Virðisaukaskattur
Föstudaginn 27. apríl 1990


     Flm. (Guðmundur G. Þórarinsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Frv. er á þskj. 938, 541. mál þingsins.
    Frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. gr. 3. mgr. 34. gr. laganna orðist svo:
    Við innheimtu virðisaukaskatts skv. 1. mgr. skal veittur greiðslufrestur og gilda um hann sambærileg ákvæði og í 109. gr. tollalaga, nr. 55/1987, um greiðslufrest aðflutningsgjalda af innfluttum vörum. Eigi skal þó krefjast bankaábyrgðar fyrir greiðslum en tollyfirvöldum er heimilt að stofna sérstakan ábyrgðasjóð til tryggingar greiðslum með ábyrgðargjaldi allt að 0,10% af heildarupphæð. Gjalddagi virðisaukaskatts af innflutningi skal eigi vera fyrr en í lok næsta mánaðar eftir innflutningsmánuð.
    2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.``
    Í greinargerð sem með frv. fylgir hef ég leyft mér að segja svo, virðulegur forseti:
    ,,Í 34. gr. laganna er kveðið á um heimild fjmrh. til þess að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli. Hvergi í helstu viðskiptalöndum
okkar tíðkast að krefja innflytjendur um staðgreiðslu á virðisaukaskatti í tolli. Greiðslufrestur er almennt veittur og í frv. þessu er lagt til að ákvæði um greiðslufrest verði hliðstæð því sem tíðkast í Danmörku.
    Í 3. umr. um frv. til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt í neðri deild nú fyrir áramótin sagði fjmrh.:
    ,,Í öðru lagi vil ég ítreka það sem ég lét koma fram hér áður að ég hef undanfarið átt í viðræðum við hagsmunaaðila um upptöku virðisaukaskatts. Og eins og fram kom í máli mínu hér áðan hafa m.a. aðilar vinnumarkaðarins í þeim viðræðum lagt mikla áherslu á að ríkisstjórnin beiti áhrifum sínum til að stemma stigu við verðhækkunum við upptöku virðisaukaskatts. Í kjölfar þessara viðræðna tel ég nauðsynlegt að undirbúa ákvörðun eins og ég gat um áðan að greiðslufrestur verði veittur við innflutning á vörum þannig að hindrað verði að upptaka virðisaukaskatts verði tilefni til almennra verðhækkana nú um áramótin.``
    Í kjölfar þessarar yfirlýsingar fjmrh. var síðan 29. des. 1989 gefin út reglugerð um greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli.
    Í lok reglugerðarinnar segir:
    ,,Þrátt fyrir ákvæði 1. málsl. 1. gr. skal veita greiðslufrest á virðisaukaskatti af öllum innfluttum vörum til 31. ágúst 1990. Uppgjörstímabil og gjalddagar til 30. apríl 1990 skulu vera hinir sömu og um ræðir í 4. gr. Uppgjörstímabil frá 1. maí til 31. ágúst 1990 vegna virðisaukaskatts af öðrum vörum en þeim, sem um ræðir í viðauka við reglugerð þessa og um skulu gilda ákvæði 4. gr., skal vera einn mánuður og gjalddagi 15. dagur næsta mánaðar eftir lok uppgjörstímabils. Að öðru leyti gilda um framkvæmd

greiðslufrests á virðisaukaskatti samkvæmt þessari málsgrein ákvæði reglugerðar þessarar eftir því sem við geta átt.``
    Ljóst er því að yfirlýsing fjmrh. gildir aðeins til 31. ágúst 1990 og 30. apríl 1990.
    Ljóst er að staðgreiðsla virðisaukaskatts í tolli veldur hækkun vöruverðs enda kallar hún á mikla fjárbindingu í atvinnulífinu. Staðgreiðsla virðisaukaskatts í innflutningi mun valda hækkun allra lagerbirgða í landinu. Hér er um að ræða nokkurs konar fyrirframgreiðslu á neysluskatti því að innflytjandinn fær yfirleitt ekki endurgreiddan útlagðan kostnað fyrr en að einhverjum mánuðum liðnum.
    Útreikningar Verslunarráðs Íslands og Félags íslenskra stórkaupmanna benda til að kostnaðaraukning innflytjenda yrði á bilinu 1--2%, en því til viðbótar yrði óbein kostnaðaraukning vegna óhagkvæmra og fyrirhafnarmeiri viðskipta. Sendingar verða minni, þar af leiðandi flutningsgjöld hærri og vinna við að snúast við vörurnar hlutfallslega meiri.
    Þau rök hafa komið fram að í lagi sé að krefjast staðgreiðslu á virðisaukaskatti í tolli vegna þess að greiðslustaða innflytjenda batni með lengra uppgjörstímabili miðað við söluskattskerfið. Athugun á þessu leiðir í ljós að lengra uppgjörstímabil, tveir mánuðir í virðisaukaskatti samanborið við einn mánuð í söluskatti, losar fjármagn sem nemur um 1,4% af veltu. Staðgreiðsla á virðisaukaskatti í tolli bindur hins vegar fjármagn sem nemur frá 2,2% af veltu miðað við 45 daga meðalgjaldfrest upp í 5,5% af veltu miðað við 90 daga gjaldfrest sem er talsvert algengur í viðskiptum heildsala og smásala.
    Óhagræðið er því augljóst. Fjármagnskostnaðurinn af þessari auknu fjárbindingu veldur kostnaðaraukningu sem nemur allt að 0,8% af veltu eða rúmlega 1% ofan á álagningarstofn innflytjenda. Kostnaðarauki af óhagkvæmari viðskiptum getur numið um 1% að auki þannig að verðhækkanir vegna staðgreiðslu virðisaukaskatts í tolli geta nálgast 2%.
    Sérstök könnun hefur verið gerð á því hversu mikið álagningarprósenta tveggja stórra innflytjenda þyrfti að hækka við staðgreiðslu virðisaukaskatts í tolli. Í öðru tilvikinu þyrfti álagning að hækka um eitt prósentustig, í hinu eitt og hálft. Afar mikilvægt er að stofna ekki til slíkra verðhækkana nú þegar allt kapp er lagt á að ná verðbólgu niður í eins stafs tölu.
    Í frv. er gert ráð fyrir að tollyfirvöld geti haldið eigin ábyrgðasjóð til þess að grípa til við vanskil á skatti. Enn fremur er miðað við að almennt verði greiðslufrestur til loka næsta mánaðar eftir innflutningsmánuð.
    Upptaka virðisaukaskatts er að hluta aðlögun að aðstæðum innan Evrópubandalagsins. Mikilvægt er með tilliti til þróunar verðbólgu, áhrifa á lánsfjármarkað og samkeppnisaðstöðu íslenskra fyrirtækja í harðnandi samkeppni að veita greiðslufrest á virðisaukaskatti í tolli. Þannig yrði svipað fyrirkomulag hér og í öllum helstu viðskiptalöndum okkar.``
    Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. þessu verði að

lokinni umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn.