á þskj. 1048. Meginbreytingarnar sem nefndin gerir á frv. eru þrjár.
    Í fyrsta lagi er sett inn ákvæði sem tryggja á að ef kona er ekki í hópi stórmeistara skuli veita laun hverju sinni a.m.k. einni konu er náð hefur afburðaárangri í skák ef slík umsókn liggur fyrir.
    Ég tel rétt, virðulegi forseti, að grípa lítillega niður í umsögn Jafnréttisráðs varðandi þetta atriði. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Mikil vakning hefur verið meðal kvenna í skáklistinni þó enn hafi þær ekki náð stórmeistaratitli. Jafnréttisráð telur því mikilvægt að komið verði meira til móts við stöðu kvenna en gert er ráð fyrir í frv. Jafnframt þykir rétt að benda á að skv. 3. gr. laga nr. 65/1985, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, eru sérstakar tímabundnar aðgerðir sem ætlað er að bæta stöðu kvenna til að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kynjanna.``
    Það er rétt að fram komi hér að menntmn. hefur ekki gert ráð fyrir að þetta ákvæði sé tímabundið heldur sé skylt að veita einni konu slíkan styrk, ef umsókn liggur fyrir, eða slík laun.
    Meðal nefndarmanna var almennt álit að það væri gríðarlega mikilvægt, til að efla áhuga kvenna á skák og veita þeim aðstöðu til að iðka skák, að þetta ákvæði kæmi þarna inn. Jafnframt, eins og fram kom í nál. varðandi Skákskólann, eru gerðar þar breytingar en gert er ráð fyrir að sú kona sem laun þiggi samkvæmt þessum lögum hafi kennslu- og fræðsluskyldu við Skákskólann.
    Í öðru lagi eru gerðar breytingar sem miða að því að tryggja aðild þeirra er hljóta laun úr sjóðnum að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna.
    Það er rétt að vekja athygli á því að í umsögn Tryggingastofnunar ríkisins segir: ,,Til þess að opinberir starfsmenn hafi heimild til að greiða í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins þurfa þeir að vera skipaðir, settir eða ráðnir í þjónustu ríkisins, ríkisstofnana eða atvinnufyrirtækja ríkisins með föstum launum til ekki skemmri tíma en eins árs eða með minnst þriggja mánaða uppsagnarfresti, enda sé það starf þeirra aðalstarf og hlutaðeigandi taki ekki minna en hálf þau lán er slíku starfi fylgja fyrir fullan vinnutíma, sbr. 3. gr. laga nr. 29 frá 1963.``
    Það er samdóma álit og einróma vilji nefndarmanna að þeir skákmeistarar sem laun þiggja úr launasjóði stórmeistara njóti slíkra réttinda og hafi aðildarrétt að lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. Því er það áréttað hér og hefur nefndin gert þær breytingar á frv. að hún telur að tryggt eigi að vera í alla staði að skákmeistararnir njóti þessara réttinda.
    Þriðja meginbreytingin sem gerð er af hálfu

nefndarinnar er sú að sett eru inn ákvæði um stjórn fyrir sjóðinn. Þar segir að á eftir 5. gr. komi ný gr. sem orðist svo: ,,Stjórn launasjóðsins skal skipuð þremur mönnum sem tilnefndir eru til þriggja ára í senn. Menntamálaráðherra skipar tvo, og er annar þeirra formaður, en Skáksamband Íslands einn.``
    Þetta þótti nauðsynlegt í fyrsta lagi vegna þess að afgreiða þarf umsóknir og velja til að mynda konu úr hópi umsækjenda sem launin á að hljóta. Með þeim breytingum sem hér eru gerðar þarf að sækja sérstaklega um fjárveitingu til sjóðsins árlega þar sem heildarfjárveiting til sjóðsins fer eftir tölu þeirra stórmeistara sem launa njóta hverju sinni auk einnar konu a.m.k.
    Það er rétt að árétta það að menntmn. var sammála um afgreiðslu þessa frv. og ritar öll undir nál. og stendur öll að þeim brtt. sem hér liggja fyrir.