Skákskóli Íslands
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um Skákskóla Íslands en frv. hefur þegar sætt meðferð í hv. Nd. og náðist þar full samstaða um málið.
    Hlutverk Skákskóla Íslands er í fyrsta lagi að þjóna sem almenn kennslustofnun fyrir frjálst skáknám allra aldurshópa, en mikil eftirspurn hefur verið eftir slíku námi á undanförnum árum.
    Í öðru lagi að þjóna sem eins konar háskóli á sviði skáklistarinnar. Í framhaldsdeild skólans fari fram markviss þjálfun og nám ungmenna sem skarað hafa fram úr. Sú þjálfun og fræðsla yrði í höndum stórmeistaranna, sbr. frv. til laga um launasjóð stórmeistara sem ég mun mæla fyrir síðar á fundinum.
    Í þriðja lagi er skólanum ætlað það hlutverk að þjóna landsbyggðinni með erindrekstri, námskeiðahaldi og farkennslu af ýmsu tagi.
    Það á jafnframt að vera hlutverk Skákskóla Íslands að auka veg kvenna í skák og stuðla þannig að jafnrétti kynjanna á þessu sviði.
    Það er gert ráð fyrir því að Skáksamband Íslands reki skóla þennan í samvinnu við menntmrn. og að fjármunum til skólans verði varið svo sem segir í 2. gr.
    Í 3. gr. er gerð grein fyrir hlutverki Skákskólans. Í 4. gr. segir að í skólastjórn Skákskólans eigi að vera þrír menn sem tilnefndir eru af menntmrh., Skáksambandi Íslands og Félagi ísl. stórmeistara.
    Tilgangurinn með stofnun þessa skóla er ekki síst sá að tryggja að það skapist eðlileg starfsaðstaða fyrir þá menn sem eru stórmeistarar og eru á launum hjá ríkinu. En í 8. gr. er þó gert ráð fyrir því að menntmrh. verði heimilt að semja við önnur félagasamtök eða einkaaðila um að reka skákskóla.
    Við meðferð málsins í hv. Nd. urðu tvær breytingar á frv. Í 6. gr. var bætt við nýjum málsl. sem orðast svo: ,,Kennslu í framhaldsdeild annast skákmeistarar sem laun þiggja samkvæmt lögum um launasjóð stórmeistara í skák.`` Þannig eru lögin tengd saman. Síðan var gildistökuákvæðinu breytt þannig að gert er ráð fyrir því núna að lögin öðlist gildi 1. jan. 1991.
    Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.