Fullorðinsfræðsla
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu á þskj. 1029. Í 1. og 2. gr. frv. er fjallað um markmið og gildissvið þess. Í 3. gr. er fjallað um yfirstjórn fullorðinsfræðslu. Þar er gert ráð fyrir því að auk fulltrúa menntmrn. fari með yfirstjórn fullorðinsfræðslu fulltrúar tilnefndir af félmrh., Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi kennarafélaga, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi ísl. sveitarfélaga, Vinnuveitendasambandi Íslands, Öryrkjabandalaginu og loks svo þeir aðilar sem hafa á hendi fullorðinsfræðslu.
    Í III. kafla frv., 5.--10. gr., er fjallað um skipulag almennrar fullorðinsfræðslu og gert ráð fyrir því að menntmrh. skipi fimm manna nefnd um almenna fullorðinsfræðslu og þar af skuli fjórir kosnir í fullorðinsfræðsluráði sem er skipað skv. 3. gr. eins og ég gat um áðan.
    Í 11.--13. gr. er fjallað um fjármál fullorðinsfræðslunnar og gert ráð fyrir því að stofnaður verði menntunarsjóður fullorðinna. Tekjur hans verði aðallega framlag ríkissjóðs á fjárlögum ár hvert. Stjórn menntunarsjóðsins á að úthluta styrkjum úr sjóðnum og fræðsluaðili sem vill sækja um styrk úr sjóðnum fær þar sérstaka meðferð skv. tilteknum skilyrðum sem greint er frá í 12. gr. frv.
    Hinn 14. apríl 1988 skipaði Sverrir Hermannsson, þáv. menntmrh., nefnd til að fjalla um fullorðinsfræðslu. Í nefndinni voru Karl Kristjánsson, deildarsérfræðingur í menntmrn., sem var formaður nefndarinnar, Birna Bjarnadóttir, skólastjóri Bréfaskólans, Guðrún Halldórsdóttir, forstöðumaður Námsflokka Reykjavíkur, Margrét S. Björnsdóttir, endurmenntunarstjóri við Háskóla Íslands, Þuríður Magnúsdóttir, forstöðumaður Fræðslumiðstöðvar iðnaðarins, og Helgi Guðmundsson, þáv. formaður MFA. Í júnímánuði 1988 tók Guðrún Friðgeirsdóttir, skólastjóri Bréfaskólans, við af Birnu Bjarnadóttur er látið hafði af starfi við þann skóla.
    Nefndinni var ætlað að vera menntmrn. til ráðgjafar um málefni fullorðinsfræðslu og undirbúa tillögur um skipan þeirra mála. Í maí 1989 fól ég þessari sömu nefnd að semja frv. til laga um fullorðinsfræðslu, en áður höfðum við, ég og hæstv. félmrh., komið okkur saman um að starfsmenntun í atvinnulífinu skyldi heyra undir félmrn. en önnur fullorðinsfræðsla undir menntmrn. Um líkt leyti fól Jóhanna Sigurðardóttir, hæstv. félmrh., nefnd að semja frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það frv. liggur nú hér fyrir hv. Ed.
    Í greinargerð með frv. er gerð grein fyrir meginforsendum þess. Bent er á tengslin milli almennrar fullorðinsfræðslu og starfsmenntunar í atvinnulífinu. Bent er á það að mörg frv. hafi áður verið flutt um þetta mál á Alþingi. Viðamesta frv. var flutt 1974 og 1980 var lagt fram frv. um fullorðinsfræðslu af þáv. hæstv. menntmrh. Vilmundi Gylfasyni, en það var samið af nefnd sem skipuð var

af Vilhjálmi Hjálmarssyni menntmrh. árið 1978.
    Í greinargerð frv. er gerður greinarmunur annars vegar á almennri fullorðinsfræðslu og hins vegar starfsmenntun í atvinnulífinu. Hyggst ég ekki fara um það mál mörgum orðum hér, virðulegi forseti, en undirstrika af minni hálfu þetta:
    Ég er þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að fullorðinsfræðsla, hvar sem hún fer fram, sé skipulögð sem ein heild ef nokkur kostur er, hvort sem hún er á vegum skóla eða atvinnulífs. Í upphafi starfs míns sem menntmrh. kynnti ég þetta sjónarmið, m.a. í hæstv. ríkisstjórn. Þar kom þá fram að aðilar vinnumarkaðarins, sem svo eru nefndir, lögðu mjög mikla áherslu á það að starfsmenntun í atvinnulífinu væri skipað með sérlögum. Þess vegna ákváðum við, hæstv. félmrh. og ég, að reyna að tengja þessi mál saman með öðrum hætti. Og í þessu frv. er gert ráð fyrir aðild félmrn., verkalýðssamtaka og atvinnurekenda að yfirstjórn hinnar almennu fullorðinsfræðslu líka.
    Fyrir þinginu, í félmn. hv. Ed., liggur nú frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu. Það má segja að þessi tvö mál séu náskyld, svo náskyld að þau hljóti að verða samferða og menn verði að líta á þau í samhengi til þess að tryggja að þar séu hlutirnir með eðlilegum hætti. Gallinn við skipan þessara mála hefur aðallega verið sá að það hefur verið veggur á milli skóla og atvinnulífs hér á landi og menn hafa oft og tíðum ekki fengist til að mynda eðlileg tengsl þarna á milli. Ég tel að það eigi bæði við um verkalýðssamtökin og atvinnurekendasamtökin og það hefur einnig átt við um skólakerfið. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að miðað við þá þróun sem hér þarf að vera, þar sem opnað er þarna á milli með eðlilegum og faglegum hætti auðvitað, þyrfti að halda þannig á málum að þessi mál, bæði um starfsmenntun í atvinnulífinu og almenna fullorðinsfræðslu, verði afgreidd samhliða þannig að möguleikar skapist á að opna gagnvegi á milli þessara tveggja kerfa. Ég tel að það væri beinlínis hættulegt að byggja upp annað kerfið án þess að hitt væri til.
    Um þetta gæti ég margt sagt fleira, virðulegi forseti, en tel ekki rétt að gera það á þessu stigi málsins. Ég vænti þess að frv. fái góðar undirtektir í hv. menntmn. og nái þar afgreiðslu því að um málið er mjög víðtæk fagleg og pólitísk samstaða. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.