Fullorðinsfræðsla
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu. Aðalkostur þessa frv. er að hér er um mjög þarft mál að ræða sem hefði í raun átt að vera komið til framkvæmda fyrir löngu. Frv. er í raun einfalt og nokkuð skýrt, en ég lít svo á að aðalókostur þess sé að þau tvö frv., sem hér hefur verið minnst á, þ.e. frv. til laga um almenna fullorðinsfræðslu og frv. til laga um starfsmenntun í atvinnulífinu, skuli ekki hafa verið samræmd. Þau eru það nátengd að mörgu leyti, t.d. eru framkvæmdaraðilar þessara laga um margt þeir sömu. Þeir munu þá koma til með að þurfa að vinna samkvæmt þrennum lögum, ef þessi frv. verða að lögum. Þeir verða að vinna samkvæmt lögum um almenna fullorðinsfræðslu, samkvæmt lögum um starfsmenntun í atvinnulífinu og síðan samkvæmt þeim lögum sem gilda um þá sjálfa. Þannig að þeir hafa þrennum lögum að sinna. Nægir að nefna ýmsa fjölbrautaskóla út um landið, t.d. Fjölbrautaskólann á Selfossi og Námsflokka Reykjavíkur. Þetta virðist óhentugt, en ég álít þó að bæði frv. taki á hinum merkustu málum og hinum brýnustu málum sem sjálfsagt er að huga vel að, jafnvel þó að svo áliðið sé á þingið sem nú er.
    Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í efnisumræðu um málið því að ég er meira og minna sammála flestu sem þar kemur fram. Ég vildi kannski aðeins víkja að 7. gr. Þar er vikið að því að starfsreynsla sé metin til námseininga í skólakerfinu samkvæmt reglum sem menntmrn. setur. Ef hæstv. menntmrh. vildi aðeins leggja eyrað við þá held ég að það sé mikilvægt í sambandi við 7. gr. að tekið sé gagnkvæmt tillit til starfsreynslu á starfsvettvangi sem lögð sé að jöfnu við námseiningar í skólakerfinu og hæfni þeirra sem koma úr skólunum og ætla inn á starfsvettvang. Þeir fái metnar sínar námseiningar t.d. í uppeldisfræði eða félagsfræðideild í fjölbrautaskóla ef þeir ætla síðan að vinna á barnaheimili, að þeir námsáfangar verði metnir á svipaðan hátt og starfsreynsla á vettvangi, þannig að það sé jafnræði á milli verklegrar og bóklegrar þekkingar. Annar aðilinn sé ekki stöðugt að sækja viðurkenningu upp á við en það sé nokkuð meira jafnræði. Ég held að það gæti bætt framkvæmd málanna.
    Síðan veit ég að það var rætt í nefndinni, sem samdi frv., í sambandi við 13. gr. og menntunarsjóðinn, hvort ríkið ætti í raun að eiga höfundarréttinn einskorðaðan eða hvort þeir aðilar sem sendu inn námsefni gætu ekki átt höfundarréttarkröfu til þess námsefnis sem þeir sendu.
    Síðan vil ég aðeins minna hæstv. menntmrh. á athugasemdirnar varðandi 12. gr., sem varða menntunarsjóðinn, en þar er einmitt fjallað um fræðsluvarp, þ.e. minnt á ákvæði í frv. til laga um útvarpslög þar sem segir að tryggðar skuli vera fjárveitingar til kennsluútvarps eða fræðsluvarps sem geti einmitt nýst fullorðinsfræðslu og vafalaust starfsmenntun í atvinnulífinu líka.

    Það er úrslitaatriði í sambandi við þetta frv., eins og mörg önnur, að til þess fáist fjárveitingar sem duga. Ef um fjárskort verður að ræða, ef ekki fæst fé til framkvæmdanna er til lítils að samþykkja þetta frv. Minni ég einmitt á fræðsluvarpið. Það var lagt niður vegna þess að til þess fékkst ekki fé.