Öryggi á vinnustöðum
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég kom aðeins of seint á þingfund þar sem ég var í öðrum önnum og fylgdist þess vegna ekki með upphafi þessarar umræðu. Mér er því ekki alveg ljóst út á hvað hún gengur en hef þó fengið fréttir af því að hv. 2. þm. Norðurl. e. er ekki fyllilega sáttur við þær breytingar sem hann telur að sé verið að gera á lögunum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
    Nú vil ég upplýsa hv. þingmann um það að ástæðan fyrir því að þessar breytingar voru lagðar til í frv. er fyrst og fremst samþykkt Vinnueftirlitsins sjálfs í þessum efnum og þá aðila vinnuveitenda og launþega sem sitja sem fulltrúar þessara stóru samtaka í stjórn Vinnueftirlitsins. Þeir vildu færa aldursskilgreiningar til samræmingar við önnur lög í landinu, þ.e. skilgreiningar á börnum og ungmennum, til samræmingar við lög um vernd barna og ungmenna sem nýlega hafa verið endurskoðuð en þar er þessari skilgreiningu haldið og einnig í barnalögum, þannig að það væri innbyrðis samræmi á milli skilgreininga í lögum.
    Í annan stað er hér breyting sem tekur sérstaklega til hættulegra véla og hættulegra aðstæðna. Ástæðan fyrir því að sú breyting er gerð eru ítrekuð slys á unglingum á undanförnum árum þar sem þau hafa jafnvel misst líkamshluta eða e.t.v. látist vegna þess að þau unnu við aðstæður sem gátu ekki talist að neinu leyti forsvaranlegar fyrir fólk á þeirra aldri með þá fræðslu sem þau höfðu um þær vélar sem þau unnu við. Það er enginn að leggja það til að unglingar megi ekki taka þátt í atvinnulífinu og öðlast þá dýrmætu reynslu sem þau hafa ævinlega fengið þaðan og er ekki síður verðmæt en sú reynsla og sá lærdómur sem fæst úr skóla. Það er fyrst og fremst verið að leggja til samræmingu á skilgreiningu laga og að ákvæði verði sett sem komi í veg fyrir það eða dragi úr því að börn og unglingar séu sett til hættulegra starfa. Slysin eru orðin allt of mörg og allir sem sitja í stjórn Vinnueftirlitsins eru innilega sammála um að þarna þurfi að taka á málum og það er í fyllsta samræmi við álit þessara aðila sem þessar breytingar eru gerðar.