Öryggi á vinnustöðum
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Eyjólfur Konráð Jónsson (um þingsköp) :
    Herra forseti. Málið gerist nú allflókið. Ég hrökk við, satt að segja, þegar ég sá þetta á borðum núna í morgun, eins og hv. þm. Halldór Blöndal, og svo dynur það yfir að þetta sé nú bara allt saman í lögum og þurfi ekkert að afgreiða neitt af þessum nýju tillögum. ( GA: Nei, þetta sem hann er að tala um. Ekki hitt.) Ég ætla ekki að ræða málið mikið efnislega en leyfist þó, held ég, að segja það að unglingar hafi nú gott af því að vinna jafnvel lengur en 10 tíma einhvern tíma að sumarlagi og flest höfum við nú býst ég við gert það og snapað vinnu þegar við höfum getað fengið hana og unnið lengur en 10 tíma og haft mjög gott af. Ég held það þurfi að skoða þetta lengur en bara í eina eða tvær mínútur. Ég held það þurfi að skoða þetta a.m.k. til mánudagsins, hvort á að herða þá á þessum lögum sem þegar eru í gildi að einhverju leyti. (Gripið fram í.) Já, ég held það gæti vel komið til greina, að það ætti að gera það. Ég veit ekki hvað mikið gagn það gerir nú yfirleitt.