Grunnskóli
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Frsm. menntmn. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti menntmn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 63/1974, um grunnskóla, með síðari breytingum.
    Menntmn., sem öll og óskipt stendur að þessu nál., leggur til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar með sérstakri grg. sem menntmn. sendir frá sér og með ákveðnum tilmælum til ríkisstjórnarinnar. Ég vil, með leyfi forseta, gera grein fyrir nál.
    ,,Nefndin hefur fjallað um frv. og sent það til umsagnar. Allar umsagnir sem bárust voru mjög jákvæðar og tekið undir efni frv. sem er að efla tengsl grunnskólans við menningarstofnanir landsins með gagnkvæmum heimsóknum og að skólastjórum og kennurum sé skylt að gangast fyrir því að lista- og fræðimenn heimsæki skóla til að kynna nemendum íslenska menningu, sögu og arfleifð.
    Áhugi manna og skilningur á því að efla vitund barna og unglinga um íslenska menningu og sérstöðu hennar fer vaxandi. Sífellt meiri tengsl og samgöngur við erlendar þjóðir, síaukið magn fjölmiðlaefnis af ýmsu tagi á erlendum tungumálum og breyttir þjóðfélagshættir kunna að veikja stöðu íslenskrar menningar og þar með sjálfstæðis þjóðarinnar.
    Í grg. með frv. segir m.a.:
    ,,Ísland skal vera sjálfstætt ríki. Um það er ekki ágreiningur. Við eigum sameiginlega tungu, arfleifð og sögu, þ.e. sameiginlega menningu. Meðan svo er
eigum við okkur tilverurétt sem sjálfstæð eining í samfélagi þjóða. En komi of djúpir brestir í þessar stoðir sjálfstæðis okkar glötum við þeim rétti því að þá mun okkur skorta rök fyrir nauðsyn þess að halda uppi, með ærnum tilkostnaði og fyrirhöfn, svo litlu og á margan hátt óhagkvæmu þjóðfélagi hér á hjara veraldar. Því ber okkur að styrkja þessar stoðir sjálfstæðis okkar eftir mætti, jafnframt því sem við opnum gáttir til allra átta, kynnumst og tileinkum okkur það besta úr reynslu og menningu annarra þjóða.
    Þessu markmiði má ná eftir tveim leiðum og þær höfum við báðar farið. Það er annars vegar skóla- og menntakerfi, hins vegar stofnanir og starfsemi af ýmsu tagi tengd listum og varðveislu íslenskrar menningar þar sem jafnframt eru ástunduð vísindi, rannsóknir og nýsköpun. Ýmislegt má betur fara í skólum og menningarstarfsemi í landinu, en það er ekki viðfangsefni þessa frv., heldur hvernig tengja megi betur þessar tvær leiðir, þ.e. reyna að tryggja að leiðir liggi saman að einu marki.``
    Í grg. með frv. er að finna nokkrar hugmyndir um hvernig mætti standa að framkvæmd frv., engan veginn tæmandi listi, einungis til ábendingar.
    Ljóst er að markmiðum frv. verður ekki náð í einu vetfangi og fjölmörg atriði í framkvæmd þess þarfnast talsverðs undirbúnings, en brýnt er að framkvæmdin tengist áformum um lengingu skóladags grunnskólabarna í áföngum og verði fellt inn í frv. til laga um grunnskóla.
    Nefndin skorar á ríkisstjórnina að skipa sem fyrst

nefnd sem annist áðurgreindan undirbúning og leggi drög að áætlun um framkvæmd. Nefndin leiti m.a. samstarfs við helstu menningarstofnanir landsins og vinni drög að starfssamningum er miði að því að þessar stofnanir taki á verkefnaskrá sína kennslu, fræðslu og sýningar í skólum og heimsóknir skóla til þeirra. Jafnframt leiti nefndin samstarfs og samráðs við stéttar- og fagfélög listamanna og þeirra fræðimanna sem frv. tekur til í því skyni að tryggja árangursríkar en um leið hagkvæmustu leiðir í framkvæmd þess. Nefndin ljúki störfum fyrir árslok 1990 og skili skýrslu til Alþingis svo að unnt verði að hefjast handa um framkvæmd haustið 1991.
    Í trausti þess að ríkisstjórnin verði við þessari áskorun leggur nefndin til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.
    Undir þetta nál. og þessa tillögu um nefndarskipan og vísun frv. til ríkisstjórnar ritar menntmn. Nd. öll.