Launasjóður stórmeistara í skák
Laugardaginn 28. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Íslenskir stórmeistarar í skák hafa á undanförnum áratugum, eða allt síðan Friðrik Ólafsson, fyrstur Íslendinga vann til stórmeistaratignar árið 1957, notið launa hjá íslenska ríkinu. Nú eru fjórir stórmeistarar á launaskrá menntmrn. og stunda ekki aðra vinnu en skákiðkunina.
    Sá háttur hefur verið hafður á að stórmeistarar þessir hafa með ráðherraúrskurði verið settir á launaskrá hjá ráðuneytinu og í fjárlögum hefur verið veittur sérstakur styrkur árlega til að standa straum af kostnaði vegna þessa. Engar reglur hafa þó til þessa verið settar um réttindi og skyldur stórmeistara, vinnuframlag eða launagreiðslur til þeirra. Það er á hinn bóginn ljóst að fleiri muni bætast í hóp stórmeistara á næstu árum og er því löngu tímabært að settar verði fastmótaðar reglur um framtíðarskipan þessara mála.
    Hér er lagt til að stofnaður verði með lögum launasjóður stórmeistara í skák og stofnfé sjóðsins samsvari árslaunum fjögurra háskólakennara, eins og frv. var í upphafi þegar ég lagði það fram. En hv. Nd. gerir ráð fyrir því, eins og frv. lítur nú út, að í sjóðnum verði upphæð sem samsvarar árslaunum fimm háskólakennara.
    Nokkrar breytingar urðu á frv. í Nd. Í fyrsta lagi er nú gert ráð fyrir því að stofnfé sjóðsins verði, eins og ég sagði, samsvarandi fimm árslaunum háskólakennara, lektora.
    Þá eru einnig gerðar nokkrar breytingar á öðrum greinum frv. Ber þar hæst breytingu sem var gerð á 3. gr., en þar segir:
    ,,Rétt til greiðslu úr sjóðnum hafa þeir íslenskir skákmeistarar sem öðlast hafa alþjóðlegan titil stórmeistara og sýna skákstyrk sinn með því að ná stórmeistaraárangri a.m.k. einu sinni á þriggja ára tímabili.
    Ef ekki er kona í hópi stórmeistara skal veita laun hverju sinni a.m.k. einni konu er náð hefur afburðaárangri í skák, ef slík umsókn um laun liggur fyrir.
    Þeir sem greiðslu hljóta úr sjóðnum skulu settir eða ráðnir til a.m.k. eins árs í senn eða ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti.``
    Í 4. gr. þar sem gert var ráð fyrir því að miða eingöngu við stórmeistara hefur því orði verið breytt og í staðinn kemur orðið skákmeistari.
    Síðan er 5. gr. í raun og veru breytt í samræmi við það sem áður var komið að öðru leyti en því að hnykkt er á varðandi réttindi og skyldur skákmeistaranna. Gert er ráð fyrir að þeir verði opinberir starfsmenn og að þeir njóti lífeyrisréttinda úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, enda uppfylli þeir að öðru leyti ákvæði laga nr. 29/1963.
    Aðrar breytingar urðu ekki á málinu við meðferðina í hv. Nd. þar sem fullt samkomulag náðist. Ég legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.